Viðbragðstími lögreglu

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:57:49 (2101)

2001-11-28 13:57:49# 127. lþ. 38.91 fundur 169#B viðbragðstími lögreglu# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að gera fulla grein fyrir hinu rétta í þessum efnum þótt seint sé. Ég hefði raunar kosið að hún hefði komið þessum upplýsingum beint til mín áður en ég þyrfti að lesa um það í blöðum.

Hins vegar er alveg ljóst af efni þessa máls að hér þarf nánari athugunar við. Ég óska hér með eftir því með formlegum hætti að fá öll gögn þessa máls í mínar hendur því að hvernig svo sem kallið hefur verið í upphafi er augljóst að boð hafa misfarist. Maður liggur höfuðkúpubrotinn í stigagangi í Breiðholti í 50 mínútur án þess að fá aðstoð. Það eitt og sér kallar á sérstaka athugun.

Ég ætla hins vegar ekki að gera þetta einstaka tilefni að umfjöllunarefni. Tilgangur fyrirspurnar minnar á sínum tíma var að komast að því hvort löggæslan í borginni væri í stakk búin til að sinna beiðnum um brýna aðstoð. Nú er það auðvitað skilgreiningaratriði, eins og hér hefur komið fram, hvað er neyðaraðstoð. Hvað er neyðarkall, hver eru forgangsmál? Það er út af fyrir sig efni í sérstaka athugun. Ég mun sjálfur láta gera úttekt á því.

Hitt er ljóst, og rétt að fara um það nokkrum orðum, að þessi aðferð hæstvirtra ráðherra, að koma hér í fyrirspurnatíma og lesa beint af blöðum stíla frá undirstofnunum og embættismönnum og vísa í raun ábyrgð svaranna á hendur þeim, er venja sem núv. hæstv. ráðherrar hafa tekið upp og einkanlega þeir sessunautar hér, hæstv. menntmrh. og hæstv. dómsmrh. Ég vil undirstrika, herra forseti, að það er auðvitað ráðherrann sjálfur sem ber ábyrgð á svörum sínum hér en ekki einstakir embættismenn eða undirstofnanir.