Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 18:44:55 (2449)

2001-12-04 18:44:55# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[18:44]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Nú er mál þannig vaxið að ég á satt að segja sáralítið vantalað við stjórnarandstöðuna hér á hinu háa Alþingi vegna þess máls sem hér er til umræðu. Þetta segi ég vegna þess að staðan er þannig að viðstaddir þessa umræðu eru eingöngu stjórnarandstæðingar, að undanskilinni ágætum hv. þm. Drífu Hjartardóttur. Ég held að óhjákvæmilegt sé að biðja forseta að leita uppi hæstv. fjmrh. og einnig formann fjárln. Ég hef ekki séð varaformanninn hér á kreiki í allan dag og satt að segja ekki nokkurn fulltrúa úr meiri hlutanum, að undanskildum formanninum.

(Forseti (ÁSJ): Forseti sér að hæstv. fjmrh. er í húsinu og kemur nú inn í salinn, en mun láta athuga aðra.)

Einkum og sér í lagi er það formaðurinn sem ég sækist eftir. En það er út af fyrir sig efni í langa ræðu að fara yfir það enn og aftur hvers konar virðing mikilvægri umræðu af þessum toga er sýnd af hálfu stjórnarliða trekk í trekk. Þeir eru að bera hér fram vægast sagt umdeilt frv. til fjáraukalaga en hafa ekki uppi burði til þess að fylgja því eftir hér í orðræðu og skoðanaskiptum. Þetta er að verða algerlega óþolandi, herra forseti. Það verður auðvitað að taka á þessu einhvern veginn. En það er nú önnur saga.

[18:45]

Ég sagðist ekki eiga mikið vantalað við stjórnarandstæðinga og það er að sönnu rétt. Ég ætla samt sem áður í örfáum orðum í inngangi að láta í ljósi nokkrar skoðanir á þeim orðaskiptum sem hér hafa átt sér stað á milli flokksbróður míns, hv. þm. Kristjáns L. Möllers, og nokkurra þingmanna Vinstri grænna. Ég efast ekki eitt andartak um einlægan og góðan vilja tillöguflytjenda, háttvirtra þingmanna Vinstri grænna, í því máli sem hér um ræðir, að styrkja fjárhagsstöðu og vaxtarmöguleika sveitarfélaga vítt og breitt um landið.

Ég vil eingöngu segja að í ljósi þess sem talsmaður Vinstri grænna, sem er því miður farinn úr salnum í augnablikinu, hefur haft uppi um nýtingu og notkun fjáraukalaganna sem slíkra hvort ekki skjóti skökku við að grípa á vanda sveitarfélaganna í landinu í heild og breidd í fjáraukalögum þann 4. desember þegar yfirstandandi fjárhagsár er að lokum komið, hvort ekki hefði verið meiri mannsbragur á því og eðlilegra að tillaga af þessum toga sem á að vera ,,heildstæð`` eins og segir í tillögutextanum hefði birst við fjárlagagerð komandi árs, þ.e. brtt. við 3. umræðu fjárlaga sem fram fer eftir nokkra daga? Það held ég að hefði verið miklum mun hyggilegri og skynsamlegri nálgun svo ég aðeins víki orðum að formsatriðum mála.

Hitt er svo alveg ljóst og um það er ekki deilt að staða sveitarfélaganna í landinu er svona og svona og mörg þeirra berjast í bökkum eins og þekkt er, ekki síst úti á landi þótt þess séu raunar dæmi hér í nágrenni höfuðborgarinnar að þar séu sveitarfélög býsna hart keyrð, ekki síst þau sem eru rekin af núverandi stjórnarflokkum. Nefni ég minn heimabæ sem dæmi um það.

En af því að ég nefndi hér formsatriði, og hv. þm. Jón Bjarnason er kominn í salinn aftur, var ég að velta eilítið fyrir mér í ljósi fyrri ummæla hans hér þar sem hann hefur vandað um, réttilega, við stjórnarherrana fyrir að misnota og nýta um of þessa opnun sem fjáraukalög veita hvort ekki hefði verið skynsamlegra að breytingartillaga hans um einn milljarð kr. til styrktar sveitarfélögum í landinu hefði komið við fjárlagaafgreiðslu komandi árs, þ.e. væntanlega á næsta föstudegi, af því að menn eru að horfa til lengri framtíðar. Ég vænti þess ekki að til standi að úthluta þessum peningum núna í desembermánuði til sveitarfélaganna, en þetta er eingöngu hin formlega hlið málsins.

