Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 18:04:03 (1926)

2001-11-21 18:04:03# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Áður en ég hef mál mitt vildi ég inna eftir því hvort hv. formaður fjárln. sé viðstaddur. Mér finnst eðlilegt að hann sé viðstaddur umræðuna núna. Eins og hæstv. forseti sér eru nú aðeins staddir hér á hinu háa Alþingi, virðulegur forseti þingsins, hv. þm. Gísli S. Einarsson og sá sem hér stendur.

(Forseti (ÍGP): Forseti mun þegar í stað kalla eftir hv. 12. þm. Reykv., Ólafi Erni Haraldssyni. Forseti sér að hann er í húsinu eins og flestir þingmenn. Þingflokksfundum var að ljúka og mun forseti sjá til þess að Ólafur Örn Haraldsson komi hér von bráðar.)

Virðulegur forseti. Þá vil ég einnig inna eftir því hvort hæstv. fjmrh. sé hér því að nú stendur yfir 2. umr. fjáraukalaga sem er eins konar úttekt á störfum ríkisstjórnarinnar hvað umsýslu fjármála ríkisins varðar á árinu. Mér þætti vænt um ef það væri hægt að fá hæstv. fjmrh. hingað, virðulegi forseti.

(Forseti (ÍGP): Á sama hátt sér forseti að hæstv. fjmrh. er í húsinu. Forseti mun sjá til þess að hann fái þessi skilaboð.)

Herra forseti. Frumvarp til fjáraukalaga kemur nú til 2. umr. við miklar óvissuaðstæður í efnahagsmálum. Það er fyllilega tilefni til þess að líta yfir árið, það sem liðið er af því, hvað varðar stjórn efnahagsmála og þau markmið sem hæstv. ríkisstjórn setti sér við gerð og ákvörðun fjárlaga á liðnu ári fyrir þetta ár og hvað hefur áunnist. Staðreyndin er sú, herra forseti, að ekki hefur allt gengið eftir sem þá var ætlað. Gengi íslensku krónunnar hefur haldið áfram að falla þrátt fyrir aðgerðir Seðlabankans og er fullkomlega óvíst hvenær gengisfallið mun stöðvast. Síðan í ágúst á þessu ári hefur það fallið um 9% og náði sögulegu lágmarki í gær með gengisvísitölunni 149,5 og Bandaríkjadollar var þá kominn í 108,92 kr. Ef við horfum til baka til 2. október í fyrra, fyrir um ári síðan, var gengisvísitalan þá einungis 115,2 og dollarinn á 82,90 kr. Það hafa því orðið veruleg umskipti, gríðarleg umskipti í gengismálum þjóðarinnar. Verðbólga á árinu er langt umfram þau markmið sem Seðlabankanum voru sett við stjórn peningamála og útlit er fyrir að enn muni líða að minnsta kosti eitt ár þar til stöðugt verðlag verður að veruleika. En nú spáir Seðlabankinn 8,5% verðbólgu frá upphafi til loka þessa árs sem er langt umfram það sem honum hafði verið ætlað að tryggja. Verðbólgan rýrir nú hratt kaupmátt launþega og setur kjarasamninga í hættu á almennum vinnumarkaði. Kjaraviðræður ríkisins við sína eigin launþega eru einnig í uppnámi. Kjaradeilan við sjúkraliða hefur nú þegar haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsugæslu í landinu. Atvinnuleysi er tekið að aukast og horfur eru dekkri í rekstri margra fyrirtækja en hafa verið um langt árabil. Vextir hérlendis eru rúmlega 9% hærri en í helstu viðskiptalöndum okkar og þeir, ásamt þenslu á innanlandsmarkaði, eru þungur baggi sem er farinn að sliga atvinnulífið.

