Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 22:21:33 (2769)

2001-12-07 22:21:33# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[22:21]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í gær og í dag hefur farið fram umræða um fjármál ríkisins. Í gær voru ræddir tekjuskattar og tillögur ríkisstjórnarinnar um gagngerar breytingar á þeim og í dag fer fram umræða um fjárlagafrv. Í rauninni fer vel á því að ræða þau frumvörp eða þessar breytingar í senn því að annars vegar fjalla þær um tekjur ríkisins og hins vegar um útgjöld ríkisins.

Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, gerir vinnubrögð við fjárlögin að umræðuefni í áliti sínu og bendir á einmitt þetta atriði, að heppilegt sé að hafa þetta allt saman undir en nefnir jafnframt að vegna tímaskorts hafi efnahagsforsendur og tekjuhlið fjárlagafrv. fengið afar litla umfjöllun í nefndinni. Hann segir reyndar einnig að niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar hafi fengið of litla umfjöllun í vinnu nefndarinnar.

Það sem við erum að fjalla um hér skiptir sköpum fyrir samfélagið allt. Tekjuskattar skipta máli fyrir fyrirtækin og einstaklingana, og þeir sem síðan njóta framlagsins í fjárlagafrv. horfa til þess sem hér verður ákveðið hvort sem þeir starfa innan heilbrigðisþjónustunnar, í skólakerfinu eða við aðra þjónustustarfsemi á vegum hins opinbera. Smáar stofnanir og stórar horfa til þess sem hér gerist.

Stundum geta litlar upphæðir í fjárlagaafgreiðslunni skipt miklu máli fyrir stofnanir og þjóðfélagshópa. Þannig hefur núna farið fram umræða um stöðu fatlaðra í tengslum við fjárlagafrv. Landssamtökin Þroskahjálp efndu til borgarafundar fyrir fáeinum dögum og ræddu þar um vanefndir ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim hópi, bentu á að í Reykjavík og á Reykjanesi séu á biðlistum fatlaðra eftir húsnæði yfir 200 manns --- hefði fjölgað frá því í fyrra um 25 --- og minntu á loforð og fyrirheit sem voru gefin fyrir fáeinum árum. Ég man vel eftir þeim fyrirheitum. Þetta var eitt af átakamálunum í síðustu kosningabaráttu, vorið 1999. Reyndar er rangt hjá mér að vísa til þess sem átakamáls því að fyrirheitin voru víðast hvar fögur, og ekki síst hjá ríkisstjórnarflokkunum. Þeir höfðu þá setið saman að völdunum frá miðjum 10. áratugnum og lofuðu þarna bót og betrun gagnvart þessum hópi sérstaklega. Sett var á fót svokölluð biðlistanefnd 1998, hún skilaði áliti einmitt rétt fyrir kosningarnar 1999 og þá var því lofað að biðlistunum yrði útrýmt fyrir árið 2006. Samkvæmt þeirri áætlun sem þá var uppi átti á þessu ári að verja 139 millj. kr. til að útrýma þeim listum. Sú upphæð væri að sjálfsögðu miklu hærri ef hún væri færð upp samkvæmt verðlagi. Væri hún færð upp samkvæmt vísitölu launa munaði þarna miklum fjárhæðum.

Það er ekki staðið við þessi loforð og líður fram á árið 2000 og aftur er skipuð biðlistanefnd. Hún ætlar enn að útrýma biðlistunum og heitir því að verja 81,2 millj. kr. til verkefnisins á þessu ári. Síðan kemur til sögunnar kostnaðarnefnd vegna flutnings til sveitarfélaganna. Hún tekur einnig á þessum málum og telur að verja þurfi 173 millj. kr. til að útrýma biðlistum, þ.e. telur að þess þurfi á þessu ári.

