Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 20:31:31 (2626)

2001-12-06 20:31:31# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KVM
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[20:31]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér hefur í allan dag verið rætt um frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt ásamt öðru og margt verið sagt.

Í fskj. II með frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. segir, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpi þessu eru lagðar til margvíslegar breytingar á gildandi skattalögum. Breytingunum er m.a. ætlað að örva atvinnulífið og styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á alþjóðamörkuðum en miða einnig að því að draga úr skattbyrði einstaklinga. Á móti er gert ráð fyrir nokkurri hækkun á tryggingagjaldi.``

Úr þessum setningum, herra forseti, má lesa nokkurn kvíða. Það koma fram ákveðnar áhyggjur í þessum orðum. Þrátt fyrir að hv. þm. Pétur Blöndal hafi sagt hér áðan að allt væri í stakasta og besta lagi hér á landi, allir í vinnu og að allt væri bjart þá bera þó þessi orð ,,ætlað að örva atvinnulífið`` í sér aðra hugsun eða annað hugarfar en hann kom hér fram með, að mínu mati, herra forseti.

Góðæri mikið var hér í landinu fyrir ekkert mörgum árum. Mér hefur ekki verið tjáð af neinum þeirra sem þá tjáðu sig um hve mikið góðæri væri hér að því sé lokið. Ef góðærinu er ekki lokið þá má spyrja: Til hvers þarf að örva atvinnulífið? En af þessum orðum ,,að örva atvinnulífið`` dreg ég þá ályktun að fjmrn., fjárlagaskrifstofa ætli sem svo að því sé lokið eða a.m.k. að það sé í mikilli hættu.

Hvers vegna er þá góðærið uppurið eða horfið? Er það vegna þess að ríkisstjórnin missti tökin á öllu? Það hlýtur að vera, a.m.k. ef það var ríkisstjórninni að þakka að hér var góðæri, herra forseti. En ef það er ekki ríkisstjórninni að kenna eða við hana að sakast að góðærið sé búið þá getum við líka ætlað sem svo að góðærið hefði komið hvort sem ríkisstjórnin var góð eða slæm og að ríkisstjórnin hafi í raun og veru ekkert haft með þetta góðæri að gera heldur hafi verið þannig aðstæður í landinu eða aðstæður á mörkuðum.

Það kom skelfilegur stormur, vindar og straumar sem kenndir voru við El Niño sem eyðilögðu t.d. allar uppsjávarveiðar í Suður-Ameríku. Þar með hrundi mjölframleiðsla þar fyrir nokkrum árum. Þetta varð til þess að verð á mjöli hækkaði mjög á Íslandi og varð undirstaða og jafnvel upphaf góðæris hér. Það var ekki einhver snjöll hagstjórn. Þess vegna þarf að örva atvinnulífið, þ.e. vegna þess að góðærið er á enda og að það þarf að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á alþjóðamörkuðum, segir hér einnig.

Fyrirtæki á alþjóðamörkuðum greiða vexti af skuldum sínum og lánum en fyrirtækin á Íslandi greiða gífurlega háa vexti. Því miður ræður ríkisstjórnin engu um hve háir vextir eru á Íslandi. Hún ræður engu um það hvað vextir eru háir og hún ræður ekki neinu um góðærið, hvort það kemur eða fer. Svo virðist a.m.k. vera. Þess vegna ætti enginn hæstvirtra ráðherra að tala um góðæri og tengja það við gerðir sínar.

Við þekkjum gamla sögu sem er í Mósebók þar sem maður einn ræður drauma konungsins sem dreymdi fyrir góðæri og hallæri. Náttúran ræður töluverðu um það og önnur skilyrði hvort það er góðæri eða hallæri í landinu. Þó að tækni og þekking sé mikil þá verða menn að varast að hrokast upp eins og hanar á haug og segja að velsæld sem stafar af góðum náttúrulegum skilyrðum sé þeim að þakka. Þá hljóta þeir að segja að hörmungar og hallæri séu þeim að kenna. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur öll.

Mikið hefur verið sagt um þetta frv. og mörg ákvæði þess. Ég ætla nú svo sem ekki að endurtaka það hér, það er komið fram á kvöldið. En mig langar þó að geta þess að ég var á ferð um Vestfirði fyrir nokkru í kjördæmavikunni þar sem alþingismenn Vestfjarða hittu að máli sveitarstjórnarmenn. Í máli langflestra þeirra, líka þeirra sveitarstjórnarmanna sem styðja þann flokk sem fer með forsrn., töluðu flestir um að varasamt væri að koma fram með þær breytingar sem hér eru lagðar fram á tryggingagjaldi. Það var sérstaklega nefnt. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi heyrt þessar raddir og taki mark á þeim. Hverjum á að treysta betur en einmitt þeim sem eru á kafi í sveitarstjórnarmálum þegar þeir gefa álit sitt á þessu? Við hljótum að taka mark á sveitarstjórnarmönnum sem hafa setið í sveitarstjórnum og sinnt stjórnsýslu sem lýtur að rekstri sveitarfélaga. Þeir hljóta að vita betur en margir hvað hefur áhrif á rekstur sveitarfélaganna.

Margoft hefur verið nefnt hvaða áhrif þetta hefur t.d. í Vestmannaeyjum, á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi. Ég vona að tillit verði tekið til þeirra orða.

