Staða efnahagsmála

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:06:34 (2078)

2001-11-28 13:06:34# 127. lþ. 37.91 fundur 165#B staða efnahagsmála# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er því miður svo að í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hefur að miklu leyti aflagst sú venja að reyna að leita eftir sem víðtækastri pólitískri samstöðu eða faglegri samstöðu um málefni í þessu landi. Það er t.d. afar athyglisvert að þverpólitískar nefndir eða starfshópar heyra nokkurn veginn sögunni til. Núverandi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar hafa að mestu leyti horfið frá þeirri venju að kalla til aðila af hinu pólitíska sviði til þess að reyna eftir því sem við verður komið að reyna að skapa víðtæka pólitíska samstöðu.

Nú standa menn frammi fyrir grafalvarlegum aðstæðum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Auðvitað væri eina vitið, hið eina rétta nú, að reyna að skapa sem víðtækasta faglega og pólitíska sátt um aðgerðir og um efnistök á næstu mánuðum og missirum milli stjórnar og stjórnarandstöðu, eftir því sem slíkt gæti orðið, með aðilum vinnumarkaðarins, með neytendum, bændum og öðrum framleiðendum o.s.frv. Ég minni á að angi af þjóðarsáttargjörðinni svokölluðu 1989--1990, var mjög víðtækt samráð, m.a. um stefnumótun í málefnum landbúnaðarins og fleira í þeim dúr.

Ríkisstjórnin hefur því miður yfirleitt gengið þannig fram að hún þurfi ekki að tala við kóng né prest. Hún hefur frekar en hitt troðið illsakir við fjöldahreyfingar og félagasamtök í landinu, t.d. samtök öryrkja og aldraðra. Það verður að segjast, herra forseti, að þó að hæstv. utanrrh., sem starfandi hæstv. forsrh., reyni að svara á diplómatískan hátt þá er ekki margt sem bendir til þess, enn sem komið er, að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., muni breyta um venjur.