Aðstoð við fatlaða vegna orlofsdvalar eða ferðalaga

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:24:13 (3147)

2001-12-13 10:24:13# 127. lþ. 52.2 fundur 256. mál: #A aðstoð við fatlaða vegna orlofsdvalar eða ferðalaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:24]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Tillögur starfshópsins um úrbætur í þessum efnum voru mjög skýrar. Ég veit dæmi um ungan dreng frá Vestfjörðum sem vildi ferðast og dvelja erlendis. Kostnaður hans vegna fylgdarmanns hefði orðið um 300 þús. kr., þ.e. ferðakostnaður og laun á þeim tíma sem hann þurfti fylgdarmann til að geta notið ferðalaga, ekki til jafns á við fullfríska jafnaldra sína heldur til að fara í fyrsta skipti til útlanda. Hann þráði það mjög en hafði ekki efni á því og engir möguleikar voru á því að fá styrk.

Í Noregi virðist ríkið bregðast dálítið öðruvísi við. Miðstöð fatlaðra er rekin í Ósló og annað hvert ár býðst fötluðum börnum, foreldrum þeirra og systkinum að dvelja þar í allt að tvær vikur á kostnað ríkisins. Þar er innifalin gisting og uppihald og ýmis þjónusta veitt, t.d. sálfræðiþjónusta. Þar fá foreldrar tækifæri til að hitta foreldra sem eiga börn með sömu eða svipaða fötlun og ræðast við. Þar er það talið sjálfsagt að liðka fyrir, bæði varðandi ferðakostnað og dvalarkostnað fatlaðra, þegar um langan veg er að fara.

Það er ekki lagaskylda, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að greiða fyrir aðstoð fylgdarmanns. En það er ekki aðeins í einni tillögu þessa starfshóps heldur í niðurstöðum flestra kafla talað um nauðsyn þess að fatlaðir fái fylgdarmann sem geri þeim auðveldara að ferðast og njóta orlofsdvalar. Mjög fá hús á vegum félagasamtaka eru byggð fyrir fatlaða. Þess vegna er mikil nauðsyn á því að ítarleg úttekt fari fram á þessum málum, ítarlegri en unnin var í þessari skýrslu þótt mikil vinna hafi verið lögð í hana, og fram komi tillögur til úrbóta.