Herra forseti. Í stuttu máli blasir við að góðærið margumtalaða er nú komið að endapunkti. Ríkisstjórn hefur flotið sofandi að feigðarósi. Hættumerkin í þróun efnahagsmála hafa blasað við í a.m.k. tvö ár: Mikill viðskiptahalli, erlend lántaka og mikil aukning útlána bankakerfsins. Allt hefur þetta átt sér stað og var ljóst. Hægt hefði verið að bregðast við þessum hættumerkjum áður en komið var í óefni. Þess í stað hefur ríkisstjórnin með forsætisráðherra og fjármálaráðherra í broddi fylkingar fullyrt að allt væri í stakasta lagi og þverneitað allri gagnrýni. Í þessari sjálfsblekkingu hefur ríkisstjórnin gert röð mistaka í hagstjórninni. Ástandið er enn verra og útlitið enn dekkra en þyrfti að vera ef réttum viðbrögðum hefði verið beitt.

Í stað þess að styrkja innviði atvinnulífsins, byggð og búsetu í landinu öllu, hefur ríkisstjórnin blásið upp tímabundið góðæri með einkavæðingu á mikilvægum þjónustufyrirtækjum og skertri almannaþjónustu, gífurlegri byggðaröskun og skuldasöfnun þjóðarbúsins erlendis. Ein afleiðing þess er sú að tekjur ríkisins dragast hraðar saman en tekjuáætlun fjárlaga gerir nú ráð fyrir. Að mati Seðlabanka Íslands eru tekjur ríkissjóðs reyndar þegar farnar að minnka mjög hratt og vafasamt að forsendur fjárlaga haldi, eins þær eru nú settar fram. Enn fremur er ljóst að þær tekjur sem átti að afla með sölu ríkisfyrirtækja hafa ekki enn skilað sér, en áfram er reiknað með þeim sölutekjum í fjárhagsuppgjöri ársins.

Herra forseti. Lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, kveða á um þá umgjörð sem sett er allri vinnu við gerð frumvarps til fjárlaga og, ef nauðsyn krefur, frumvarps til fjáraukalaga. Í 21. gr. þeirra laga stendur, með leyfi forseta:

,,Frumvarp til fjárlaga skal samið með hliðsjón af þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Skulu áætlanir um tekjur og gjöld í frumvarpinu gerðar á sömu meginforsendum og þjóðhagsáætlun.

Fjárlagatillögum aðila í A-, B- og C-hluta skal skilað til viðkomandi ráðuneytis. Hvert ráðuneyti skal skila fjárlagatillögum til fjármálaráðuneytisins eftir nánari reglum sem settar eru í reglugerð.

Forsætisnefnd Alþingis gerir ár hvert tillögu um fjárveitingar til Alþingis og stofnana þess, samkvæmt ákvæðum þingskapa, innan þess frests sem almennt gildir, og sendir forsætisráðherra.``

Þegar fjárlög hafa verið samþykkt og afgreidd frá Alþingi bera forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir.

Nú getur ýmislegt breyst í tekjuöflun eða útgjöldum ríkisins og stofnana þess á heilu ári. Á því taka lögin um fjárreiður ríkisins einnig. Í 33. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.``

Í 44. gr. er kveðið nánar á um frumvarp til fjáraukalaga. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Heimilda fyrir fjárráðstöfunum af þessu tagi, sem grípa þarf til eftir samþykkt fjáraukalaga, skal leitað í lokafjárlögum, sbr. 45. gr.

Öðrum óskum um breyttar heimildir til fjárráðstafana en getur í 1. mgr. skal jafnan vísað til ákvörðunar Alþingis í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.``

Herra forseti. Frumvarp til fjáraukalaga sem hér er til 2. umr. var lagt fram í upphafi þings þetta haust. Síðan þá hefur fjárlaganefnd haft frumvarpið til meðferðar og fengið á sinn fund fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana sem bæði hafa lagt fram viðbótarbeiðnir og fært rök fyrir auknum fjárheimildum innan fjárlagaársins.