Síðan kemur frv. til fjárlaga árið 2002. Hvað skyldi standa í því frv.? Það eru 23 millj. kr. Eftir baráttufund Landssamtakanna Þroskahjálpar tvöfaldaðist upphæðin. Engu að síður er um alls ófullnægjandi fjárframlag að ræða til þessa verkefnis og að sjálfsögðu ekki í nokkru samræmi við það sem áður hafði verið lofað. Þetta nefni ég sem tiltölulega smáa upphæð þegar við höfum hliðsjón af fjárlögunum í heild en upphæð sem skiptir mjög miklu máli fyrir þá sem í hlut eiga. Við höfum fengið að kynnast því í umfjöllun fjölmiðla á undanförnum dögum hverju það skiptir fyrir fólk sem er á þessum biðlistum. Alþingismenn hafa fengið bréf frá fólki sem þarna á í hlut. Við höfum líka fengið bréf frá fólki sem hvetur Alþingi til að veita ríflegar til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Hún hefur verið fjársvelt á undanförnum árum. Um það deilir held ég ekki nokkur maður enda var ákveðið í fjáraukalögum að veita 18,3 millj. kr. til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. En svo bregður við að í greinargerð með því fjárframlagi er sérstaklega vísað yfir í fjárlögin og afgreiðslu fjárlaga því að hér segir, með leyfi forseta:

,,Framlagið er háð því skilyrði að ekki komi til nýrra fjárveitinga til stofnunarinnar frá því sem lagt er til í frv. þessu og fjárlagafrv. ársins 2002. Enn fremur er það skilyrði sett að stjórnendur stofnunarinnar geri nauðsynlegar ráðstafanir til að halda rekstri stofnunarinnar innan fjárheimilda.``

Nú er ég ekki að mæla gegn því að stofnunum sé haldið innan fjárheimilda. Að sjálfsögðu ber að leitast við að gera það. En þá þurfa fjárheimildir að sjálfsögðu einnig að vera í einhverju samræmi við þau verkefni sem við ætlumst til að þessar stofnanir sinni. Til marks um það að þessari tilteknu stofnun sé ekki nægilega ríflega skammtað eru bréf og erindi sem okkur hafa borist frá foreldrum barna sem þurfa á aðstoð Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar að halda.

[22:30]

Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., gerir þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að umræðuefni í minnihlutaáliti sínu og hefur hann reyndar gert það á undanförnum árum einnig að taka vinnubrögðin við fjárlagagerðina til athugunar. Hann víkur sérstaklega að skólakerfinu. Samhengi er á milli þess annars vegar og þess sem ég nefndi varðandi Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Hann bendir á að bæði Skólameistarafélag Íslands og Félag framhaldsskóla hafi þráfaldlega bent á að grundvallarskekkjur séu í þeirri reiknireglu sem nú sé beitt við skiptingu fjár til skólanna og birtist í því að fjármagn sé skert til skóla með verknáms- og starfsnámsbrautir og skóla sem reka heimavistir og að þeir sitji nú uppi með skuldir svo skiptir tugum eða jafnvel hundruðum millj. kr.

Mér finnst að þessi ummæli og athugasemdir eigi að vera okkur öllum til umhugsunar. Þegar gerðar eru kröfur til ríkisstofnana um að þær haldi sig innan þeirra fjárveitinga sem þeim eru skammtaðar þá þarf það að sjálfsögðu að vera gert af einhverju viti og í samræmi við þarfir og samræmi við þær kröfur sem til þessara stofnana eru gerðar.

Ég sagði áðan að litlar upphæðir, tiltölulega litlar upphæðir, gætu skipt smáar stofnanir og hópa miklu máli. Vísaði ég t.d. í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem á fjáraukalögum fékk 18,3 milljónir, sem bjargar eitthvað fjárhagnum, en er engan veginn nóg. Það er mat þeirra sem best þekkja til. En hvað er lítil upp hæð og hvað eru fáar krónur? Auðvitað eru 18,3 millj. kr. heilmiklir peningar. En þeir eru alla vega ekki eins margar krónur og 300 millj. sem ríkisstjórnin ætlar að verja til að standa straum af kostnaði við einkavæðingaráform sín. Og þetta er mjög smá upp hæð með hliðsjón af NATO-fundinum sem á að halda hér næsta vor. Þar á ekki að setja neinn af.

Ég spyr: Þegar þeir verða farnir að sprengja þennan ramma, veislustjórar NATO, hvernig verður komið fram við þá? Verða þeim send skilaboð á sama hátt og menn leyfa sér að senda til forstöðumanna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sem rækja sitt hlutverk og sinna skyldum sínum af trúmennsku? Þetta finnst mér ástæða til að gera að umræðuefni.

Herra forseti. Mig langar undir lokin til að víkja að upplýsingum sem fram voru reiddar í dag á vettvangi BSRB og lúta að hitamáli, deilumáli miklu á Íslandi í rúman áratug.

Í rúman áratug hefur því verið harðlega mótmælt af hálfu almannasamtaka, sjúklinga og almennings, í greinarskrifum, ályktunum, á fjöldafundum, þegar kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni er aukin. Það verður gert með því að hækka komugjöld, taka greiðslur fyrir aðhlynningu og margvísleg viðvik á heilbrigðisstofnunum og síðan hefur lyfjakostnaður verið stóraukinn.

Þessu hefur iðulega við andæft og mótmælt. Reyndar hefur þessi umræða tekið ýmsum breytingum. Fyrir miðjan tíunda áratuginn var talið að þetta væri til þess fallið að bjarga heilbrigðiskerfinu. Við þyrftum að efla kostnaðarvitund með sjúklingum þannig að þeir neituðu að taka hin dýru lyf o.s.frv. Menn á þeim tíma gáfust upp við það verkefni sem þeir hefðu átt að reyna að sinna, þ.e. að skapa þá eðlilega kostnaðarvitund með læknum og ábyrgðarkennd með læknum sem ég efast ekkert um að sé í þeirri stétt í ríkum mæli. En auðvitað eru það þeir sem eiga að hafa vit á því að fara vel með peninga almennings og að sjálfsögðu heilsu sjúklinga sinna þegar kemur að lyfjunum. Þetta var mjög ógeðfelld umræða sem fram fór hér fyrir miðjan síðasta áratug þegar starfsfólk á heilsugæslustöðvum víðs vegar um landið var tekið á námskeið til að læra á alls konar reikni- og sjóðsvélar og miklir fyrirlestrar voru haldnir um þetta efni á spítalagöngum landsins.

Síðan birtist í sumar yfirlýsing eða greinargerð eða töflurit sem ég held að hafi bara verið merkt OECD, eða hvort það var Hagstofa Íslands sem birti það, sennilega mun það nú vera, þar sem fram kemur að kostnaðarþátttaka sjúklinga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu yrði að öllum líkindum lægri á árinu 2001 en á árinu 2000 og lægri en hún var á árunum 1997, 1998 og 1999 einnig, svo skeikaði einhverjum brotum úr prósenti.

Einhverjir urðu til að stökkva hæð sína í loft upp og segja: ,,Þarna sjáiði. Þetta er allt út í hött. Það standast ekki þessar ásakanir um að kostnaðarhlutdeild sjúklinga sé að aukast.``

Reyndar er það svo að hún hefur ekki aukist mjög mikið hlutfallslega á allra síðustu árum. Mest virðist aukningin hafa verið rétt fyrir miðjan síðasta áratug og á því bili. Engu að síður hefur hún verið aukin. Hún hefur verið aukin á undangengnum árum og því miður eru enn að berast fréttir af því að aukin gjöld eru tekin af sjúklingum, lyfjakostnaður þyngist og síðan koma þessar undarlegu fréttir um að nú eigi að fara að leggja auknar álögur á sjúkrahótelin eða þá sem þau gista. Reyndar sagði hæstv. heilbrrh. í fréttum að þetta hefði viðgengist, að einfaldlega hefði vantað lagastoð undir þessa gjaldtöku. En ég spyr á móti: Eigum við ekki að hverfa frá þessari gjaldtöku? Er ekki eðlilegt að hverfa frá henni? Ég tel svo vera. Og þegar síðan þessar upplýsingar bætast ofan á þá held ég að ástæða sé til að taka stefnu í þessum málum til gagngerrar endurskoðunar.

Þetta voru sem sagt upplýsingarnar sem fram komu, að sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þá væri kostnaðarþátttaka sjúklinga á niðurleið.

Því var ákveðið á vettvangi samtaka launafólks að gera á þessu könnun og fylgja nokkrum sjúkdómstilfellum, eins og það er kallað, sjö sjúklingum í gegnum lyfjameðferð og komu á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús eftir atvikum í eitt ár. Þetta skyldi gert á árinu 1991, á árinu 1996 og á árinu 2001. Og þá koma aldeilis skuggalegar upplýsingar í ljós.

Þannig er að einstaklingur með lungnaþembu og ýmsa skylda sjúkdóma greiddi á árinu 1990 samkvæmt verðlagi ársins í ár --- samkvæmt verðlagi ársins í ár því krónurnar voru að sjálfsögðu miklu færri, en þær voru færðar upp til verðlags ársins í ár --- árið 1990 greiddi þessi einstaklingur fyrir lyfjagjöf og fyrir læknisþjónustu sem hann þurfti á að halda 7.632 kr. Á árinu 2001 greiðir hann 69.702. Þetta er frá tæpum 8 þús. kr. í tæp 70 þús. Þetta er sprengingin sem þarna hefur orðið.

