Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:24:00 (2194)

2001-11-29 15:24:00# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek fyllilega undir það að gildi lýðræðis og allra mannréttinda eru sam-mannleg og gera ekki greinarmun á menningarheimum eða trúarbrögðum.

Það er hins vegar nauðsynlegt að ég bendi á að ég hafði engin orð uppi um það að hermdarverkamenn eða ofstækisöfl innan íslams væru verri en önnur. Ég rakti ofstækisöfl sem spruttu af hugarheimi kristinna manna. Ég rakti það að fyrir nokkrum öldum voru kristnir menn í Evrópu sunnanverðri vissulega ofstækisfyllri og síður umburðarlyndir en múhameðstrúarmenn á þeim tíma. Það er hægt að rekja þetta í ritum bæði kristinna manna og múhameðstrúarmanna.

Það eru hins vegar vissir atburðir sem hafa vakið stóran hluta umræðu okkar í dag um utanríkismál og eru vegna árásar sem kom greinilega frá einstaklingum eða samtökum sem hafa starfað innan lögsagna íslamskra ríkja. Hitt er rétt, og þess vegna nefndi ég önnur ríki í máli mínu, að ríki í Vestur-Evrópu, í Þýskalandi á dögum nasismans, og síðan í Rússlandi og víðar innan lögsögu Sovétríkjanna á þeim tíma sem þau voru til vildu líka veita hermdarverkamönnum skjól og gerðu það. Þannig að ég gerði engan greinarmun að þessu leyti á kristnum mönnum og múhameðstrúarmönnum.

Ég vakti hins vegar máls á því sem ég vil enn þá fylgja eftir að mér finnst nokkur furða að trúarbrögð af þessu tagi skuli vera notuð sem skálkaskjól ofstækisafla sem segjast rökstyðja bæði hermdarverk sín og málflutning með trúarbrögðunum. Það finnst mér afleitt og ég tel að við eigum öll að berjast gegn slíkum málflutningi.