Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 11:04:48 (2558)

2001-12-06 11:04:48# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, með síðari breytingum. Eins eru í frv. þessu gerðar tillögur um breytingar á lögum um nr. 83/19893, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjöld, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 144/1994 um ársreikninga og lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum. Breytingarnar eru að sjálfsögðu allmargar í tímans rás, enda er það eitt af helstu verkefnum Alþingis að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt og þeim lögum sem hér eru upp talin.

Frv. þetta er eitt af helstu frumvörpum á þessu þingi. Í því felast ákveðnar grundvallarbreytingar á skattlagningu atvinnurekstrar á Íslandi. Þessar breytingar eru í meginatriðum þrenns konar.

Í fyrsta lagi lækkar eignarskattur fyrirtækja og einstaklinga, í öðru lagi lækkar tekjuskattur atvinnurekstrar og í þriðja lagi hækkar tryggingagjald á móti samkvæmt frv. Megináhrifin á tekjuhlið ríkissjóðs verða á árinu 2003 en að sumu leyti munu áhrifin koma fram þegar á næsta ári.

Enn fremur eru í frv. mikilvæg atriði sem snerta svokölluð verðbólgureikningsskil en meiningin er að þau verði afnumin úr skattalögum og að horfið verði frá verðbólgureikningsskilum á Íslandi á næstunni. Verðbólgureikningsskil voru á sínum tíma tekin upp á miklum verðbólgutímum en nú þegar stöðugleiki hefur orðið meiri í íslensku efnahagslífi svona almennt séð (Gripið fram í: ... einhvern tímann.) og horfur eru á að stöðugleiki verði enn þá meiri þegar til framtíðar er horft er þetta talið rétt. Ástæðan er fyrst og fremst sú að Ísland er eitt í hópi helstu viðskiptalanda heims þar sem verðbólgureikningsskil eru viðhöfð. Í okkar helstu viðskiptalöndum þekkjast ekki slíkar reglur heldur er stuðst við alþjóðlega viðurkennd reikningsskil og meiningin er að íslenskt atvinnulíf búi við sams konar fyrirkomulag í framtíðinni.

Enn fremur er mikilvægt ákvæði sem snýr að heimildum einstaklinga í atvinnurekstri til að færa rekstur sinn yfir í hlutafélagaform án þess að slík yfirfærsla ein og sér leiði til skattlagningar með því að söluhagnaður er uppleystur eingöngu við þá yfirfærslu. Um það mál hafa orðið töluverðar umræður og segja má að þar sé oft verið að blanda saman ólíkum hlutum.

Ef við lítum á þetta mál snýst það kannski um tvennt. Annars vegar snýst það um hvort eigi almennt séð að vera heimilt að færa einstaklingsrekstur yfir í hlutafélag án þess að yfirfærslan sem slík kalli á skattlagningu. Þetta er mjög mikið hagsmunamál fyrir einstaklingsrekstur í landinu og hlýtur að vera mikið kappsmál fyrir alla þá flokka og þá stjórnmálamenn sem telja sig vera talsmenn hinna litlu fyrirtækja og einstaklingsrekstrarins og rekstrar sem menn eru með á eigin kennitölu að slík yfirfærsla sé heimil. Málið er þannig að oft þurfa þessi fyrirtæki að stækka. Oft þurfa þessi fyrirtæki að taka breytingum. Oft þurfa þessi einstaklingsfyrirtæki að renna saman við önnur fyrirtæki og til að fyrirtæki geti með þægilegu móti þroskast eða þróast úr einstaklingsrekstri yfir í hlutafélag og hægt sé að koma við rekstrarhagræðingu og slíkum þáttum er nauðsynlegt að þessi yfirfærsla sé heimil án þess að hún ein og sér kalli á skattlagningu.

Það er líka mjög mikilvægt við kynslóðaskipti í rekstri að hægt sé að færa einstaklingsrekstur á milli kynslóða og halda rekstri áfram en þurfa ekki að vera í félagi án þess að það kosti mikil útlát í skattgreiðslum. Það er oft erfitt þegar menn hafa verið með rekstur á einstaklingsgrundvelli og menn eru komnir á efri ár að halda rekstrinum áfram þegar þeir sem hafa staðið í honum falla frá eða vilja draga sig út úr honum. Þess vegna er nauðsynlegt að það sé mjög auðvelt að færa slíkan rekstur á milli aðila án þess að sú yfirfærsla ein og sér kalli á skattgreiðslur. Þess vegna treysti ég því að allir þeir sem hafa látið sig hin litlu fyrirtæki í landinu miklu varða standi nú með þessari breytingu en reyni ekki að koma í veg fyrir hana vegna þess að yfirfærslan er algjörlega nauðsynlegt mál, mikið framfaramál, fyrir litlu fyrirtækin í landinu.

