Samgöngumál á Norðausturlandi

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:12:00 (1878)

2001-11-21 14:12:00# 127. lþ. 33.5 fundur 283. mál: #A samgöngumál á Norðausturlandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera upp þessar fyrirspurnir hér um afar mikilvæga vegagerð á norðausturhorninu. Hv. þm. spyr fyrst:

,,Hvað líður undirbúningi að ákvörðun veglínu frá Brunahvammshálsi og niður í Vopnafjörð?``

Svar mitt er: Unnið er að skoðun á veglínum frá Brunahvammshálsi og niður í Vopnafjörð. Svæðið hefur verið kortlagt og leitað mögulegrar veglínu á kortum en einnig hafa vettvangsskoðanir farið fram. Stefnt er að því að tillaga um veglínu geti legið fyrir á árinu 2002. Rétt er að undirstrika að hér er um viðkvæmt land að fara og þess vegna mjög mikilvægt að undirbúa þessa framkvæmd vel og huga að því hvernig hægt er að leggja í landinu veglínu svo minnst röskun verði í náttúrunni.

Í annan stað spyr hv. þm.:

,,Hvenær er þess að vænta að fjárveitingar til fyrrgreinds verks verði á vegáætlun?``

Svar mitt er að vegáætlun verður endurskoðuð í vetur en samkvæmt gildandi langtímaáætlun í vegagerð sem samþykkt var á Alþingi vorið 1998 er gert ráð fyrir fjárveitingu til verksins, annars vegar á öðru tímabili sem nær yfir árin 2003--2006 og síðan á þriðja tímabili sem nær yfir árin 2007--2010.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.:

,,Hvenær má vænta þess að uppbyggingu vegar milli Vopnafjarðar og Þórshafnar ljúki?``

Svar mitt er það að ekki liggur fyrir tímasett áætlun um það hvenær uppbyggingu vegar milli Vopnafjarðar og Þórshafnar ljúki en geta má þess að samkvæmt gildandi vegáætlun fyrir árin 2000--2004 er gert ráð fyrir að byggingu vegarins milli Vopnafjarðar og Bakkafjarðar verði lokið á árunum 2002--2004.