Síðan velti ég því upp og segi það svona sem mína almennu skoðun að heppilegast er auðvitað ævinlega undir þessum kringumstæðum að forðast hinar sértæku aðgerðir. Það eru vitaskuld fjölmörg atriði sem lúta að rekstri og fjárhagsafkomu sveitarfélaga sem eru mér kannski jafnofarlega í huga og það mál sem hér hefur mest verið rætt um. Það eru til að mynda skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar sem leiða til tekjurýrnunar hjá sveitarfélögum upp á fleiri hundruð milljónir kr. vegna tryggingagjaldsins. Það er auðvitað þekkt hér í umræðum frá því fyrir ekkert margt löngu, raunar fyrir réttu ári, þegar verið var að endurmeta tekjustofna sveitarfélaga. Þar var auðvitað ekki gengið frá öllum endum og hnútum með fullnægjandi hætti og það er auðvitað æ ljósar að koma á daginn. En nóg um þetta.

Eðli máls samkvæmt hefur þessi umræða hér um fjáraukalög tekið nokkurt mið af þeim umræðum sem áttu sér stað í gær vegna eðlilegra beiðna fulltrúa í fjárlaganefnd um upplýsingar. Ráðherrar í þessari ríkisstjórn sem málið snýr náttúrlega fyrst og síðast að hafa látið sig málið lítið varða, hæstv. forsrh. hvorki verið viðstaddur fundinn í gær né í dag, er vafalaust með fjarvist og að sinna öðrum verkefnum.

En af því að svo vel ber í veiði að hæstv. fjmrh. er hér, sá ráðherra sem nýtir mest þær opnu heimildir sem hið háa Alþingi veitir framkvæmdarvaldinu yfirleitt í fjárlögum --- af því að í þessu frv. til fjáraukalaga og breytingartillögum er þess farið á leit við hið háa Alþingi að bætt verði við nýjum liðum eða felldir nýir liðir í heimildargreinina margfrægu, 7. gr. fjárlaga, vegna yfirstandandi fjárlagaárs, hér er um að ræða eina tíu eða tólf liði --- vil ég bara spyrja hann þráðbeint: Mun nokkuð standa á því af hans hálfu, þegar og ef þessar heimildir verða nýttar, að hann upplýsi hið háa Alþingi undanbragðalaust með hvaða hætti hann hafi gert þetta, með öðrum orðum hverjum var selt fyrir hvað mikið og á hvaða kjörum? Af hverjum var keypt, fyrir hvað mikið og á hvaða kjörum?

Ég vil láta koma hér fram, herra forseti, að margt af þessu er síðan birt í ríkisreikningi þegar hann loksins sér dagsins ljós. En að þessu gefna tilefni vil ég líka upplýsa að ég er með í vinnslu á skrifstofu þingsins fyrirspurn í þessa veru þar sem ég fer þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann upplýsi þingheim innan tilskilins frests þingskapa, tíu virkra daga:

1. Hvaða heimildir í fjárlögum vegna yfirstandandi árs, þ.e. vegna ársins 2001, til sölu eða kaupa hafa verið nýttar af fjmrh.?

2. Hvert var söluverð einstakra eigna ríkissjóðs og hverjir keyptu?

3. Hvert var kaupverð einstakra eigna og hverjir seldu?

Ég mun óska skriflegs svars.

Ég spyr hæstv. fjmrh. í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað hvort hann sjái einhver tormerki á því að svara þessum einföldu spurningum. Ég trúi því ekki að svo sé því svör við þessum spurningum hafa gjarnan að verulegu leyti birst í ríkisreikningi þegar hann loksins er saman settur.

Ég hef orðið var við það í dag og fylgst með því að menn hafa nokkuð staldrað við meðferð fjármuna sem í ríkissjóð runnu vegna heimilda 7. gr. um sölu á hluta af landi Straums í umdæmi Hafnarfjarðar. Orðræður hafa farið fram um það hvernig þeim fjármunum væri ráðstafað og hvort rétt væri að verki staðið. Ég ætla að láta það liggja á milli hluta. Eftir því sem ég best heyrði var söluverð eignarinnar eitthvað á annað hundrað millj. kr., það kann að vera að þetta hafi farið fram hjá mér í þessari löngu umræðu, en --- (Gripið fram í: 102 millj.) Hver var talan? (Gripið fram í: 102 millj.) 102 millj. kr. Ég óska eftir því að fá að vita hver kaupandi þessarar jarðar var. Það skiptir dálitlu máli, ég þekki það frá árum áður. Þegar ég var bæjarstjóri í Hafnarfirði átti ég einmitt í viðræðum við skógræktarfélagið um kaup á þessum landskika og raunar fleirum til að tryggja eðlilega þróun byggðar í Hafnarfirði og þá náðust ekki samningar. En það er auðvitað þekkt hjá sveitarstjórnarmönnum þegar einkaaðilar eða aðrir eru að kaupa land í grennd þéttbýlis að oft er það gert með það að markmiði að versla og hafa ákveðna spákaupmennsku uppi við. Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga, einstaklingar hafa auðvitað þann rétt að reyna að gera það. Stundum tekst það og stundum ekki. En það er staðreynd að það er ekki vegna þess að eigendur viðkomandi landsvæðis hafi lagt svo mikið í viðkomandi svæði til verðmætaauka að það hækkar í verði heldur einfaldlega þróun byggðar, þ.e. einhverjar allt aðrar aðstæður. Og ég heyrði hæstv. fjmrh. fagna því alveg sérstaklega að söluverð Straums hefði verið miklum mun hærra en menn hefðu þorað að vona. Það er út af fyrir sig gott fyrir ríkissjóð.

