Afurðalán í landbúnaði

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:50:44 (2129)

2001-11-28 14:50:44# 127. lþ. 38.4 fundur 271. mál: #A afurðalán í landbúnaði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tel að aðstæður hafi verið mjög sérstakar þegar sú ákvörðun var tekin og þarna sé ekki dæmigerðri afgreiðslu viðskiptabanka um að kenna heldur, eins og við vitum, erfiðleikum í því fyrirtæki sem fyrst og fremst eða að stórum hluta hafði staðið í slátrun, og þá er ég að tala um Goða. Þess vegna voru aðstæður mjög erfiðar akkúrat þegar á þurfti að halda og slátrun var að hefjast í landinu. Það hafði mikið að segja um að þessi sérstaka ákvörðun var tekin af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það má á engan hátt líta svo á að þetta sé eitthvað sem hugsað er til framtíðar heldur er þetta hugsað til þess að bjarga erfiðri stöðu fyrir mikilvæga búgrein, þ.e. sauðfjárræktina og ekki síður til að reyna að koma hlutum þannig fyrir að vextir þurfi ekki að vera óbærilegir. Með ábyrgð Byggðastofnunar var hægt að ná betri vaxtakjörum þannig að ég vil líta á þetta sem einstakt tilfelli.

En af því að hv. þm. spyr um hvort einhverjum hafi verið neitað þá er mér ekki kunnugt um það. Ég bið hv. þm. að hafa skilning á því að þó að ég sem iðnrh. sé ráðherra byggðamála er ég náttúrlega ekki að vasast í rekstri þeirrar stofnunar dagsdaglega og hef ekki afskipti af stjórnarákvörðunum þar. En í þessu sérstaka tilfelli varð stjórnin að beiðni ríkisstjórnar um að koma að liði vegna þess að við litum svo á að um mikilvæga búgrein væri að ræða, að bjarga þyrfti málum á skömmum tíma og ég er þakklát Byggðastofnun fyrir að hafa orðið við beiðni okkar. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina.