Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 22:21:22 (2477)

2001-12-04 22:21:22# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[22:21]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekki athugasemd við það þó að hv. þm. og formaður fjárln. sem hefur séð viðkomandi bréf, geri ekki opinskátt efni þess af því hann hefur lýst því yfir að hann sé bundinn trúnaði og ég geri ekki athugasemdir við það. Það sem ég geri athugasemdir við er að ég tel að þetta mál eins og það er vaxið eigi að koma inn í þingið eins og hér hefur komið mjög ákveðin og rökstudd krafa um. Ég tel að það eigi að gerast áður en umræðu um þetta mál lýkur og að þá þurfi að koma ítarlegri rökstuðningur með tilvitnun í þær lagagreinar sem hann styðst við, þ.e. með hvaða hætti og hver sá trúnaður skuli vera og hve langt hann skuli ná ef fallast eigi á hann. Að sjálfsögðu virði ég afstöðu hv. formanns fjárln. gagnvart persónulegri stöðu sinni og þeim upplýsingum sem hann hefur tekið við og gefið fyrirheit um að halda trúnað um.