Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:33:47 (2240)

2001-11-29 17:33:47# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:33]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni fjallaði ég um kosningarnar í Kosovo og aðkomu Íslendinga að þeim. Ég vék að Afganistan og vakti athygli á því að Bandaríkjamenn hófu loftárásir sínar á Afganistan án þess að hafa áður tryggt stuðning öryggisráðsins eða öllu heldur án þess að byggt væri á ákvörðun öryggisráðsins. Og það er margt sem bendir til þess að Bandaríkjamenn vilji gera þetta á eigin forsendum, vilji hafa svigrúm til hernaðarlegra umsvifa og athafna án þess að vera háðir alþjóðasamfélaginu. Þetta ætti að vera okkur umhugsunarefni og Íslendingar ættu að beita sér gegn þessum yfirgangi Bandaríkjamanna og tilraunum til að gerast alheimslögregla, óháð alþjóðasamfélaginu.

Auðvitað er það mjög mikilvægt núna að alþjóðasamfélagið komi Afgönum til hjálpar. Land og þjóð eru illa farin, þar ríkir hungursneyð, landið er allt sundurskotið og gera má ráð fyrir að tugþúsundir ef ekki hundruð þúsunda ósprunginna sprengna sé að finna vítt um landið, sem verður hættulegt yfirferðar um langan tíma. Ég held að mjög mikilvægt sé að Evrópuríki, og þar á meðal Ísland, reyni að halda Bandaríkjamönnum við efnið hvað þetta snertir. Ef ekki, þá er hætt við því að fari á svipaðan hátt um loforðin og gerðist gagnvart Víetnam á sínum tíma þar sem loforð voru veitt í upphafi árs 1973 um umtalsverða efnahagsaðstoð á komandi árum, loforð sem síðan voru svikin. Þessi loforð voru líka svikin gagnvart Kambódíu og Laos á því sama tímabili og síðar Grenada, Panama, og við þekkjum hvað er að gerast á Balkanskaganum gagnvart Serbum. Þar voru gefin fyrirheit um umtalsverða fjárhagsaðstoð af hálfu Evrópusambandsins og fleiri ríkja. Lítið hefur orðið um efndir og vekur athygli að þær greiðslur sem inntar hafa verið af hendi hafa verið frystar sem uppgreiðslur í lán, m.a. frá Tító-tímanum. En Serbía er enn sundursprengd og allt stoðkerfi landsins meira og minna í rúst. Á þessu er rétt að vekja athygli.

Ég tók eftir því í ræðum margra þingmanna þegar þeir fjölluðu um atburði síðustu vikna, árásirnar á New York og Washington, og síðan í kjölfarið árásirnar á Afganistan, að hryðjuverkin í New York og Washington hefðu verið árás á vestræn gildi. Ég hef velt því fyrir mér hvað felist í þeirri notkun hugtaka. Hvað eru menn að tala um? Eru menn að tala um vestræna hagsmuni? Eru menn að tala um kapítalismann, um frjálst markaðskerfi, og með árásunum á New York og Washington hafi verið ráðist á tákn þessa kerfis, er það það sem menn eiga við? Eða eru menn að tala um mannréttindi sem við viljum í heiðri hafa á Vesturlöndum?

Ég held að það sé fyrst og fremst það sem menn eiga við. Og ef það var árás á vestræn gildi í þeim skilningi þegar saklaust fólk var drepið í New York og Washington, þá er það líka árás á vestræn gildi þegar saklaust fólk er drepið í Afganistan eða þegar menn eru teknir af lífi án dóms og laga, eins og dæmin sanna á undanförnum dögum. Við eigum að fylgjast með ásökunum og rannsóknum sem fram fara á vegum mannréttindasamtaka á borð við Amnesty International í kjölfar þessara atburða í Afganistan. Mér finnst rétt að vekja á þessu athygli í ljósi þeirra ummæla sem hér hafa fallið.