[18:15]

Í langflestum tilvikum er hér um að ræða útgjöld sem hafa þegar verið innt af hendi eða framkvæmdarvaldið hefur skuldbundið sig til að greiða. Það er því nánast formsatriði hjá Alþingi að afgreiða aukin útgjöld á fjáraukalögum eins og hér er lagt fram. Það vinnulag að stofna til útgjalda fyrst og leita svo heimilda eftir á gengur þvert á anda laganna um fjárreiður ríkisins.

Til þess að bæta úr þessu hefur undirritaður lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins sem kveður á um að þegar svo ber undir skuli fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjáraukalaga fyrir Alþingi að vori og aftur að hausti.

Þingið samþykkir lög fyrri hluta árs sem geta haft í för með sér fjárskuldbindingar innan sama árs sem þarf að taka afstöðu til. Ýmsar forsendur geta einnig breyst eins og dæmin sanna sem bregðast þarf við. Það hlýtur því að liggja beint við að fjárlaganefnd taki þau mál til meðferðar og leggi fram fjáraukalagafrumvarp sem verði afgreitt fyrir þinglok að vori. Önnur fjáraukalög geta verið afgreidd í byrjun október og síðan koma lokafjárlög. Með þessu getur Alþingi stýrt útgjöldum og brugðist við breyttum forsendum og komið í veg fyrir að efnt sé til útgjalda án heimildar Alþingis nema í algjörum undantekningar- og neyðartilvikum eins og lög um fjárreiður ríkisins kveða á um.

Herra forseti. Samkvæmt þeim tillögum sem enn er unnið eftir í fjáraukalagafrumvarpinu eru tekjur ríkissjóðs á árinu áætlaðar um 253 milljarðar kr. en endurskoðuð útgjöld nú við 2. umr. fjáraukalaga eru 233,5 milljarðar kr. Tillögur um hækkun útgjalda frá fjárlögum nema nú samtals 14.357 þús. kr. Endurskoðuð tekjuáætlun fyrir árið 2001 liggur enn ekki fyrir en allar líkur benda til að tekjur verði mun minni en fjárlög ársins gera ráð fyrir. Þá er og líklegt að enn aukist við gjaldahliðina. Niðurstöðutölur geta því átt eftir að breytast við 3. umr.

Fjárlaganefnd er kunnugt um fjárhagsvanda og uppsafnaðan halla margra stofnana og heilla málaflokka sem ekki fá úrlausn samkvæmt þessu fjáraukalagafrumvarpi. Þar má telja fjárskuldbindingar vegna félagslega húsnæðiskerfisins sem velt var einhliða yfir á sveitarfélögin. Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins er óleystur þótt leyfð hafi verið lítils háttar hækkun á afnotagjöldum á næsta ári. Margir framhaldsskólar sitja uppi með skuldir frá fyrri árum og eiga í miklum fjárhagserfiðleikum og verða því að skera niður námsframboð af þeim sökum. Þar er ljóst að framkvæmdarvaldið hefur verið uppteknara við að einkavæða skólakerfið og fella rekstur framhaldsskólanna inn í miðstýrð reiknilíkön en að efla og þróa skólastarfið sjálft, stöðu þess og markmið og þá menntun sem skólarnir veita, treysta bönd skóla og skólastarfs við fjölskyldulíf, atvinnuvegi og sitt nánasta umhverfi.

Bæði Skólameistarafélag Íslands og Félag framhaldsskóla hafa þráfaldlega bent á grundvallarskekkjur í þeirri reiknireglu sem nú er beitt við skiptingu fjár á skólana og birtist í því að fjármagn er skert til skóla með verknáms- og starfsnámsbrautir og skóla sem reka heimavistir og þeir sitja nú með skuldir svo skiptir tugum eða jafnvel hundruðum milljóna króna. Fjárhagsvanda einstakra framhaldsskóla verður að leysa þegar í stað. Brýnt er að hugmyndafræðin að baki reiknilíkansins við skiptingu fjárins verði endurskoðuð þannig að stutt verði við metnaðarfullt og fjölbreytt nám hvarvetna á landinu, nám sem taki mið af þörfum allra nemenda og tryggi góðan starfsanda. Fullt tillit á að taka til séraðstæðna hvers skóla.

