Tillögur byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:04:51 (3141)

2001-12-13 10:04:51# 127. lþ. 52.1 fundur 250. mál: #A tillögur byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hver séu viðbrögð ráðherra sveitarstjórnarmála við tillögum byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Viðbrögð mín eru yfirleitt góð. Mér finnst eðlilegt að Samband íslenskra sveitarfélaga taki þessi mál til umræðu og ef ég veit rétt, hyggst sambandið hafa þennan lið á dagskrá næsta fulltrúaráðsfundar sem haldinn verður í mars á komandi ári.

Þessar tillögur eru í allmörgum liðum. Ég ætla stuttlega að hlaupa á þessum liðum. Ein tillagan var um eitt ráðuneyti byggða- og sveitarstjórnarmála og skipulags- og byggingarmála eða að málefnin yrðu sameinuð í einu ráðuneyti. Ég held að það geti vel komið til greina og ég sæi það fyrir mér að það gæti farið ágætlega hjá félmrn. Mér líst hins vegar ekki á að stofna sérstakt ráðuneyti utan um þennan málaflokk.

Minnt er á að hagsmunir landsins alls eru fólgnir í samstarfi höfuðborgar og landsbyggðar. Þetta er eðlilegt og réttlátt sjónarmið.

Lagt er til að byggja upp tvö eða þrjú kjarnasvæði sem valkost við höfuðborgarsvæðið. Tvær hliðar eru á þessu máli og það er fyrst og fremst við þessa tillögu sem ég velti dálítið vöngum. Ég tek undir með nefndarmanninum Björgu Ágústsdóttur, sveitarstjóra í Eyrarsveit, þegar hún setur fyrirvara um þessa tillögu og segir að önnur svæði utan kjarnasvæða kunni að eiga undir högg að sækja með nauðsynlega opinbera þjónustu. Ég er líka sammála henni um að áhrifasvæði höfuðborgarinnar nær um 100 km út frá höfuðborginni.

Að sveitarfélögin verði stækkuð og efld. Það er gott markmið að efla sveitarfélögin og unnið hefur verið að því síðari ár og verkefni hafa verið flutt til sveitarfélaganna og tekjustofnar auknir. Það verður hins vegar að viðurkennast að verkefnin verða í mörgum tilfellum dýrari hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu vegna þess að kjarasamningar sveitarfélaganna eru rýmilegri en kjarasamningar ríkisins. Mikill árangur hefur náðst í þessari sameiningu á allra síðustu árum og þegar ég kom í ráðuneytið voru 170 sveitarfélög í landinu. Mér kæmi ekki á óvart þó að þau yrðu um 110 við næstu sveitarstjórnarkosningar þannig að það er töluverð fækkun ef sveitarfélögunum fækkar um allt að 60.

Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri hefur unnið á þessu ári að viðamikilli könnun á áhrifum sameiningar sveitarfélaga, bæði félagslega og efnahagslega. Niðurstöður úr þeirri könnun verða kynntar eftir áramótin og það verður forvitnilegt að fá heildarmat á árangri af sameiningunni. Það getur orðið okkur leiðarvísir í framtíðinni hvernig við eigum að standa að þessu. Ég hef verið eindreginn fylgismaður frjálsrar sameiningar. Ég útiloka ekki að eftir eitthvert árabil, t.d. átta ár eins og verið hefur í umtali manna hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, geti komið að því að menn ákveði að sameina með lögum. En ég hefði t.d. ekki haft trú á sameiningu í Þingeyjarsýslu sem nýlega voru greidd atkvæði um, þ.e. að lögþvinga þá sameiningu fram þegar svona mikil andstaða var í þetta mörgum sveitarfélögum sem hugmyndin var að sameina. Það hefði ekki orðið góður mórall í því sveitarfélagi til að byrja með.

Endurskoðun verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga og færri samstarfsverkefni. Það er unnið að því og áfangaskýrsla hefur verið lögð til mín um það efni.

Að allir íbúar landsins eigi greiðan aðgang að rafrænum samskiptum með nýjustu og bestu tækni og gjaldskrá óháð búsetu. Það er eðlileg og sjálfsögð krafa. Pósturinn fann upp frímerkið eða tók frímerkið í notkun árið 1871. Síminn er þetta langt á eftir.

Að flutningskerfi raforku verði gert einfalt og ódýrt og samkeppni í raforkusölu tryggð. Þetta er gott og blessað.

Að fjárveitingar til samgöngumála verði auknar. Ég er sammála því.

Að rekstur og lánastarfsemi opinberra sjóða verði sameinuð í einn deildaskiptan sjóð með fjármagni til ráðgjafar og hlutafjárþátttöku og marki ákveðna stefnu og uppbyggingu ákveðinna atvinnuþátta. Þetta má skoða.

Athuga má hvort beita megi sköttum til að hafa áhrif á byggðaþróun. Ég er sammála því að láta þá athugun fara fram. Það er hins vegar flókið verkefni.

Síðan er spurt hvort samstarf sé milli félagsmálaráðuneytis og sambandsins um mögulega framkvæmd tillagna byggðanefndarinnar. Að sjálfsögðu er það eðlilegur framgangsmáti.