Herra forseti. Þegar talað er um að lækka eigi tekjuskatt fyrirtækja úr 30% í 18% og eignarskatt á fyrirtæki og fleiri gjöld og fleiri skatta, lækka skatta á fyrirtæki og jafnvel fjármagnseigendur þá muni það eiga að örva og styrkja atvinnulífið. Það er talið leiða til þess að tekjur þeirra sem vinna þar muni hækka.

Margoft hefur verið sagt við þessari umræðu að það sé komin gósentíð hjá sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi, það komi svo margir dollarar inn í landið fyrir sölu á sjávarafurðum og þeir hagnist svo og ábatinn verði svo mikill að búast megi við því að gengi hlutabréfa í sjávarútvegsfyrirtækjum muni hækka mjög og áhugi manna á því að kaupa hlut í þeim muni aukast snarlega. Ég býst þá við því að heyra innan skamms, sérstaklega á komandi tímum, að laun verkafólks í fiskvinnslu hækki til muna, samkvæmt þeirri kenningu að þegar fyrirtækin fari að hagnast svo mikið þá hækki launin hjá fólkinu. Um leið og þessi röksemdafærsla er notuð og því er haldið fram að það sé allt svona gott í útgerðinni þá er í raun og veru verið að tjá, samkvæmt þessum rökum, að fiskverkafólk geti farið að hlakka til kauphækkana, enda veitir ekki af á þeim bænum.

[20:45]

Í fskj. II, sem ég vitnaði í áðan, herra forseti, stendur líka, um skattbreytingarnar sem hér um ræðir:

,,Talsverðum vandkvæðum er bundið að spá fyrir um tekjutap ríkissjóðs í kjölfar slíkra breytinga þegar til lengri tíma er litið. Þar veldur mestu óvissan um í hvaða mæli lækkun tekna verður vegin upp af hækkun tekna vegna vaxandi umsvifa í þjóðarbúskapnum en tilgangurinn með þessum ráðstöfunum er einmitt að stuðla að betri skilyrðum fyrir hagvexti.``

Ég minni á, herra forseti, að fjármagnstekjuskattur er 10% og hann var lækkaður á sínum tíma. Hvaða áhrif skyldi hann hafa haft til þess að örva atvinnulífið eða aðrar skattalækkanir sem hafa átt sér stað á fyrirtækjum eða þeim sem hafa mikið fjármagn undir höndum, til að styrkja og efla atvinnulífið?

Kannski er þetta ekki rökrétt. Kannski eru það rangar aðgerðir að lækka svo mikið skatta á fyrirtæki og það sem að þeim lýtur. Það hefur sýnt sig að í samanburði við nágrannalöndin, OECD-löndin, eru lagðir mjög lágir skattar á fyrirtæki. Hér greiða hins vegar einstaklingar hvað hæstan tekjuskatt, en samt er umhverfið þannig hjá okkur að hér eru alveg gífurlega háir vextir, sem margir hafa miklar áhyggjur af. Við getum tekið sem dæmi fjölskyldu sem skuldar 10 millj. kr., ætli hún sé ekki að greiða allt að því 1,2 millj. kr. í vexti og verðbætur á hverju ári? Það þurfa að vera miklar tekjur sem slík fjölskylda hefur, bara til að standa undir þessu og rekstrinum. Það eru margar fjölskyldur í landinu sem skulda fleiri milljónir. Margir hafa talað um það sem fólk er að greiða vegna skulda sinna við Íbúðalánasjóð, að af hverri milljón þá hækki upphæðin nánast í hverjum mánuði. Þetta er áhyggjuefni. Kannski væri betra að huga betur að því hvernig við getum lækkað skatta á einstaklinga.

Sagt er að það sé vandkvæðum bundið að spá fyrir um tekjutap ríkissjóðs og hvað tekjutapið eða lækkun skatta á fyrirtækin muni valda mikilli hækkun á tekjum einstaklinga sem síðar muni þá væntanlega skila sér í aukinni neyslu og hækkandi tekjum af virðisaukaskatti og þá jafnframt í auknum tekjum af tekjuskatti. Um þetta er vandi að spá, ,,vandi er um slíkt að spá``, segir í kvæði eftir Jóhannes úr Kötlum, Bráðum koma blessuð jólin, herra forseti.

Ég held að íhuga þurfi betur skattatillögurnar og allar þessar breytingar sem menn telja nauðsynlegt að koma á og þegar svona mikilvæg mál eru tekin fyrir, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gat um í framsöguræðu sinni, þurfi að hugsa betur um afleiðingarnar.

Hvaða áhrif hefur það t.d. haft, svo ég ítreki spurningu mína, þegar fjármagnstekjuskatturinn er svona lágur? Hefur það skipt einhverju máli til eflingar fyrirtækjum? Hefur ekki fjármagn streymt úr landi? Hefur lækkunin skilað sér? Eða hvers vegna hefur krónan lækkað svo mikið á undanförnum mánuðum? Er það vegna þess að sjávarafurðirnar hafi verið að lækka í verði í útlöndum eða er það eitthvað annað? Er það ekki vegna að allt of mikið fjármagn hefur streymt út úr landinu og að þeir sem hafa bætt hag sinn hafi jafnvel ekki farið í að fjárfesta innan lands heldur talið fé sínu betur varið annars staðar, í öðrum löndum, jafnvel þó að skattar á fyrirtæki þar séu ekkert lægri en hér?

Um þetta þurfum við að hugsa vel. Um þetta ætti hv. efh.- og viðskn. að fjalla betur og leggja ríkari áherslu á að forðast skatta sem halda einstaklingum og fjölskyldum í heljargreipum skattpíningar. Betra væri að fara bil beggja í þessu tilliti.