Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:12:28 (2985)

2001-12-11 19:12:28# 127. lþ. 49.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:12]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég tók fram í ræðu minni á eftir að semja um þetta mál milli sveitarfélaganna og ríkisins. Auðvitað er ég ekki ánægður með hækkun tryggingagjaldsins nema eitthvað komi í staðinn. Við höfum heilt ár til að ganga frá því máli því að þetta gengur ekki fram fyrr en árið 2003. Ég er því rólegur yfir málinu. Það hefur sýnt sig að sveitarfélögin, samtök þeirra og ríkisstjórnin geta náð saman um slík mál.

Ég hef ekki á móti því, eins og fram kom hér fyrr í dag, og gleðst yfir því að menn hafi náð saman í efnahagsmálum, ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins, að tryggingagjaldið muni lækka. En sé ætlunin að lækka skattana svona vel, bæði á einstaklinga --- ég vil benda hv. þm. á að það er ekki eingöngu á fyrirtæki heldur líka einstaklinga --- þá verður eitthvað að koma á móti þótt nettólækkun skattanna sé veruleg.

Varðandi tryggingagjaldið er ég rólegur og líka varðandi húsaleigubæturnar og breytingu rekstrarforms úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög. Ég held að það verði allt saman leyst milli ríkisstjórnar og sveitarfélaga.