Ég óska með öðrum orðum eftir því að hæstv. ráðherra svari mér þessu. Hann hlýtur að muna það því hann gat þess hér áðan að hann hefði skrifað undir samning þessa efnis fyrir viku eða um síðustu helgi, hafi ég fylgst rétt með. Ég vænti þess þannig að hann geri þinginu grein fyrir því hver hafi keypt þessa eign.

Ég gerði mér það til gamans --- það er nú kannski rangt að segja að ég hafi gert það mér til gamans --- eða ég taldi það öllu heldur nauðsynlegt í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um upplýsingaskyldu framkvæmdarvaldsins gagnvart hinu háa Alþingi að leita uppi og biðja skrifstofuna um hjálp í þeim efnum, leita uppi sviplík mál og hér hefur verið hvað mest deilt um, þ.e. hver er réttur þingmanna til að fá sundurliðuð svör við fyrirspurnum sínum. Ég hef haft það á tilfinningunni að þessi afstaða sé fordæmalítil, og þessi tregða forsrn. til að svara eins eðlilegum og sjálfsögðum spurningum og lagðar hafa verið fram þess efnis að fá á því sundurliðun hverjir hafa fengið greitt úr ríkissjóði fyrir veitta aðstoð við að selja ríkisfyrirtæki.

Menn hafa gripið til ýmissa vopna til að andæfa í þeim efnum, nefnt einkahagsmuni og nánast persónuvernd, það verður líklega það næsta. En hér er auðvitað í öllum tilfellum um lögaðila að ræða og þá hafa menn hlaupið í hitt hornið og talað um að vernda þyrfti viðskiptasjónarmið. Þetta er auðvitað eins og hver annar þvættingur og það vita þeir aðilar sem hafa verið með þennan undandrátt og verið á þessu undanhaldi.

Ég fann fjölmörg dæmi, herra forseti, sem sýna að venjan hefur auðvitað verið sú að fyrirspurnum af þessum toga er svarað undanbragðalaust. Þau eru bæði ný og gömul, þessi dæmi, en mér þykir svona kannski hvað sniðugast það dæmi sem ég fann frá þinginu 1989--1990 þegar flokkur hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. var í stjórnarandstöðu. Fyrirspyrjandi í þessu tilfelli er enginn annar en forveri hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, sem er núv. forstjóri Landsvirkjunar. Þá er hann að spyrja þáv. forsrh., sem var ef ég man rétt Steingrímur Hermannsson, einmitt um aðkeypta sérfræðiþjónustu á vegum ríkisstjórnarinnar. Hann innir eftir sundurliðun og spyr einfaldlega:

,,Hvaða aðilum var greitt á árinu 1989 fyrir sérfræðiþjónustu?``

Hér er það listað í 20 liðum. Það eru einstaklingar, lögaðilar og arkitektar, jafnvel starfsmenn ráðuneytisins og hinir og þessir. Síðan er þetta sundurliðað hér upp á punkt og prik enda ekkert óeðlilegt við það. Síðan er spurt um fleiri atriði sem lúta ekki að þessu beinlínis. En ég held að það væri mjög fróðlegt, herra forseti, að koma þessu svari frá 112. löggjafarþingi, 1989--1990, sem varð til vegna fyrirspurnar fyrrv. varaformanns Sjálfstfl. til þáv. forsrh. og senda þeim uppi í Stjórnarráði þetta svar þannig að þeir geti lært hvernig á að standa að samskiptum framkvæmdarvalds og þjóðþings. Þegar ég hef lokið ræðu minni, herra forseti, ætla ég að póstsenda plaggið með lítilli nótu upp í Stjórnarráð nema vera kynni að ég gæti beðið hæstv. fjmrh. að taka það með sér þegar hann fer úr salnum. Þetta er gamalt dæmi en mjög lærdómsríkt engu að síður.

