Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 22:59:08 (3127)

2001-12-12 22:59:08# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[22:59]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að útskýra aðeins þetta með auðlindagjaldið fyrir síðasta háttvirta ræðumanni. Mér finnst nú jafnan að hv. þm. sé afskaplega málefnalegur og skynugur þegar hann tekur til máls. Þess vegna held ég að þetta hafi verið útúrsnúningar hjá honum.

Það hefur verið svo að við jafnaðarmenn höfum viljað að menn greiddu fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind. Það er auðlindagjald. Það á við um sjó, fallvötn og annað sem við skilgreinum sem okkar sameiginlegu auðlindir, náttúrulegar auðlindir Íslands. Hvernig það er síðan gert er annað mál. Ein aðferðin er fyrningarleið, þ.e. að láta útvegsmenn sjálfa meta það hvað þeir eru tilbúnir að borga fyrir þennan aðgang. Við aðhyllumst þá aðferð að láta þá sjálfa meta það, bjóða í aflaheimildirnar og segja þannig hvað þeir eru tilbúnir til að borga. Þeir eru þrælvanir því, hafa gert það í mörg ár. Þeir hafa boðið í heimildir hver hjá öðrum og borgað.

Hins vegar ganga þær hugmyndir sem hér liggja fyrir af hálfu meiri hluta endurskoðunarnefndar, og Sjálfstfl. virðist aðhyllast, út á að stjórnmálamenn taki ákvörðun fyrir útvegsmenn um það hvað þeir eigi að borga.

Allt er þetta auðlindagjald. Spurningin er bara um hvaða aðferðum menn vilja beita. En það er komin niðurstaða í þetta mál hvað það varðar að það virðast allir orðnir sammála um að rétt sé að menn greiði fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind.