Biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:35:33 (3151)

2001-12-13 10:35:33# 127. lþ. 52.3 fundur 300. mál: #A biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talar um að það séu milli 10 og 20 manns sem fá enga þjónustu. Hversu lengi hafa þeir beðið eftir þjónustu og hversu lengi telur hæstv. ráðherra að þeir þurfi að bíða þess að fá einhverja þjónustu? Það er auðvitað afleitt að til skuli vera þessi hópur sem er ekki með neina þjónustu.

Það kom fram á fundi í Ráðhúsinu með hagsmunasamtökum fatlaðra rétt fyrir fjárlagagerðina að fólk hefur beðið lengur en 10 ár, jafnvel 11 ár eftir úrræðum, og að yfir 200 manns séu að bíða eftir búsetu. Ég vildi gjarnan fá að heyra það frá hæstv. ráðherra í þessari umræðu hversu lengi þetta fólk eigi að bíða, hversu lengi það eigi að bíða lengur eftir þessum úrræðum og hvenær þetta fólk eigi von á því að fá þá þjónustu sem verið er að bíða eftir, þ.e. yfir 200 manns eftir búsetu og síðan þessi 10--20 sem fá enga þjónustu. Hve lengi hafa þeir beðið og hvenær munu þeir líklega fá þjónustu?