Einstaklingur sem þjáist af þunglyndi og ýmsum öðrum kvillum --- við erum að tala um fólk sem býr við heilsuleysi --- greiddi árið 1990 23.697 kr. samkvæmt verðlagi ársins í dag. Það var 1990. Nú er þessi upphæð komin í 72.000. En til áréttingar á því sem ég sagði áðan, að mikið af þessum aukna tilkostnaði var kominn til um miðjan áratuginn, má nefna að upphæðin var komin í 71.248 árið 1996. Þó er ekki einhlítt að þróunin sé þessi.

Gigtarsjúklingur sem þarf á margvíslegri meðferð að halda greiddi 1990 tæpar 30 þús., tæpar 50 þús. árið 2001. Hér erum við að tala um sama verðlag. Við erum að tala um jafnverðgildar krónur því þær hafa verið færðar upp til verðlagsins í dag.

Þetta finnst mér vera óhugnanlegar staðreyndir. Þær koma mér ekki á óvart vegna þess að um þetta hefur pólitísk umræða snúist að verulegu marki á undanförnum árum.

En það er annað sem er merkilegt við þessar upplýsingar sem hér eru reiddar fram, þ.e. hve lyfjakostnaður er mismunandi. Menn fóru út á þá braut fyrir fáeinum árum að markaðsvæða lyfjadreifinguna. Hugmyndin var sú að með því að gera það mætti ná lyfjakostnaðinum niður, þ.e. að ná mætti lyfjakostnaðinum niður með samkeppni. Ýmsir höfðu um þetta efasemdir og margir voru hreinlega andstæðir þessu og bentu á að líklegt væri að þetta mundi koma niður á dreifðum byggðum. Þar væri líklegt að lyfjaverðið yrði hærra en á höfuðborgarsvæðinu og einnig mætti ætla að með því að samkeppnisvæða lyfjamarkaðinn kæmi upp sú tilhneiging í þjóðfélaginu að fá þjóðina til að borða meira af pillum og taka inn meira af lyfjum vegna þess að það væri orðinn atvinnuvegur að koma lyfjunum niður í okkur. Þetta voru sjónarmið sem á vissan hátt eru gild.

En þetta er í rauninni liðin tíð. Þetta hefur gerst. Það er búið að markaðsvæða þessa dreifingu á lyfjunum og þá er að gá hvernig hægt sé að nota markaðinn til þess að keyra lyfjaverðið niður.

Það er mjög athyglisvert í þessum upplýsingum sem hér koma fram og ég er að fjalla um, hve mikil munur er á verðlagningu milli einstakra apóteka og lyfjakeðja. Þannig er með eitt sjúkdómstilfellið sem hér er greint frá, þ.e. lungnaþembusjúkling með skylda sjúkdóma, að ef hann fengi lyf sín samkvæmt verðlagningu með lyfjaskírteinum þá kostuðu þau 78.000 kr. rúmar, en ef hann fengi þau í apóteki þar sem verðlagningin er lægst þá fengi hann þau á 53.270 kr. Þarna munar um 25.000 kr. En síðan er næsta apótek þar fyrir ofan með 61.348. Þarna munar um 9 þús. kr. á milli apótekanna. En síðan er landsbyggðarapótekið með 62.133 og í öðrum sjúkdómstilvikum sem greint er frá í skýrslunni er munurinn á milli apóteka á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðarinnar meiri. Það hefur því sannast að þessi samkeppnisvæðing hefur í raun og sann komið niður á landsbyggðinni að þessu leyti.

Ég kann engin svör við því hvernig eigi að bregðast við þessu. En eitt veit ég, það þarf að skoða þetta og bregðast við því. Að sjálfsögðu eigum við ekki að þola það að fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins búi við annan og lakari kost í þessum efnum. Út á það gengur öll þessi umræða um heilbrigðisþjónustuna og heilbrigðiskerfið, að tryggja öllum þegnum landsins jafnan aðgang að þessari þjónustu, að aðhlynningu og læknisþjónustu án tillits til efnahags. Því miður hefur hér verið fylgt stefnu undangenginn áratug sem hefur gengið þvert á þau markmið og það er kominn tími til að snúa af þeirri braut.