Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:11:23 (3009)

2001-12-11 20:11:23# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:11]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst afar athyglisvert að hv. þm. treysti sér til að standa hér galvaskur og mótmæla bæði útreikningum Þjóðhagsstofnunar og Hagstofunnar á áhrifum af tilteknum aðgerðum á verðlagið. Mér finnst það ansi djarflegt.

Það er rétt að verðlagsáhrifin af aðgerðum þeim sem á að fara í gagnvart námsmönnum og hækkun á innritunar- og efnisgjöldum komu fram hærri hjá Þjóðhagsstofnun í gær en þau gera í dag. Þjóðhagsstofnun viðurkenndi það með því að fara yfir málið aftur með Hagstofunni og þá fóru verðlagsáhrifin niður í 0,14%. En á heildina litið, með öllum þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir, eru hækkunaráhrifin 0,35%.

Ég held að það hljóti að verða eldur á verðbólgubálið og þá sátt sem verið er að reyna að ná fram. Með fullri virðingu fyrir hv. þm. þá treysti ég Þjóðhagsstofnun betur, ekki síst þegar hún vinnur að því með Hagstofunni að finna hver verðlagsáhrifin af þessu eru.

Ég skil auðvitað vel að hv. þm. standi hér og reyni að verja aðgerðir ríkisstjórnarinnar og mótmæla þessum verðlagsáhrifum vegna þess að hv. þm. veit vel hvaða áhrif þetta getur haft í þeim viðræðum sem nú standa yfir við aðila vinnumarkaðarins, sem eru að reyna að ná einhverri lendingu um svipaða tölu að því er varðar verðbólgumálin og við erum að fjalla um að ráðstafanir í ríkisfjármálum og hækkanir í heilbrigðisþjónustunni færi út í verðlagið.

Þess vegna bið ég, herra forseti, menn að átta sig á því sem hér er á ferðinni svo þetta setji ekki allt í loft upp í þeim samningum sem eiga sér stað þessar klukkustundirnar.