Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 18:57:26 (1932)

2001-11-21 18:57:26# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 1. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[18:57]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Það er greinilegt að hv. þm. meiri hlutans sem sæti eiga í fjárln., aðrir en formaður fjárln., hafa ekki áhuga á að ræða þau mál sem við í minni hluta fjárln. höfum verið að gera að umtalsefni hér.

Við skulum láta þar við sitja, virðulegur forseti. En þetta mál er ekki búið. Væntanlega fer fram 3. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2001 þar sem menn ræða þau málefni sem við höfum verið að drepa hér á í dag.

Ég hafði boðað að ég mundi spyrja hér um samgöngumál eða um lið 211, þ.e. Vegagerðina, en þannig hittist á að ég hitti hæstv. samgrh. og spurði lítillega um þetta. Ég fékk þau svör að um væri að ræða tímabundna aðgerð meðan væri verið að skoða ákveðin mál varðandi flug. Um er að ræða styrk til innanlandsflugs sem getið var um í þessum lið. Það verður e.t.v. ástæða til að inna frekar eftir þessu atriði. Mér finnst ég þurfa að skoða betur hvaða áhrif þessi styrkur getur haft á hugsanlega samkeppnisaðila. Þannig er málið vaxið, virðulegur forseti.

Kannski er ekki ástæða til að ræða frekar að sinni frv. til fjáraukalaga. En ég má til með að láta þessari stuttu ræðu lokið með því að segja eftirfarandi:

Mér sýnist ástandið verulega ískyggilegt. Í áliti 1. minni hluta gagnrýnum við agaleysi og fálæti ríkisstjórnar gagnvart aðsteðjandi efnahagsvanda. Fálætið felst í því að fara ekki eftir grundvallaratriðum hagfræðinnar. Grundvallaratriði hagfræðinnar ættu menn almennt að tileinka sér í hugsunarhætti. Grundvallaratriðin eru að hagfræðin felst í því að líta ekki aðeins á skammtímaáhrif stefnu eða ákvarðana heldur einnig á langtímaáhrif og skoða afleiðingarnar, ekki aðeins fyrir einn hóp, heldur fyrir alla hópa.

[19:00]

Virðulegur forseti. Mönnum væri hollt að hafa í huga þau grundvallaratriði sem ég endaði hér á. Við erum að margra mati að sigla inn í válega tíma. Til stendur að ræða um fjárlög fyrir árið 2002. Það eru þungar spár og þungar horfur vegna þess efnahagsástands sem er og virðist blasa við núna upp úr áramótum. Og það eru vissulega ekki skemmtilegir boðberar sem boða slík tíðindi. En ég vona að meiri hluti fjárln. og hæstv. ríkisstjórn sýni það í verki að þeir aðilar séu tilbúnir til að takast á við þann vanda sem við blasir.

Ég læt, virðulegur forseti, lokið ræðu minni að sinni um fjáraukalög fyrir árið 2001, en ég vona að þau orð og þær ábendingar sem ég kom hér með verði til þess að menn velti þeim hlutum fyrir sér í hvaða stöðu við erum komin þegar það blasir við sem ég ræddi um í dag, að verðbólgan er yfir 8% og verðbólgumarkmið gagnvart kjarasamningum voru þau að verðbólga væri undir 5,6%. Og það þekkjast engin ráð, virðulegur forseti, til að ná verðbólgu niður á svo skömmum tíma sem er nú fram í febrúar, þannig að ég er að boða alvarleg tíðindi. Og þess vegna þarf að taka á og ég vona að þeir aðilar sem ég nefndi áðan verði menn til þess.