Rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:29:42 (2119)

2001-11-28 14:29:42# 127. lþ. 38.5 fundur 298. mál: #A rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 30. maí árið 2000 var samþykkt tillaga viðskrh., þeirrar sem hér stendur, þess efnis að fela Samkeppnisstofnun að kanna orsakir óhagstæðrar þróunar á verði matvöru hér á landi, m.a. í ljósi breytinga sem orðið höfðu á gengi erlendra gjaldmiðla missirin þar á undan. Viðskrh. ritaði stofnuninni síðan bréf þar um þann 31. maí 2000.

Samkeppnisstofnun skilaði ítarlegri skýrslu um þetta mál í apríl 2001. Ein meginniðurstaða skýrslunnar er sú að á milli þeirra tímapunkta sem könnun Samkeppnisstofnunar tekur til hafi verð á dagvöru, þ.e. mat- og drykkjarvörum og hreinlætis- og snyrtivörum, hækkað um u.þ.b. 15% í smásölu samkvæmt vísitölu. Vegin hækkun á innkaupsverði verslana á þessum vörum var u.þ.b. 8--9%. Sú hækkun er í samræmi við það sem vænta mátti með hliðsjón af erlendum verðhækkunum og gengisbreytingum.

Draga má þá ályktun að smásöluálagning matvöruverslana, þar með talin álagning birgðahúsa sem rekin eru í tengslum við nokkrar verslunarkeðjur, hafi hækkað um sem nemur mismuninum á hækkun á smásöluverði og hækkun innkaupsverðs verslana. Í skýrslunni er fjallað um þá samþjöppun á matvörumarkaðnum sem hefur orðið á því fimm ára tímabili sem könnunin nær til. Fjallað er um markaðsstöðu einstakra fyrirtækja og kaupendastyrk á markaðnum.

Samkeppnisstofnun lýsti því yfir að frekari rannsókn á samkeppnis- og viðskiptaháttum á matvörumarkaði mundi fara fram. Mér er kunnugt um að sú vinna er hafin. Sú athugun mun taka einhvern tíma og það ræðst m.a. af öðrum verkefnum sem stofnunin er að vinna.

Það sem m.a. er til athugunar í þessu sambandi er að setja siðareglur um viðskipti matvöruverslana við birgja sína. Slíkar reglur hafa nýlega verið settar í Bretlandi og er mér kunnugt um að Samkeppnisstofnun hefur þær reglur til athugunar. Ég tel að það væri mikið framfaraspor ef slíkar reglur yrðu settar og þær yrðu til þess að koma á meira jafnvægi milli styrks keðjanna og einstakra birgja þeirra. Ég hef þegar rætt þessi mál við Samkeppnisstofnun.

Svo sem þingheimi er kunnugt eru fjölmörg stór mál á borðum samkeppnisyfirvalda. Ég hef ekki tamið mér að hafa bein afskipti af daglegri starfsemi stofnunarinnar enda tel ég það vera samkvæmt anda samkeppnislaga að samkeppnisyfirvöld starfi sem sjálfstæðast. Málið er í eðlilegum farvegi. Rannsókn sem þessi er tímafrek og Samkeppnisstofnun ber að virða reglur stjórnsýsluréttarins um andmælarétt. Því tekur rannsókn sem þessi lengri tíma en í fljótu bragði kann að virðast.