Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:22:37 (2431)

2001-12-04 17:22:37# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:22]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins spyrja hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson út í nokkur atriði, sérstaklega hvað varðar þá umræðu sem er orðin svo mikil allt í einu um heimild fyrir Rarik til að kaupa dreifikerfi Rafveitu Sauðárkróks. Mig langar að spyrja hv. þm.: Er það ekki bara í rauninni mjög skynsamlegt frá rekstrarlegum grunni, þ.e. að reka eitt sveitarfélag, að því leytinu til að allir íbúar sama sveitarfélags sitji við sama borð, að Rarik verði veitt heimild til að kaupa Rafveitu Sauðárkróks vegna þess að Rafveita Sauðárkróks starfar bara í þéttbýlinu Sauðárkróki? Ef farið er örlítið út úr, 2--3 km í átt að Varmahlíð, þá er komið að fyrsta bæ og það er orðið orkusvæði Rafmagnsveitna ríkisins eða ef keyrt er í átt að flugvellinum eða aðeins lengra en flugvöllurinn er, þá er er líka komið á svæði Rafmagnsveitna ríkisins.

Ég er ekki viss um að íbúarnir í þessu sama sveitarfélagi, þéttbýlinu Sauðárkróki eða Hofsósi, sitji við sama borð hvað varðar þjónustu eða gjaldskrá. Ef þetta væri bara tekið út frá þeim þætti, þá væri ákaflega skynsamlegt að gera þetta fyrir sveitarstjórn Skagafjarðar að selja dreifikerfið í þéttbýlinu Sauðárkróki. Það sem mér finnst vera grundvallaratriði og mig greinir mest á við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um, er að þeir vilja ekki virða þann ákvörðunarrétt meiri hluta sveitarstjórnar Skagafjarðar að vilja ganga þessa leið. Ég spyr: Er það ekki grundvallaratriði og sanngjarnt út frá jafnréttissjónarmiði að íbúar í sama sveitarfélagi fái sömu þjónustu og sömu gjaldskrá, en ekki að einn sé að reka þjónustuna á þessum stað og allt annar að reka hana í nokkurra metra fjarlægð? Þetta er grundvallaratriði.