Lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:22:16 (2993)

2001-12-11 19:22:16# 127. lþ. 49.2 fundur 150. mál: #A lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda# (EES-reglur) frv. 141/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál en í hv. efh.- og viðskn. tókst hin besta samstaða um það. Hér er enn eitt þarfamálið sem rekja má til aðildar okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hér er um að ræða upptöku okkar á tilskipun Evrópuþingsins sem leggur grunn að því að til verði úrræði til þess að stjórna háttsemi á markaði sem gæti skaðað hagsmuni neytenda. Hér er með öðrum orðum verið að lögfesta réttarúrræði sem geta stöðvað markaðsfærslur sem telja má ólögmætar eða viðskiptahætti sem eru í andstöðu við tilskipanir sem við höfum áður tekið upp og tengjast neytendavörn.

Margoft hefur komið fram í máli talsmanna Samfylkingarinnar að við teljum að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið íslensku samfélagi ákaflega þarfur, ekki bara vegna þess að hann hefur fært með sér margvísleg félagsleg réttindi sem íslenskt launafólk hefur notið góðs af heldur ekki síst vegna þess að íslenskir neytendur hafa í gegnum þann samning fengið í sínar hendur margvísleg vopn til þess að verja hagsmuni sína sem, eins og reynslan sýnir, eru ákaflega títt undir atlögum frá þeim sem stunda viðskipti á markaði. Hér, herra forseti, er enn verið að treysta stöðu íslenskra neytenda og við fögnum því og þess vegna skrifa fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. undir álit að þessu máli án fyrirvara, og við styðjum það.