Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 15:32:32 (2593)

2001-12-06 15:32:32# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram að eignarskattar hafa ekki verið mér neinn sérstakur þyrnir í auga. Ég sé enga fasta jöfnu þar til staðar. Það er einn eignarskattur sem mér hefur fundist eðlilegt að lækka eða alla vega skilyrða, þ.e. eignarskattur á húsnæði fullorðins fólks. Mér finnst slæmt þegar fullorðið fólk er hrakið úr íbúðarhúsnæði sínu.

Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að fyrst ríkisstjórnin gengst fyrir því að eignarskattar séu lækkaðir þá finnst mér, í ljósi þeirra röksemda sem fram komu í tengslum við upptöku fjármagnstekjuskattsins, eðlilegt að fjármagnstekjuskatturinn verði þá hækkaður að sama skapi.

Á hverju byggi ég þetta? Jú, grundvallarsjónarmið mitt er að við eigum ekki að rýra tekjur, hvorki ríkis né sveitarfélags. Ég er talsmaður hárra skatta, við skulum ekki gleyma því. Ég er talsmaður þess að reka velferðarþjónustuna og almannaþjónustu, samfélagsþjónustu, með sköttum. Ekki með notendagjöldum. Ég vil ekki láta rukka við dyrnar á spítölunum eða skólunum. Ég vil ekki skattleggja skólabörn eins og ríkisstjórnin er að gera, eða sjúklingana. Ég vil gera það í gegnum skattana.

Ég er einvörðungu, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, að minna á þann rökstuðning sem hafður var uppi í tengslum við upptöku fjármagnstekjuskattsins á sínum tíma. Ég er vissulega að taka undir sitthvað í þeim sjónarmiðum sem menn hafa haldið fram, að það séu ákveðin rök fyrir því að skattleggja fremur arðinn af eigninni en eignina sjálfa. Ég er tilbúinn að hlusta á þau rök.