Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 22:35:26 (2645)

2001-12-06 22:35:26# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[22:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn gagnályktaði eiginlega sjálf í svari sínu og gaf í skyn að ef fjármagnstekjuskatturinn væri ekki 10% heldur 0 væri sennilega í lagi að fara bara upp í 2,95 með eignarskattinn. Þetta stenst ekki skoðun, herra forseti.

Út af fyrir sig fagna ég því, eins og ég sagði fyrr í kvöld, að einn stjórnarandstöðuflokkanna skuli hafa lagt fram heildstæða stefnu í þessum málum þó að hún sé gjörólík því sem ríkisstjórnin vill leggja fram og hefur lagt til. Það er virðingarvert að leggja vinnu í að búa til slíkar tillögur og manna sig upp í að leggja þær fram þó að ég sé algjörlega ósammála því, sem kom fram í máli þingmannsins, að þær tillögur séu réttlátari, skynsamlegri og að öllu leyti betri en tillögur ríkisstjórnarinnar. Ég tel að það sé fráleit kenning. Ég tel hins vegar að ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar í stjórnarandstöðu á Alþingi mættu kannski læra eitthvað af því þegar svona pakki kemur fram frá stjórnarandstöðunni þar sem aðrar tillögur eru lagðar til í heilu lagi sem svar við tillögu ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það athyglisverð nýjung á þessu sviði hér á hinu háa Alþingi. Það hafa Vinstri grænir ekki gert svo dæmi sé tekið, hvað þá Frjálslyndi flokkurinn.