Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:32:39 (2220)

2001-11-29 16:32:39# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli sínu áðan vék hv. þm. að sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og minnti á að hún byggðist núna á því sem kallað hefur verið hlutfallslegur stöðugleiki. Nú vitum við það hins vegar sem höfum verið að fylgjast með þessari umræðu innan Evrópusambandsins að um þetta eru mjög skiptar skoðanir. Mjög öflugar þjóðir, öflugar sjávarútvegsþjóðir innan Evrópusambandsins, eru að gera kröfur um allt aðra hluti. Og eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich benti réttilega á eru ýmsir sem telja einmitt að þessi hugmyndafræði gangi í berhögg við grundvallarhugmyndirnar sem standa að baki Evrópusambandinu. Og við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að það er vaxandi þrýstingur, m.a. frá þessum þjóðum, sem vilja breyta þessari hugmynd á bak við hinn hlutfallslega stöðugleika.

Værum við aðilar að þessu sambandi og stæðum í þeim sporum að þetta mundi breytast er alveg augljóst mál að aðgangurinn að íslenskum fiskimiðum væri nánast orðinn opinn fyrir þessar þjóðir. Og er þá ekki auðvitað augljóst mál, virðulegi forseti, að aðild okkar í þessum efnum fæli í sér í grundvallaratriðum a.m.k. möguleikana á því að við værum að missa algjörlega tökin á þeirri stjórn á fiskimiðunum sem við höfum verið einhuga um hér á Alþingi að verja?