Upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 15:08:53 (2135)

2001-11-28 15:08:53# 127. lþ. 38.7 fundur 277. mál: #A upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Í tilefni af fyrirspurn hv. þm. var leitað eftir upplýsingum hjá sýslumönnum, héraðsdómstólum og Persónuvernd. Varðandi fyrstu spurninguna sem snýr að því hvernig afhending upplýsinga fer fram um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila til fyrirtækisins Lánstrausts hf. frá sýslumönnum, héraðsdómstólum og öðrum opinberum aðilum sem veita fyrirtækjum slíkar upplýsingar, þá er því til að svara að afhending upplýsinga fer þannig fram að gögn eru send ýmist í pósti eða á faxi. Takmarkaðar upplýsingar um fyrirhuguð nauðungaruppboð eru þó afhentar á tölvutæku formi hjá stærstu sýslumannsembættunum. Sú afhending upplýsinga byggir á sérstöku leyfi dómsmrn. að fenginni umsögn tölvunefndar, samanber bréf dómsmrn. til sýslumanna dagsett 22. júní 1998.

Sem dæmi um hvernig þessi afhending upplýsinga fer fram má nefna að sýslumaðurinn í Reykjavík sendir fyrirtækinu lista yfir árangurslaus fjárnám vikulega. Þá eru listar um byrjanir og framhald uppboða sendir í tölvupósti mánaðarlega. Héraðsdómstólar senda fyrirtækinu endurrit dóma í skuldamálum sem dæmd eru sem útivistarmál ef stefnufjárhæð er 100 þús. kr. eða hærri. Þá eru upplýsingar um gjaldþrotaúrskurði sem kveðnir hafa verið upp sendir ýmist í pósti eða á faxi.

Önnur spurningin snýr að því hvaða upplýsingar eru veittar. Því er til að svara að sýslumenn veita upplýsingar um framkvæmd fjárnáms án árangurs. Þá veita stærstu embættin upplýsingar um fyrirhuguð nauðungaruppboð. Um upplýsingar um fjárnám gildir reglugerð nr. 17/1992. Samkvæmt henni skulu þessar upplýsingar opinberar. Nauðungaruppboð eru gerð opinber með auglýsingu í dagblöðum samanber 2. mgr. 26. gr. laga nr. 90/1991.

Héraðsdómstólar veita upplýsingar um gjaldþrotaúrskurði sem kveðnir hafa verið upp auk upplýsinga um dóma í útivistarmálum. Um upplýsingar um gjaldþrotaúrskurði gildir reglugerð nr. 226/1992. Þá eru upplýsingar um gjaldþrotaúrskurði gerðar opinberar í Lögbirtingablaðinu þegar innkallanir eru auglýstar. Útivistardómar, þar með taldar áritaðar stefnur, eru afhentar samkvæmt þeirri meginreglu að dómar skuli opinberir.

Í þriðju spurningu er spurt hvað fyrirtækið greiði fyrir móttöku á þessum upplýsingum og hvernig sú greiðsla fari fram. Því er til að svara að framkvæmd greiðslu er eitthvað misjöfn eftir embættum. Sum embætti senda gögn í póstkröfu, önnur senda reikning með sendingum, enn önnur senda reikning með nokkru millibili, svo sem einu sinni til tvisvar á ári. Sem dæmi um hvernig þetta fer fram má nefna að fyrirtæki greiðir sýslumanninum í Reykjavík 100 kr. fyrir hverja blaðsíðu sem send er. Fyrir hverja faxsendingu greiðir fyrirtækið aukalega 150 kr. Fyrirtækinu er sendur reikningur í lok árs.

Hjá héraðsdómstólum fer þetta þannig fram að ýmist kemur starfsmaður fyrirtækisins á staðinn og greiðir reikning eða fyrirtækið fær sendan reikning með ákveðnu millibili. Fyrirtækið greiðir dómstólum fyrir endurrit dómanna að hámarki 100 kr. fyrir hverja blaðsíðu. Ekki er tekið gjald fyrir upplýsingar úr gjaldþrotaskrá en upplýsingar um hvern úrskurð komast fyrir í einni línu og er hægt að prenta þær beint út úr skráningarforriti dómstólanna.

Við fjórðu og síðustu spurningunni er því til að svara að fleiri aðilar en Lánstraust hf. safna og miðla upplýsingum um fjárhagsmálefni einstaklinga og lögaðila. T.d. má nefna opinberar birtingar álagningar- og skattskráa sem skattyfirvöld halda. Þá felur miðlun úr fasteigna- og ökutækjaskrám oft í sér miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni.

Söfnun og miðlun fjárhagsupplýsinga er í sumum tilvikum eðlilegur hluti af viðskiptasambandi við hinn skráða og stundum er um að ræða vinnslu sem byggð er á sérstakri lagaheimild. Í þessum tilvikum er vinnslan ekki ávallt háð leyfi persónuverndar. Ef vinnslan fer fram sérstaklega í því ljósi að miðla slíkum upplýsingum til annarra er hins vegar jafnan um að ræða vinnslu sem fellur undir reglugerð dóms- og kirkjumrn., nr. 246/2001, um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Enn sem komið er hefur einungis Lánstraust hf. fengið leyfi Persónuverndar á grundvelli reglugerðarinnar.