Ég vil í örfáum orðum víkja að fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem hæstv. utanrrh. gerir að umræðuefni í ræðu sinni. Sá fundur var haldinn í Quatar á Arabíuskaganum og það vita allir hvers vegna fundurinn var haldinn þar, það var til að geta haldið hann í kyrrþey, til að geta útilokað almannasamtök eða komið í veg fyrir að almannasamtök sendu fulltrúa á fundinn. Við vitum að mikil mótmæli hafa fylgt þessum fundum á liðnum árum og missirum, í Seattle, Prag, Washington. Þessu hafa fylgt mikil mótmæli en það vekur athygli hve langt menn ganga í því að útiloka almannasamtök frá því að sækja þennan fund. Þannig var það gert að skilyrði að verkalýðssamtök, sem jafnvel höfðu innan sinna vébanda milljónir félagsmanna, fengu aðeins að senda einn fulltrúa á fundinn. Þessu hefur verið harðlega mótmælt, bæði fyrir fundinn og eftir fundinn, af hálfu hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar.

Á hvern hátt létu Íslendingar til sín taka á þeim fundi? Jú, nú sem fyrri daginn var afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi helst á dagskrá.

Í ræðu sinni sagði hæstv. utanrrh. m.a., með leyfi forseta:

,,Þetta hefur verið megináhersla okkar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þar höfum við Íslendingar verið í fylkingarbrjósti ríkja sem lagt hafa til að unnið verði að samkomulagi á vettvangi stofnunarinnar um afnám ríkisstyrkja. Á fundinum í Doha var samþykkt að tekið verði sérstaklega á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi með það að markmiði að settar verði reglur um beitingu ríkisstyrkja og stuðlað að afnámi þeirra.``

Og síðar segir hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:

,,Afnám ríkisstyrkja er mikilvægur þáttur í að tryggja betri umgengni um lifandi auðlindir hafsins.``

Reyndar er einnig talað um að þetta sé mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga til að tryggja markaðsstöðu sína.

Ég er ekki sannfærður um að þessar staðhæfingar standist. Ég er ekki sannfærður um að þetta nána samhengi sé á milli ríkisstyrkja annars vegar og ofveiði hins vegar. Þannig þarf smábátabúskapur með einhverjum ríkisstyrkjum ekki að vera skaðlegri umhverfinu og leiða til ofveiði fremur en verksmiðjutogarar á höfum úti sem njóta ekki neinna slíkra styrkja nema síður sé. Mér finnst felast í þessu ákveðin trú á að markaðurinn hljóti að fara vel með umhverfið. Ég held að þetta standist ekki.

Styrkir geta verið til þess fallnir að bæta stöðu fámennra byggðarlaga og önnur sjónarmið kunna einnig að vera uppi, að styrkja atvinnulíf þegar það á í erfiðleikum svo dæmi sé tekið. Hins vegar get ég alveg tekið undir það að styrkir til stórra flota sem sækja í þverrandi auðlind, í fisktegundir sem eru í hættu, eru að sjálfsögðu skaðlegir. En ég vara við því að taka á þessum málum á svart/hvítan hátt, eins og hér hefur verið gert, og ég leyfi mér að lýsa andstöðu við það að Íslendingar skuli ganga fram fyrir skjöldu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til þess að setja heimsbyggðinni leikreglurnar í þessum efnum. Mér finnst það vera mjög slæmt, og ég leyfi mér að gagnrýna það.

Hér hefur verið rætt talsvert um Evrópusambandið og EES og hugsanlega endurskoðun þeirra samninga. Menn hafa rætt um viðskiptahagsmuni í því sambandi og menn hafa rætt um lýðræðið. Sérstaklega staðnæmdist formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, við lýðræðið.

Nú er Evrópusambandið ekki mjög lýðræðisleg stofnun. Evrópusambandið byggir í rauninni í mjög takmörkuðum mæli á lýðræðislegum vilja. Þar leikur framkvæmdarvaldið hins vegar lausum hala. Evrópusambandið er fyrst og fremst vettvangur framkvæmdarvaldsins. Þjóðþingin hafa afskaplega lítið að gera með það sem ákveðið er á vettvangi Evrópusambandsins. Og þá sjaldan sem Evrópusambandið þorir að skjóta einhverjum álitamálum til þjóðarinnar sjálfrar eða þjóðanna, þá er það iðulega fellt, eins og dæmin sanna. Það er því alrangt að halda því fram að Evrópusambandið sé byggt á lýðræðislegum vilja. Það er alrangt.

