Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:26:46 (2237)

2001-11-29 17:26:46# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alltaf verið í þeim hópi sem hefur talið mikilvægt að við fylgdumst vel með þróun Evrópumála og værum vel heima í því sem þar er að gerst. Mér hefur hins vegar aldrei fundist það neitt merkilegt og eitthvað sem menn þyrftu að standa hér og lýsa yfir annan hvern dag að þeir fylgdust með því sem væri að gerast þarna. Mér finnst það bara svo sjálfsagður hlutur af því að vera þátttakandi í stjórnmálum á líðandi stund og hafa augu og eyru opin gagnvart því sem er að gerast í kringum sig.

Ég hef t.d. setið í svonefndri Evrópunefnd Norðurlandaráðs núna um nokkurt árabil þannig að í gegnum það hef ég m.a. heimsótt Brussel líklega einu sinni til tvisvar á ári sl. 3--4 ár og haft alveg ágætar aðstæður til að fylgjast með því sem þarna er að gerast. Og ég tel að Alþingi Íslendinga eigi að sjálfsögðu að gera það. Þess vegna minni ég á hugmynd sem ég varpaði hér fram, ég hygg í umræðum í fyrravor, og fékk vissar undirtektir, að e.t.v. væri tímabært á nýjan leik að Alþingi setti á fót nýja Evrópustefnunefnd sem færi með sambærilegum hætti yfir hlutina og gert var í kringum 1990 og skilaði ágætisafrakstri.

Já, ég tel, herra forseti, að Evrópusambandið sé sífellt að taka á sig fleiri og fleiri einkenni sambandsríkis og ég minni t.d. á mannréttindayfirlýsingu, hálfgerða stjórnarskrá, Evrópusambandsins sem verið er að koma á fót núna. Og til hvers er það? Ekki til þess að finna upp neitt nýtt, segja þeir, vegna þess að það á ekkert nýtt að vera í henni sem skuldbindur neitt ríki. Það er bara til þess að Evrópusambandið sem slíkt eigi ,,manifesto`` sem er hægt að líkja við stjórnarskrá. Og síðan er þetta gjaldmiðillinn, seðlabankinn, ytri landamærin, herinn og allt þetta. Þetta eru allt saman einkenni sem menn yfirleitt nota til að átta sig á hvað er um að vera. Er þetta ríki eða er þetta eitthvað annað?

Það er hins vegar ljóst að ekki eru allir inni á þessu og stækkunin skapar viss vandamál. Þá koma strax upp hugmyndir um aukið vald með meirihlutaákvörðunum, um tveggja hraða lausnir, um innri kjarna sem keyrir þróunina áfram o.s.frv. Og það eru mjög sterk öfl sem keyra þetta í þessa átt.