Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 18:32:19 (1929)

2001-11-21 18:32:19# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Okkur hv. þm. Jón Bjarnason greinir ekki á um þessi grundvallaratriði, að fjáraukalögin eru til að bregðast við ófyrirséðum og aðsteðjandi vanda eða tilvikum sem ekki hafa rúmast innan fjárlaganna. Og ég nefndi hér viðbrögð vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum.

Mér hefði hins vegar þótt það til mikillar glöggvunar fyrir þá sem fylgjast með þessari umræðu, hvort sem það eru hv. þm. í þessum sal eða aðrir þeir sem kunna að heyra mál okkar, ef þingmaðurinn hefði rakið í ræðu sinni nokkur dæmi þar sem hann telur að meiri hluti fjárln. og ríkisstjórn hafi farið út fyrir þau venjulegu vinnubrögð sem gott er að hafa um þessi efni.

Ég skora á hv. þm. að nýta sér ræðutímann sem hann hefur síðar í umræðunni og koma fram með slíkar ábendingar og ég er tilbúinn til að bregðast við þeirri framsetningu.