Það sem hins vegar er líklegt að gerist er að hin lýðræðislega krafa vakni á næstu árum. Og þá verður það ekki gert með því að styrkja aðkomu þjóðþinganna, vegna þess að þau eru víkjandi innan Evrópusambandsins, heldur með því að styrkja Evrópuþing, miðstýrt Evrópuþing, til þess að setja hinum frjálsa markaði sem menn hafa sameinast um einhverjar skorður. Það mun gerast.

En þá spyr ég ef menn ætla að styrkja Evrópuþingið og þetta verður þróunin: Er ekki líklegt að hið sama verði uppi á teningnum í Evrópu og var hér á landi þegar menn settu fram kröfuna ,,einn maður, eitt atkvæði``? Þeir eru víðar Vestfirðirnir en á Íslandi. Halda menn ekki að slík krafa yrði uppi gagnvart Íslendingum? Að sjálfsögðu. Og þá spyr ég: Er það hagur Íslendinga að styrkja samstarf á grundvelli þjóða eða á grundvelli einstaklinga á markaði? Þetta er spurningin sem við stöndum frammi fyrir.

[17:45]

En ég vildi aðeins leggja á það áherslu að það er blekking að tala um Evrópusambandið sem lýðræðislegt og með því að fá aðkomu að nefndum þá séum við að efla lýðræðið. Við erum að opna fyrir embættismenn okkar til að fá aðild að ákvarðanatöku. En í lýðræðislegum skilningi er Evrópusambandið ekki klúbbur sem við eigum að kenna við lýðræði. Mér stendur vægast sagt ógn af því valdi sem er að hrannast upp í Brussel, valdi sem á sér afskaplega litla jarðtengingu í lýðræðinu.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, að það er sjálfsagður hlutur að ræða um Evrópumálin og það höfum við gert. Mikil umræða hefur farið fram núna upp á síðkastið, síðustu mánuðina um evruna. Gerðar hafa verið fjölmargar skýrslur, Seðlabankinn hefur gert skýrslur, forsrn. hefur gert skýrslur. Þess vegna furða ég mig á þeirri hugsun sem oft skýtur upp og þeim staðhæfingum að það sé bannað að tala um Evrópumálin. Ég hef ekki orðið var við það. Ég veit ekki betur en við höfum verið að tala okkur blá í framan um Evrópumálin í mörg ár. En ég sakna þess að menn bjóði fram skýra og trúverðuga stefnu í þeim efnum.

En auðvitað finnum við hvað er að gerast. Við finnum að Framsfl. er að færa sig nær því að þora að koma hreint til dyranna og segja hug sinn um að hann langi til að sækja um aðild að Evrópusambandinu, auðvitað finnum við hvað er að baki þeim yfirlýsingum sem eru einhvers staðar í umræðunni. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur komið út úr skápnum. Hann hefur komið hreint til dyranna og sagt að hann vilji að Samfylkingin beiti sér fyrir því að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu. (RG: Þar verður lýðræði viðhaft.) Lýðræði viðhaft? Lýðræðið fer fram í kosningum þar sem stjórnmálaflokkar bjóða fram stefnu, m.a. í Evrópumálunum. En þá verða þeir líka að vita hvað þeir vilja.

Vill Samfylkingin sækja um aðild að Evrópusambandinu eða vill hún það ekki? Hún segist alltaf vera að skoða málin og það komi í ljós. En hvað er það sem menn eru að skoða, með leyfi? Þetta er búið að segja árum saman. Mér finnst þetta vera bara ómerkilegar blekkingar ef ég á að segja alveg eins og er. Þeir liggja ljósir fyrir kostirnir og gallarnir við að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Viljum við taka þátt í því að gera Ísland að hluta af evrópsku stórríki, viljum við það eða viljum við það ekki? Viljum við þróa samskipti okkar og samband við Evrópusambandið á annan hátt? Við höfum sett fram tillögur í því efni, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, og það höfum við gert eftir ítarlega umræðu um þau mál.