Afnám kvótasetningar

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:56:40 (1900)

2001-11-21 14:56:40# 127. lþ. 33.7 fundur 210. mál: #A afnám kvótasetningar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:56]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur er í tveimur liðum. Fyrri liðurinn hljóðar svo:

Hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til að ráðherra geti ákveðið að gefa veiðar á kvótasettum nytjastofni frjálsar?

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skal sjútvrh., að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Heimildir til veiða skulu miðast við það magn.

Samkvæmt ofansögðu gerir Hafrannsóknastofnunin í upphafi hvers fiskveiðiárs tillögu um nýtingu einstakra nytjastofna. Það er síðan ráðherra að ákveða hvort nauðsynlegt sé að takmarka veiðar úr tilteknum stofnum og þá við hvaða magn. Ráðherra er ekki bundinn af tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar í þessum efnum, engin ákvæði eru í lögum um hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að ráðherra ákveði að veiðar úr stofni, sem á einu ári eru kvótasettar, skuli ekki vera kvótasettar á því næsta.

Seinni spurningin hljóðar svo:

Telur ráðherra að þau skilyrði hafi verið fyrir hendi varðandi steinbít sl. vor? Ef svo var, af hverju var tegundin þá kvótasett aftur?

Við umræðu um veiðiheimildir krókaaflamarksbáta á síðasta vetri og vori kom upp sú tillaga að gefa veiðar á steinbít frjálsar, þó þannig að veiðar á tilteknum hrygningarsvæðum yrðu bannaðar. Miðaði þessi hugmynd að því að bæta stöðu krókaaflamarksbáta, sem í vaxandi mæli höfðu lagt sig eftir þessari tegund og studdist hún m.a. við þau rök að jafnvægi væri í veiðum á þessari tegund og ástandi stofnsins og að verulega hafði skort á að aflamarksbátarnir hefðu nýtt aflaheimildir sínar og því hefði getað vantað upp á 1.500--2.000 tonn á veiðar á steinbít miðað við kvótann sem ákveðinn hefði verið.

Eftir að ákvörðun um að steinbítur yrði utan kvóta hafði verið kynnt kom í ljós að verulegur hluti krókaaflamarksbáta var á móti þessari breytingu vegna þess að þeir töldu að aflamarksbátarnir mundu veiða mun meira undir hinum nýju kringumstæðum en þeir höfðu hingað til gert. Einnig reyndist steinbítsafli krókaaflamarksbáta á fiskveiðiárinu 2000--2001 hafa aukist mun meir en ráð hafði verið fyrir gert. Var í því ljósi tekin sú ákvörðun um að steinbíturinn yrði áfram í kvótanum.