Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 18:40:13 (2447)

2001-12-04 18:40:13# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Bæði nú við þessa afgreiðslu fjáraukalaga og áður í formi frumvarpsflutninga höfum við lagt til almennar aðgerðir til lausnar fjárhagsvanda sveitarfélaga. Við viljum að sveitarfélögin séu fjárhagslega sjálfstæð og sterk. Þá er sjálfsákvörðunarréttur þeirra virtur. Hann er ekki til staðar hjá sveitarstjórnum sem nauðbeygðar eru til þess að láta frá sér verðmætustu eignir sínar til þess að bjarga fjármálum sínum. Við höfnum því að sveitarfélögin séu höfð í þeirri bóndabeygju. Fæst hv. þm. Kristján L. Möller ekki til þess að líta á þessar aðstæður eins og þær blasa við öllum mönnum? Efast menn um það eitt augnablik hvað forsvarsmenn sveitarfélaga velja ef þeim stendur til boða að bjarga sér tímabundið fyrir horn með því að láta frá sér verðmætar eignir sem önnur sveitarfélög halda eða fá stuðning frá ríkisvaldinu við að leysa sín mál, t.d. varðandi félagslega íbúðarhúsnæðið, og fá efndir á þeim fyrirheitum sem þeim hafa verið gefin í þeim efnum? Ég held að svarið liggi í augum uppi. Þá mundu forsvarsmenn sveitarfélaganna að sjálfsögðu vilja fara þá leið að þetta yrði leyst á almennum grundvelli sem kæmi öllum til góða.

Það er auðvitað ekki einkamál sveitarfélagsins að ákveða að það selji opinberu fyrirtæki þessa eign þegar ofan í kaupið þarf að koma til stuðnings hinu opinbera fyrirtæki með miklum fjármunum, sem hér er verið að fara fram á heimildir fyrir í fjáraukalögum.

Þetta samhengi málsins verða menn að hafa í huga og horfast í augu við ef þeir vilja ræða það málefnalega. Svo geta menn auðvitað bara ýtt því til hliðar og verið í svona keiluslætti eins og hv. þm. Kristján L. Möller er að reyna að ástunda hér, sem ég spái að muni ekki skila honum mikilli pólitískri uppskeru.