[19:00]

Síðan er nýlegra dæmi hér á ferðinni --- þar hittist þannig á að sá sem hér stendur spurði fjmrh. sem var þá sennilega þessi sami Friðrik Sophusson því hér er um að ræða 123. löggjafarþing á árunum 1998--1999. Ég spurði þá um kostnað af breytingu ríkisfyrirtækja í hlutafélög, sem er einmitt náskylt því efni sem verið er að leita eftir í dag. Þá svarar --- svo ég fari alveg hárrétt með, er það ekki rétt munað hjá mér, herra forseti, að Friðrik Sophusson hafi verið í fjmrn. árin 1998--1999? Getur hæstv. fjmrh. kannski hjálpað mér með það? (Fjmrh.: Ég var þar sjálfur.) Hann var þá mættur til leiks. Þá ber að þakka honum þessi skýru og afdráttarlausu svör við spurningum mínum á þessu ári um kostnaðarbreytingu ríkisfyrirtækja við hlutafélög. (Gripið fram í: Hann getur kennt þér ...) (Gripið fram í: ... villurnar bara.)

Þá er það listað hér alveg nákvæmlega hverjir hafi fengið greiðslu úr ríkissjóði vegna tiltekinna einkavæðingarframkvæmda og ég fæ ekki séð að menn séu að standa á einu eða neinu. Hér eru upphæðir af ýmsum toga, milli tvær og þrjár milljónir og allt niður í 650 þús. Handsal sá um söluna á Áburðarverksmiðjunni. Scandia hf. sá um söluna á Sementsverksmiðjunni. Jarðboranir voru seldar af Kaupþingi. Útboð mötuneyta önnuðust Ríkiskaup og Íslandskostur hf. Og kynningarmál vegna þessa arna --- nú er ég að tala um árið 1996 --- annaðist Gott fólk. Og af því ég nefni það fyrirtæki alveg sérstaklega er mér líka í fersku minni að hv. þm. Gísli S. Einarsson spurði eftir því ekki fyrir mjög margt löngu hver útlagður kostnaður hefði verið vegna Lánasýslunnar af samskiptum við Gott fólk. Eftir mikið japl, jaml og fuður var það tíundað hér algerlega, brotið niður í öreindir og niður í krónur og aura.

Ég hirði ekki um að fara yfir þetta skjal allt saman, herra forseti, en árið 1997 er hér tekið og allt er þetta eins og vera ber. Því hlýtur maður að velta því fyrir sér hvað eiginlega hafi gerst í Stjórnarráðinu þessa síðustu mánuði og vikur og daga sem geri það að verkum að upplýsingar sem áður voru opinberar eru það ekki lengur.

Ég sagði áðan, herra forseti, að hæstv. forsrh. hefur ekki verið hér viðstaddur umræðuna vegna fjarvista. En gæti verið að varaformaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., gæti hjálpað mér í þessum efnum, því ég stend satt að segja alveg á gati þegar menn fara yfir sögu máls. Ekki þar fyrir að það hafi ekki stundum verið uppi ágreiningur og togstreita um að ná slíkum upplýsingum út og ekki allir alltaf sáttir. Oftar en ekki hefur það samt tekist eins og þessi tvö dæmi, raunar af fjölmörgum málum öðrum, bera glöggt vitni.

Því leyfi ég mér, herra forseti, með von um að það geti eitthvað skýrt málið sem er allt í skötulíki, því er verr og miður, að hæstv. forsrh. geti hugsanlega hjálpað upp á sakir í þessum efnum. (Gripið fram í: Fjármálaráðherra.) Hæstv. fjmrh. vildi ég sagt hafa.

Áður en ég vík frá þessum þönkum er kannski rétt að nefna það líka að 1997 og 1998 spurði hv. þm. Margrét Frímannsdóttir forsrh. um úttektir á ríkisstofnunum. Nú hafa engar breytingar orðið í Stjórnarráðinu á kontór hæstv. forsrh., þar er sami maður nú og þá var. Þá var reynt að svara spurningunum með skaplegum hætti eftir því sem ég fæ best séð, hverjir það voru sem unnu tiltekin verkefni á þessum vettvangi. Hér er því svarað á 16 blaðsíðum og nokkuð skýrlega gerð grein fyrir því hvernig að þeim úttektum var unnið og hverjir unnu verkin. Það er kannski rétt að koma þessum dæmum líka til forsrn. þannig að þeir geti lært af þeim vinnubrögðum og tekið mið af þeim núna við þessar einföldu óskir þingmanna um að fá upplýst hverjir nutu greiðslna úr ríkissjóði vegna veittrar þjónustu við sölu ríkisfyrirtækja. Með öðrum orðum, herra forseti, hefur gengið þolanlega fram að þessu en nú allt í einu er hurðum skellt í lás.

