Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 18:23:08 (2605)

2001-12-06 18:23:08# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að biðja hv. þm. Hjálmar Árnason afsökunar ef ég hef raskað ró hans.

Ég tek alveg undir það að Alþingi er tæknivætt og það vitum við öll. Við notum sjónvarpstæki þegar við erum að vinna á skrifstofum okkar til að fylgjast með. En mér finnst það vera lágmark að háttvirtir nefndarmenn í viðkomandi nefnd, sem er með viðkomandi mál hér á dagskrá, séu í salnum.

Ég hef reynt að leggja hér spurningar fyrir fulltrúa Framsfl. í efh.- og viðskn. og hv. þm. Hjálmar Árnason er í þeirri nefnd. Ég vænti þess þá að fá að heyra svör við þeim spurningum sem ég hef lagt fram. Mig langar með öðrum orðum að vita: Styður Framsfl. fullkomlega og er hann ánægður með þá landsbyggðarskatta sem hér er verið að leggja á rétt einu sinni í formi tryggingagjaldsins? Er það stefna Framsfl., að ganga um atvinnulífið á landsbyggðinni eins og fram kemur í þeim skýrslum og gögnum sem efh.- og viðskn. hefur fengið? Er það skoðun Framsfl. að þetta sé bara allt í besta lagi?

Það er þetta sem ég er að ræða um þegar ég ræði um að ég hafi ekki séð fulltrúa Framsfl. mikið í dag, það er alveg hárrétt. En sjónvarpssendingarnar hafa þó skilað sér það vel að það má þá eiga orðastað við hv. þm. Hjálmar Árnason, annan fulltrúa Framsfl. í efh.- og viðskn. Ég bíð eftir að heyra álit þeirra. Þeir hafa ekki rætt um þetta mál í allan dag. Það er mergur málsins.