Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 15:19:16 (2917)

2001-12-11 15:19:16# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér var nokkuð skemmt á köflum undir ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Sérstaklega var mér skemmt þegar hann kastaði yfir sig þeim kufli sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, klæðist jafnan þegar hún kemur stundum í þennan stól til þess að segja þingmönnum til um hvernig þeir eigi að stunda málflutning sinn og störf.

Nú er það svo að ég geri engar athugasemdir við það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur að segja í þessum stól og ef hann hefur einhverjar aðfinnslur við mig eða aðra hv. þm. Samfylkingarinnar verður hann bara að eiga það við sjálfan sig. En mér fannst hann fullviðkvæmur þegar hann kom hérna áðan og kvartaði undan því að einhverjir menn hefðu verið að hafa af því áhyggjur að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefðu ekki stefnu í skattamálum og hann sagði um miðbik sinnar löngu ræðu sem hann lauk nokkrum sinnum að eftir ræðu sína ætti mönnum ekki að þurfa að vera mjög órótt í sinni út af þessu.

Herra forseti. Ég get upplýst formann VG um það að mér hefur aldrei verið neitt órótt í sinni út af skattastefnu VG, ekki vegna þess að mér hafi ekki verið hún ljós, ekki vegna þess að hún hafi ekki verið til. Það er vegna þess einfaldlega að ég hef engar áhyggjur af slíkum hlutum.

Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að í þessum sölum skiptast menn í tvennt, stjórn og stjórnarandstöðu. Við í stjórnarandstöðunni höfum reynt af fremst megni að spara okkur að kasta köpuryrðum hvert í annað og sameinast um vinna gegn fjanda þeim sem situr hér á ráðherrabekkjunum. Það er hlutverk okkar.

Ég kannast ekki við, herra forseti, að í þeirri mjög málefnalegu vinnu sem Samfylkingin hefur lagt í þessi mál hafi menn verið að leggja einhverja sérstaka lykkju á leið sína til að finna að við hv. þm. Ögmund Jónasson sem ég hef átt ákaflega gott samstarf við um þessi mál þótt það sé vík milli vina í einstökum málum í þessum tiltekna málapakka. Ég kannast ekki við að við höfum staðið hér og verið að skamma hv. þm. VG fyrir að þeir hafi ekki stefnu eða vonda stefnu. Við höfum staðið í umræðu um skattamál sem mér hefur fundist einstaklega skemmtileg og með málefnalegri umræðum sem ég hef tekið þátt í.