Það er auðvitað þetta, þessi breyting, þessi lítilsvirðing við hið háa Alþingi sem birtist í svörum eða öllu heldur engum svörum forsrn. sem gerir það að verkum að menn hljóta að velta yfir því vöngum, með réttu eða röngu, hvort einhverjar þær upplýsingar séu þarna á ferli sem þola ekki dagsins ljós.

Ég er ekki að dreifa hér ryki eða búa til eitthvað sem ekkert er en maður kemst ekki hjá því að draga þær ályktanir að þarna hljóti að vera eitthvað á ferðinni sem þingmenn og almenningur mega ekki sjá.

Ég nenni tæplega, herra forseti, að fara um það fleiri orðum hvers konar sveigjur og beygjur þetta mál allt hefur tekið á síðustu sólarhringum og raunar klukkutímum þegar menn eru hrokknir í það hornið að dreifa þessum upplýsingum til þingmanna í fjárln. og binda þau jafnframt trúnaði. Það er svo fráleitt sem frekast getur verið. Ég vil bara hafa það algjörlega ,,on record`` hafi nokkrum komið það til hugar, herra forseti, að fleiri en nefndir hv. þm. í fjárln. eigi að fá þessar upplýsingar í trúnaði frábið ég mér að fá að sjá þessar upplýsingar og láta binda mig trúnaði um þær jafnharðan. Ég frábið mér að fá upplýsingar af þessum toga í hendur undir þeim formerkjum. Ég neita því og vil ekki sjá þær.

Herra forseti. Það má svo sem hafa langt mál um þetta fjáraukalagafrv. og kannski hefur umræðan því miður um of einskorðast við það mál sem ég var að enda við að tala um. Heppilegra hefði verið að ræða það á almennari nótum því fjáraukalagafrv. ber það auðvitað með sér að til verri vegar horfir í fjármálum ríkisins. Það hefur reyndar komið fram í umræðunni, og þó nú væri, að ef áform ríkisstjórnarinnar um sölu ríkiseigna á síðustu vikum þessa árs ná ekki fram að ganga er spilaborgin fallin. Þá snýst greiðsluafgangur ríkissjóðs við og verður greiðsluhalli. Það er auðvitað grafalvarlegt mál í lok eins mesta góðæris Íslandssögunnar á síðustu árum.

Ég vil hins vegar ljúka ræðu minni með einni lítilli fyrirspurn til viðbótar til hæstv. fjmrh. sem lýtur að nýrri heimild honum til handa. Vera kann að hann hafi svarað því fyrr í dag --- þá bið ég afsökunar á því --- en fyrirspurnin lýtur að heimild til handa honum til að taka lán að upphæð 2,5 millj. kr. til að standa undir endurfjármögnun lána vegna reksturs Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.e. fjmrh. verði heimilað að ganga að þeirri sjálfskuldarábyrgð. Nú veit ég að fjárhæðir vegna flugstöðvarinnar hlaupa á mjög stórum upphæðum og þarf svo sem ekki að koma á óvart. En er þessi nýja endurfjármögnun lána í frv. til fjáraukalaga við 3. umr. eitthvað sem ekki var fyrirséð? Kom eitthvað þar upp í rekstrinum sem gerir það að verkum að ráðast þarf í þessa nýju lántöku? Ég geri ráð fyrir að menn hafi séð í upphafi árs hvenær greiðslur féllu til vegna áhvílandi lána? Mér finnst ástæða til þess vegna jafnstórra upphæða og hér um ræðir --- nú bíð ég bara, herra forseti, þar til formaður fjárln. og hæstv. fjmrh. hafa lokið sér af. Spurningin var sú --- og sérstaklega vil ég fagna hér veru hv. formanns fjárln. sem hefur ekki haft tök á því að vera í salnum eina aukatekna mínútu í hálftímaræðu minni. Það er því alveg einstök ánægja að hann megi vera að því að fylgja úr hlaði nefndaráliti sínu, og býð hann alveg hjartanlega velkominn. En fyrirspurnin var sem sagt þessi og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. hafi heyrt hana og aðrar þær fyrirspurnir sem ég beindi til hans enda hefur hann haft tök og ráðrúm til þess að sitja hér yfir ræðu minni.