Síðan er annað mál sem kemur þarna inn. Með þeim breytingum sem lagðar eru til á lækkun á tekjuskatti fyrirtækja verður almennt séð hagstæðara að reka fyrirtæki í hlutafélagaformi heldur en í einstaklingsrekstri. Ef menn væru fastir í einstaklingsrekstrarforminu og gætu ekki flutt rekstrarformið á milli mundi það þýða að allir sem koma nýir að atvinnurekstri og væru að byrja í atvinnurekstri mundu að sjálfsögðu velja hlutafélagaformið meðan þeir sem væru áfram með einstaklingsrekstur væru bara fastir. Það mundi skapa mjög mikla mismunun þarna á milli og þess vegna mjög eðlilegt að heimild til þess að flytja á milli sé veitt án þess að þurfa að leysa upp söluhagnað út af þessu. En framtíðarverkefnið hlýtur að vera, þegar upp er staðið, að huga að því hvernig hægt er þá að lækka skattlagningu á einstaklingsrekstrarformið og samræma það skattlagningu félaganna fremur en að gefast upp og hverfa frá því að lækka tekjuskatta á atvinnurekstur. Ég treysti því að það verði viðfangsefnið á næstunni að reyna einmitt að finna leiðir til að draga úr skattlagningu á einstaklingsreksturinn þannig að hann geti búið við svipuð skattakjör og hlutafélög og minni fyrirtækin sem eru rekin í hlutafélagaformi munu búa við.

Meiri hluti efh.- og viðskn. er með nokkrar brtt. við frv. Í 1. lið brtt. er skýrt betur hvað þeir sem standa fyrir rekstri þurfa að telja sér til tekna sem laun þannig að ekki verði um að ræða óeðlilegan tilflutning frá launum yfir í arð.

Í 2. lið brtt. er enn fremur fjallað um sama atriði þar sem kveðið er svo á um að úthlutum verðmæta úr félögum svo sem hluthafalán og slíkt sem ekki samræmist lögum um hlutafélög og einkahlutafélög skuli talin til skattskyldra tekna.

[11:15]

Í öðrum liðum brtt. frá efh.- og viðskn. er líka fjallað um sömu mál og það er einkum í 7. lið brtt. Þessi atriði voru mikið rædd í nefndinni. Að sjálfsögðu þarf að koma í veg fyrir að einstaklingar sem vinna við lítil fyrirtæki, hvort sem það er í einstaklingsrekstri eða í hlutafélögum, telji fram óeðlilega lág laun og telji fram óeðlilega mikinn hagnað, hvort sem það er rekstrarhagnaður í einstaklingsrekstri eða arður af hlutafélagi. Hins vegar er ótækt að svo langt sé gengið í þessum efnum að hver einasti einstaklingur sem stundar atvinnurekstur, hvort sem er í einstaklingsrekstri eða hlutafélagsformi, sé fyrir fram skilgreindur sem skattsvikari áður en annað kemur í ljós.

Við vitum hvernig það var í Austur-Þýskalandi í gamla daga. Þá var hver ferðamaður sem kom til landsins skilgreindur sem hugsanleg ógnun við öryggi ríkisins. Ég tel að það megi ekki umgangast þá einstaklinga sem taka þátt í atvinnurekstri í litlum fyrirtækjum á Íslandi sem hugsanlega ógnun við íslenska skattkerfið og íslenska réttarríkið, að þeir séu stimplaðir sem glæpamenn þangað til þeir hafa sannað sakleysi sitt. (Gripið fram í.) Þess vegna er mikilvægt að þessir aðilar búi við eðlilega réttarstöðu, og út á það ganga þær brtt. sem hér eru settar fram.

Þá er í 3. lið brtt. gert ráð fyrir að horfið sé frá svokallaðri 67 ára viðmiðun sem sett var fram í frv. varðandi myndun lífeyrisréttinda. Mál þetta snýst um að þegar fyrirtæki greiða til lífeyrissjóða til öflunar lífeyrisréttinda fyrir starfsmenn sína er það frádráttarbær kostnaður hjá fyrirtækjunum en getur í vissum tilvikum verið skráð sem tekjur hjá launþeganum og hann því tvískattaður, bæði við inngreiðslu inn í lífeyrissjóði og eins þegar tekið er út úr lífeyrissjóðunum við starfslok, þ.e. þegar ellilífeyrir er tekinn.

Á sínum tíma afgreiddi Alþingi ákvæði um þetta, sem gerði það að verkum að ákveðið þak var sett á hve mikið mætti greiða í lífeyrissjóð á þessum forsendum, hvað launagreiðendur gætu lagt mikið inn í lífeyrissjóð án þess að launþegar þyrftu að telja það sér til tekna jafnframt. Það þak var miðað við að telja lífeyrisgreiðslur frá 65 ára aldri. Í frv. var gerð sú tillaga að þessi 65 ára viðmiðun yrði færð upp í 67 ár en í brtt. nefndarinnar er gert ráð fyrir að haldið verði fast við 65 ára viðmiðun.

