Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 13:13:32 (2575)

2001-12-06 13:13:32# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[13:13]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Út af því síðasta, það er auðvitað billegur útúrsnúningur hjá hv. þm. að segja að ég hafi nefnt hér að það væru 20 þús. skattsvikarar. Ég nefndi einfaldlega sem dæmi að það væri ómögulegt að setja nákvæmlega puttann á það hve margir nýttu sér þetta skattform og að ekki væri hægt að nefna þá tölu nákvæmlega. En ég fór ítarlega yfir það í máli mínu og vitnaði þar til skattstjóra, að þetta leiðir til skattsvika. Til hve mikilla getur hann örugglega ekki heldur svarað nákvæmlega.

En það er athyglisvert, herra forseti, að Sjálfstfl. sem vill helst vera málsvari fyrir stórfyrirtæki og stóreignafólk, styður ekki einu sinni þessa tillögu hv. þm. eða ég fæ ekki ráðið það af orðum hv. formanns efh.- og viðskn. að þeir styðji hv. þm. í þeirri leið að fara með skattana svona langt niður. Það er arfavitlaus tillaga að gera það með þessum hætti. Það sem við viljum horfa til, og hv. þm. gerir ekki, er að hafa skattalögin með þeim hætti að þau stuðli að jafnræði í skattlagningu, að þau stuðli að sanngirni í skattbyrðinni og skattlagningunni og að þau séu hlutlaus gagnvart tekjum. Hv. þm. vill hins vegar ekki horfa til þeirra sjónarmiða heldur vaða með skatthlutfallið niður í 11%. Hvað vill hv. þm. gera fyrir einstaklingana sem borga 37--38% skatt? Hvað vill hv. þm. gera fyrir láglaunafólkið, ellilífeyrisþegana og öryrkja sem borga 1 milljarð í skatt af framfærslueyri sem er innan við 90 þús.? Ég hefði viljað heyra hv. þm. tala um það frekar en að vilja lækka enn frekar skattana á stórfyrirtækjum og stóreignamönnum.