Vandi of feitra barna og ungmenna

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:58:11 (2553)

2001-12-05 15:58:11# 127. lþ. 44.6 fundur 304. mál: #A vandi of feitra barna og ungmenna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:58]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Offita er heilsufarsvandamál sem hefur verið að aukast. Við sáum það fyrst hjá fullorðnum og nú sjáum við þetta í æ ríkari mæli hjá börnum. Það er vissulega rétt sem kom fram hjá hæstv. heilbrrh. að það er vel fylgst með börnunum en það er ekki nóg. Það þarf að grípa inn í þessa þróun. Ungbarnaeftirlitið og skólaheilsugæslan eru þeir aðilar sem best geta fylgst með og ættu að geta sem best gripið inn í, þ.e. ef heilsugæslan hefur mannafla og tíma til að sinna slíku starfi.

Það þarf að setja þetta forvarnastarf inn í daglegt prógramm heilsugæslunnar. Það þarf að sjá til þess að þeir starfsmenn sem þar vinna fái þá sérfræðiaðstoð sem þeir þurfa til þess síðan að geta haldið vinnunni áfram sjálfstætt. Kennslugögn vantar og það tekur tíma að hafa alla fjölskylduna í hópefli innan heilsugæslunnar. En á þessu vandamáli þarf virkilega að taka.