Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:21:58 (1826)

2001-11-20 17:21:58# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af orðum síðasta hv. ræðumanns um að æskilegt væri að kvótakerfin þróuðust þannig að þau yrðu ekki allt of flókin, a.m.k. skildi ég efni ræðu hans þannig hérna í lokin um að fækka fisktegundum. Ég er honum alveg sammála um þetta atriði, sérstaklega að því er varðar blandaðar botnfiskveiðar. Það er mjög erfitt að tína alltaf inn í fleiri og fleiri tegundir, tegundir sem við margar veiðar eru bara hreinn meðafli, ekki í miklu magni en meðafli samt, og koma í veiðarfæri eða á króka án þess að nokkur leið sé að komast fram hjá því. Þess vegna vil ég segja það að fyrir tíð hæstv. núv. sjútvrh. var það lagt til af þeim sem hér stendur að reynt yrði að hafa eins fáar tegundir og mögulegt væri í hinu almenna aflamarkskerfi og að útgerðarflokkarnir væru valdir miðað við veiðarfæranotkun sérstaklega og að þær tegundir sem væru uppistöðuafli við hverja veiðiaðferð væru notaðar í kvótann. Ef ég man rétt lagði ég til að það væri þorskur, ýsa og ufsi hjá netabátum, karfi, grálúða og þorskur hjá togurum og þannig áfram koll af kolli.

Þá vil ég spyrja hv. þm., síðasta ræðumann, hvort hann eigi þá við að þær tegundir sem eftir eru, þegar búið er að einfalda þetta með þessu lagi, séu reiknaðar í þorskígildum þannig að raunverulega þurfi menn ekki að stunda neina tilfærslu heldur sé það bara þorskígildareikningur sem menn fá úthlutað.