2001-12-11 16:56:16# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nefndin mun skoða flutningskostnað á breiðum grundvelli og þar verður ekkert undanskilið.

Svo vil ég segja að --- ég tel reyndar að forseti hefði átt að gera þessa athugasemd --- ég er einfaldlega ekki byggðamálaráðherra. Það er ekki til neitt sem heitir byggðamálaráðherra. Ég fer hins vegar með byggðamál. Og ekki er það vegna þess að mér leiðist hugtakið heldur vegna þess að rétt skal vera rétt.

Mér finnst að hv. þm. sé hér með óþarfa útúrsnúninga í sambandi við húshitunina vegna þess að þar hefur ágætlega verið staðið að málum. Ég get bætt því við að nú hefur nefnd sú sem hefur verið að störfum lagt það til að þeir aðilar sem hita upp með olíu og eiga ekki annarra kosta völ verði líka teknir inn í þessa útreikninga og þessar niðurgreiðslur. Í undirbúningi er lagafrv. sem ég mun leggja fram mjög fljótlega, strax eftir áramótin, sem skýtur lagastoðum undir þessar miklu greiðslur. Eins og þetta er í dag eru engin lög sem kveða á um niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar en samkvæmt ábendingum sem við höfum fengið þarf svo að vera og þess vegna erum við að færa þetta mál til betri vegar, eins og svo mörg önnur mál.