Í 4. lið brtt. eru skýrð betur ákvæði sem snúa að því hvort arður sem fyrirtæki fá frá útlöndum er talinn til skattskyldra tekna eða ekki. Almenna reglan innan lands er sú að arður sem fyrirtækið fær frá öðru fyrirtæki er ekki talinn til skattskyldra tekna vegna þess að fyrirtækið sem greiðir arðinn í fyrirtækið er væntanlega búið að greiða skatt af tekjum sínum. Þetta er hin almenna regla sem gildir um allan heim.

Sama reglan gildir fyrir íslensk fyrirtæki gagnvart mótteknum arði frá útlöndum nema arðurinn að utan sé skattlagður í einhverju sérumhverfi. Í brtt. nefndarinnar er það betur skilgreint hvað er sérumhverfi og hvað almennt umhverfi. Reglan sem tekin er upp er að frádráttur samkvæmt þessari málsgrein sé bundinn því skilyrði að skatthlutfall sem lagt er á hagnað hins erlenda félags sé eigi lægra en almennt skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, OECD, og fjmrh. setji nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Lægsta viðmiðunin sem menn sjá fram á núna er írska skattprósentan sem verður 12,5% en hins vegar hef ég haft fregnir af því að í aðildarsamningum Kýpur að Evrópusambandinu sé miðað við 10% skatthlutfall á atvinnurekstur. Væntanlega verður það sú viðmiðun sem höfð verður.

Síðan eru gerðar tillögur í 6. lið um tæknilegar breytingar vegna yfirfærslu á einstaklingsrekstri yfir í hlutafélag og gerð grein fyrir því.

Í 8. lið er fjallað um breytingar til að samræma eignarskattslega stöðu verðbréfa. Þetta er fyrst og fremst tæknileg breyting sem gerð er í brtt. og varðar það að skuldabréf útgefin af Íbúðalánasjóði eigi að flokkast með sama hætti og skuldabréf útgefin af Byggingarsjóði ríkisins. Þetta er tæknilegt atriði.

Þá gerir nefndin tillögu um að 39. gr. frv. falli brott. 39. gr. frv. er um að heimild sem fjmrh. hefur haft til að krefjast trygginga af erlendum aðilum vegna hugsanlegra skatta hér á landi flytjist til skattstjóra. Þessi grein er felld úr frv. þannig að þessi heimild verður áfram hjá fjmrh. Hins vegar er afar vandasamt að beita slíkri heimild, sérstaklega gagnvart erlendum aðilum sem eru borgarar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það er augljóst að við getum ekki gert aðrar kröfur um tryggingar fyrir skattgreiðslum til borgara á hinu Evrópska efnahagssvæði en til íslenskra ríkisborgara. Það verður því að leysa vandamál sem upp kunna að koma af þessum ástæðum með öðrum hætti.

Í 10. lið er verið að uppfæra viðmiðunarfjárhæðir vegna greiðslu vaxtabóta.

Í 11. lið brtt. er fjallað um mál sem snerta reiknað endurgjald sem ég ræddi um áðan.

Í 12. lið brtt. eru tæknilegar breytingar sem varða rafræn skil á skýrslu og greiðslu vegna staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í 13. lið brtt. er fjallað um tæknilegt atriði er varðar skilgreiningar á kostnaðarverði eða bókfærðu verði.

Í 14. og 15. lið brtt. eru tillögur til breytinga á ákvæðum frv. er snúa að ársreikningalögum. Þar eru afnumin verðbólgureikningsskilin en í frv. hafði óvart verið felld niður annað ákvæði í 25. gr. ásetningarlaganna, sem fjallar um heimildir fyrirtækja til þess að endurmeta eignir þegar raunverð þeirra hefur sannarlega breyst og horfur eru á að sú breyting verði varanleg. Það er nauðsynlegt að þetta ákvæði haldist inni í lögum um ársreikninga.

Í nefndinni var gert ráð fyrir því að málið kæmi aftur fyrir nefndina milli umræðna. Sumir nefndarmanna hafa áhuga á að fjalla frekar um ákveðin atriði. Það er sjálfsagt að taka málið aftur inn í nefnd milli umræðna og ég hef gengið út frá því að fundinn verði staður í dagskrá nefndarinnar til að taka málið aftur fyrir ef mönnum sýnist svo.

Virðulegi forseti. Með þessum brtt. frá meiri hluta nefndarinnar sem ég hef kynnt legg ég til að þetta mál verði samþykkt.