Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:56:14 (2376)

2001-12-04 13:56:14# 127. lþ. 42.93 fundur 194#B umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er orðið vandlifað að vera stjórnarandstæðingur á Alþingi Íslendinga í dag. Það líður varla það skipti sem hv. stjórnarandstöðuþingmenn fara hér í ræðustól og vilja spjalla við hæstv. ráðherra eða við forseta þingsins, ýmist undir liðnum störf þingsins eða í utandagskrárumræðum við ráðherrana, að ekki heyrist kvart og kvein, vil ég segja, frá ríkisstjórninni eða stjórnarliðum undan þeirri umræðu.

Herra forseti. Á fundum með formönnum þingflokka og forseta undanfarið hefur verið margrætt að minnka þurfi og fækka hér utandagskrárumræðum. Þær eigi ekki að vera jafnríkur liður í störfum þingsins og þær hafa verið, og ég get að vissu leyti tekið undir það. Jafnframt hefur verið bent á það af hæstv. forseta að til sé liðurinn ,,störf þingsins`` þar sem hv. þm. hafi möguleika á því að koma á framfæri ýmsum athugasemdum á borð við það sem gert var hér í upphafi þings.

Það er náttúrlega algjörlega fráleitt, herra forseti, að verið sé að kvarta undan því að fram fari umræða um það sem er að gerast. Eins og í þessu tilviki er mjög eðlilegt að þessi umræða sé tekin upp undir liðnum störf þingsins vegna þess að hv. málshefjandi talaði einmitt um að það mætti ekki líta svo út að Alþingi Íslendinga og íslenska ríkisstjórnin styddu þær aðgerðir sem Ísraelsmenn hafa verið að beita á Palestínu og litu á það sem lið í alþjóðlegri baráttu gegn hermdaraðgerðum.

Herra forseti. Ég mótmæli því að menn séu að kvarta undan því að umræða um málefni líðandi stundar fari fram, hvort sem það er undir liðnum störf þingsins eða utandagskrárumræður.