Afnám kvótasetningar

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:04:59 (1904)

2001-11-21 15:04:59# 127. lþ. 33.7 fundur 210. mál: #A afnám kvótasetningar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að svara hv. fyrirspyrjanda sem mér finnst nú reyndar ekki hafa hlustað nægjanlega vel á svar mitt. Ég tel að ráðherra hafi það vald að geta ákveðið hvort hann reyni að takmarka veiðarnar gegnum kvótakerfi eða eftir öðrum leiðum, sé talið nauðsynlegt að takmarka veiðarnar við eitthvert ákveðið magn. Vísindalega ráðgjöfin getur þar af leiðandi nýst þrátt fyrir að ekki sé kvóti á viðkomandi tegund.

Grundvöllur ákvörðunarinnar frá því í vor, þeirrar sem dregin var til baka, var sú skoðun að 1.500--2.000 tonn af kvótanum mundu detta dauð niður við þær breytingar sem gengu í garð 1. september sl. Þessari skoðun var síðan mótmælt og færð rök fyrir því og á þeim grundvelli var ákvörðuninni breytt.

Mér finnst hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafa verið ansi hógvær með þá skoðun sína, að hann hefði verið ánægður með ákvörðun mína sl. vor að taka steinbítinn út úr kvóta. Reyndar er sú afstaða talsvert í andstöðu við þann tón sem mér heyrist á máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur varðandi þessa ákvörðun. En það er hins vegar enginn hægðarleikur að stjórna án þess að vera með kvótakerfið þó að það sé hægt. Ég hef reyndar ekki tekið eftir þeirri stefnu hv. þm., sem hann var þarna að kynna og afstöðu hans gagnvart kvótakerfinu, í frv. Samfylkingarinnar. Svo öllu sé til skila haldið þá lýsti hv. þm. Jóhann Ársælsson hins vegar yfir mikilli hrifningu yfir þessari ákvörðun minni frá því í vor en hann, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, var líka afar hógvær með þessa skoðun sína sl. vor.

Það má raunar segja að ég hafi svarað hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni í svörum mínum við spurningum hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. þ.e. spurningunni: Hvers vegna er ekki er lokað með svæðalokunum eða veiðarfærum? Ákvörðunin var dregin til baka á þeim grundvelli, herra forseti, að þær forsendur um 1.500--2.000 tonn mundu ekki nást, þær væru ekki byggðar á réttum grunni og að mun meira mundi veiðast en ella hefði verið. (Forseti hringir.) Fyrirgefðu, herra forseti, þó ég segi frá því en heildaraflinn á síðasta ári fór í 18 þús. tonn.