Fjárlög 2002

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:33:52 (2093)

2001-11-28 13:33:52# 127. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að vekja athygli manna á því að hér á nú að bæta um betur við þær 170 millj. kr. sem NATO-fundurinn á að kosta og þegar er búið að færa inn í fjárlagafrv. eða gera ráð fyrir. Samkvæmt skýringum við þennan lið í greinargerð fjárlagafrv. eiga 170 millj., af þeim 181,4 millj. sem veita á utanrrn. undir liðnum Ráðstefnur, að fara í NATO-fundinn, en hér á að bæta 60 millj. kr. við. Þetta er aðeins kostnaður utanrrn. eins og hann er áætlaður á næsta ári. Þá er eftir kostnaður dómsmrn. að ógleymdum 30 millj. sem þegar er búið að færa inn í fjáraukalög þannig að dýr mundi Hafliði allur.

Það er rétt að menn taki eftir því að hér eru nægir peningar á lausu til að hækka þetta gæluverkefni um 60 millj. kr. frá því sem áætlað var að það mundi kosta 1. okt. í haust þegar fjárlagafrv. var lagt fram.