Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 14:16:10 (3075)

2001-12-12 14:16:10# 127. lþ. 50.8 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. 1. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þarf víst enginn að efast um að byggðakvóti gerir gagn þar sem menn fá hann til sín. Þetta eru nú engir smápeningar sem í raun og veru er verið að rétta mönnum með slíkum byggðakvóta, 100 tonnin kannski á annað hundrað milljónir í virði. Eitthvað hlýtur að muna um það. Hægt er að kaupa til sín rekstur og umfang með slíka peninga í höndunum og það hafa menn auðvitað gert. Þetta er það sem hefur komið út úr þessu og auðvitað mátti við því búast að það mundi muna virkilega um það þar sem það yrði gert.

En hv. þm. hefur staðfest það mjög skýrt að efasemdir hans um byggðakvótann hafi ekki minnkað við það að hafa fylgst með og tekið þátt í að úthluta honum, þó hann vilji nú ekki kalla það að það hafi verið með því að deila og drottna, en Byggðastofnun ákvað hvernig ætti að reikna út hverjir ættu hann skilið og það var síðan gert. Þannig að höfundar reiknireglunnar hljóta nú að hafa einhverju ráðið um það hverjir fengu.