Herra forseti. Ég vil hér inna hv. formann fjárln. hvað líði endurskoðun á reiknilíkani framhaldsskólanna sem þeir hafa fengið útdeilt fjármagni eftir, sem hefur reynst þeim mjög erfitt og mismunað mörgum. Og hvað líður ákvörðunum um að létta skuldum sem hafa safnast upp hjá ýmsum framhaldsskólum vegna óréttláts reiknilíkans, en þeir framhaldsskólar eiga mjög erfitt með að reka starf sitt eðlilega?

Mörg sveitarfélög eiga nú í alvarlegum fjárhagsvanda. Í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hefur mjög hallað á sveitarfélögin. Hluti af fjárhagsvanda sveitarfélaganna er til kominn vegna skuldbindinga í félagslega húsnæðiskerfinu. Félagsíbúðirnar voru liður í opinberri stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. Ríkisvaldið, sveitarfélög, lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins sameinuðust um að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd víða um land. Það var Alþingi sem setti lögin og ákvað einhliða að ábyrgðin og innlausnarskyldan á íbúðunum ætti að hvíla á sveitarfélögunum. Undirritaður er fyrsti flutningsmaður að frumvarpi til fjáraukalaga sem liggur fyrir þinginu þar sem lagt er til sem fyrsta skref að verja allt að einum milljarði króna til að greiða úr bráðavanda sveitarfélaganna vegna félagslega íbúðakerfisins. Samkvæmt upplýsingum Sambands íslenskra sveitarfélaga er talið að færa þurfi þessi lán niður um allt að 3 milljörðum króna vegna þessa hjá hinum ýmsu sveitarfélögum.

Herra forseti. Það er afar brýnt að leysa fjárhagsvanda félagslega íbúðakerfisins heildstætt og á landsvísu en ekki að þvinga einstök sveitarfélög til að selja eignir sínar til að standa skil á skuldbindingum sem þjóðin öll ber sameiginlega ábyrgð á. Þess er vænst að frumvarp undirritaðs fái jákvæða afgreiðslu.

Auk þessa verður að taka með raunhæfum hætti á rekstrarvanda sveitarfélaganna. Annaðhvort verður að færa frekari tekjustofna til þeirra eða sjá til þess að ríkið komi inn í rekstur verkefna þeirra og felli niður skuldir sem eru til komnar vegna byggðaröskunar og lélegra tekjumöguleika. Annars munu þau á engan hátt verða fær um að veita íbúum sínum samkeppnishæfa og lögboðna þjónustu. Þá munu heilu byggðarlögin tæmast og búseta líða undir lok á stórum landsvæðum.

Grein Ögmundar Jónassonar, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd, sem birtist í Morgunblaðinu 6. október sl. sýnir glöggt hvernig skuldir heimila, fyrirtækja, sveitarfélaga og þjóðarbúsins alls hafa aukist á síðustu árum.

Árið 1991 voru skuldir þjóðarbúsins rúmir 575 milljarðar kr. eða liðlega 52% af vergri landsframleiðslu. En nú, tíu árum seinna, eru það þúsund, ja, þetta er svo há tala að varla er hægt að nefna hana, en það eru um 1.925 milljarðar kr., eða um rúmlega 90% af heildarlandsframleiðslu, hefur nærri tvöfaldast miðað við landsframleiðslu á þessum tíu árum. Og þetta á að gerast í því sem ríkisstjórnin hefur kallað góðæri. Sér eru nú hver endemin.

Þessi staða er virkilega alvarleg og þegar litið er á skuldastöðu heimilanna er það sama upp á teningnum, skuldir þeirra hafa margfaldast á þessum tíma og stafar veruleg ógn af.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fluttu fjölmargar breytingartillögur við bæði tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarps fyrir árið 2001 þegar það var afgreitt frá Alþingi fyrir ári. Þær tillögur miðuðu að auknum jöfnuði í samfélaginu, auknum jöfnuði milli þjóðfélagshópa, eflingu atvinnulífs og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til lands og sjávar. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðu til að tekjum ríkisins yrði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna. Því miður, herra forseti, náðu þessar tillögur ekki fram að ganga og því fer sem fer.

Mikil byggðaröskun, stöðugir fólksflutningar á höfuðborgarsvæðið og sá mikli viðskiptahalli sem við höfum búið við síðustu ár sýnir það ótvírætt að viðskipta- og þjónustugeirinn á suðvesturhorninu hefur vaxið langt umfram það sem aukning í þjóðarframleiðslu gefur tilefni til. Þessu verður að snúa við ef við eigum að ná eðlilegum hagvexti, jafnvægi í viðskiptum og greiða niður skuldir þjóðarbúsins við útlönd.

Á síðustu árum hefur þróast hér hagkerfi, efnahags- og atvinnulíf sem nærist á viðskiptahallanum og er orðið háð honum. Það verður þrautin þyngri að snúa af þeirri braut en það verður að gerast. Krafa um hagræðingu sem tekur einungis tillit til tímabundinna arðsemiskrafna fjármagnseigenda og ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar hefur villt stjórnvöldum sýn og leitt atvinnulífið inn á villigötur sem þjóðin öll sýpur nú seyðið af.

Herra forseti. Hér verður að breyta um kúrs. Stöðva þarf einkavæðingu almannaþjónustunnar. Búa þarf atvinnulífinu þá umgjörð að fólk og fjármagn leiti aftur til þeirra atvinnugreina sem stuðla að raunverulegri verðmætaaukningu og þar með raunhagvexti. Beina þarf athyglinni að litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem hugvit og framtak sérhvers einstaklings fær notið sín, atvinnurekstri sem er í takt við íslenskar aðstæður og íslenskan veruleika og byggist á sjálfbærri nýtingu náttúrauðlindanna. Takist þetta, herra forseti, mun byggjast upp blómlegt atvinnulíf á raunsönnum grunni, ekki aðeins á suðvesturhorninu heldur um allt land.

Í þessum stóru málaflokkum greinir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð á við stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar um forgangsröðun, áherslur og pólitíska sýn.

Herra forseti. Þetta frumvarp til fjáraukalaga, sem hér er til 2. umr. fyrir árið 2001, endurspeglar mikla spennu sem þenslan í þjóðfélaginu hefur alið á og undirstrikar að ríkisstjórnin hefur lítil tök á þróun efnhagsmála. Einstakir ráðherrar beita sér fyrir ákveðnum gæluverkefnum sínum í stað þess að vinna út frá markaðri heildarstefnu í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins.

Mikið af þeim útgjöldum sem lögð eru til í þessu frumvarpi er þó nauðsynlegt og sinnir góðum málefnum en eins og ég hef áður bent á, herra forseti, þá á að vinna þessi mál með öðrum hætti en hér er gert. Það á að leggja fram fjáraukalög og lagaheimildir fyrir útgjöldunum áður en þau eru ákveðin eða innt af hendi.

Annar minni hluti lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og meiri hluta hennar vegna óvandaðrar vinnu við fjárlagagerðina, rangrar forgangsröðunar og mistaka í hagstjórn.

Þegar hafa verið teknar skuldbindandi ákvarðanir um meginhluta þess sem hér er verið að greiða atkvæði um og hér hefur verið lagt fyrir þingið. Herra forseti. Það þarf að breyta lögum um fjárreiður ríkisins þannig að það sé þingið sem ákveði fjárveitingar í raun fyrir fram en standi ekki frammi fyrir því að stimpla meira og minna ákvarðanir framkvæmdarvaldsins eftir á.

Herra forseti. Ég mun í síðari ræðu minni, við 2. umr., fjalla um einstök atriði í nál. meiri hluta fjárln. með fjáraukalagafrv. ársins 2001.