Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 16:47:01 (3228)

2001-12-13 16:47:01# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, KolH
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[16:47]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér hafa mörg þung orð verið látin falla hjá hv. stjórnarandstöðuþingmönnum sem hafa tekið til máls í þessari umræðu. Eitt af því sem vakin hefur verið athygli á eru náttúrlega aðstæðurnar sem við erum að vinna þessi mál við. Það er ekki vitund auðvelt að halda orku í þessari umræðu sem öll er fyrir fram ákveðin. Við vitum það öll eins vel og að við stöndum hér að fjárlög voru afgreidd frá Alþingi á laugardaginn var og það vita allir sem hér eru inni, auk þjóðarinnar sem hlustar á hv. alþingismenn, að þau mál sem hér eru til umfjöllunar eru auðvitað löngu ákveðin. Þau voru ákveðin í fjárlögunum.

Svo ég spyr, herra forseti: Til hvers stöndum við hér og hellum úr skálum reiði okkar yfir hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, vitandi að til einskis af því sem við leggjum hér til málanna verður hægt að taka tillit? Það verður ekkert gert með það.

Samt bíta hv. þm. í skjaldarrendurnar og eitt af þeim málum sem ekki hefur verið fjallað um í neinum smáatriðum í umræðunni núna er niðurskurðurinn á Endurbótasjóði menningarstofnana. Í 1. gr. þessa frv., herra forseti, er kveðið á um að enn skuli ráðast á þann sjóð sem hefur fastan tekjustofn samkvæmt lögum og í greinargerð með þessu frv., þessum bandormi sem hér er til umræðu, segir að á árinu 2002 sé gert ráð fyrir að tekjur af sérstökum eignarskatti, sem er tekjustofn sjóðsins, verði 713,4 millj. kr., en samkvæmt frv. er lagt til að af þessum tekjum renni 378 millj. kr. í ríkissjóð. Af tæpum 715 millj. kr. eru þannig eftir 335 millj. kr. sem hæstv. ríkisstjórn heimilar að renni í Endurbótasjóð menningarstofnana. Annað fer í almennan rekstur á ríkissjóði.

Og hvar kemur þessi niðurskurður niður? Ef við skoðum það, herra forseti, er það ljóst í brtt. meiri hluta fjárln. sem lagðar voru fram á þskj. 476 við 2. umr. fjárlaga. Það á að skera 15 millj. frá því sem áætlað hafði verið í fjárlagafrv. af endurbyggingu Þjóðminjasafnsins. Það á að skera 20 millj. frá því sem áætlað hafði verið í fjárlagafrv. af Þjóðleikhúsinu, þ.e. af því fé sem Þjóðleikhúsið hefur haft til endurbóta og leikhúsið gerði ráð fyrir á næsta ári. Og það á að skera 5 millj. af framkvæmdastyrkjum til byggðasafna og það á að skera niður 15 millj. kr. til húsasafns Þjóðminjasafns Íslands.

Samkvæmt fjárlögum voru Þjóðminjasafninu áætlaðar 65 millj. til húsasafnsins sem er sama upphæð og safnið hafði til umráða á yfirstandandi ári. Þar var naumt skorinn stakkur og mörgum verkefnum hefur orðið að hafna en Þjóðminjasafnið hefur samt sem áður búið við þennan þrönga kost. Nú á að þrengja hann enn frekar eða um 15 millj. sem þýðir að safnið hefur einungis til umráða á næsta ári 50 millj. kr. Og gera menn sér grein fyrir, herra forseti, af hverju þetta fé verður tekið, hvaða menningarstofnanir við erum að fjalla um hérna? Við erum að tala um dýrmætustu menningarbyggingar þjóðarinnar. Við erum að tala um torfbæi þessa lands og má þar nefna torfbæinn í Glaumbæ eða á Grenjaðarstað eða í Laufási. Og sannleikurinn er sá að allir þessir torfbæir eru inni á verkáætlun Þjóðminjasafns fyrir næsta ár, hver um sig með 8 millj. kr. í endurbótafé. Sú staðreynd að 15 millj. skuli nú skornar af fénu sem húsasafnið hefur þýðir að einn af þessum þremur bæjum fær ekkert fé á næsta ári til að gera við torfhleðslur eða steinhleðslur. Þar af leiðir að þeir torfhleðslu- og steinhleðslumenn sem búa í námunda við þá bæi og hafa haft með höndum viðhald á þeim hafa ekkert að gera. Þessir menn eru verkefnalausir á næsta ári.

Og hvar er nú tal hæstv. ríkisstjórnar um menningartengda ferðaþjónustu? Hvar eru loforðin á þeim vettvangi? Og hvar eru efndirnar á loforðunum sem sveitarfélögunum hafa verið gefin varðandi það að nú skuli sem aldrei fyrr efla menningartengda ferðaþjónustu? Gera menn sér grein fyrir samhengi hlutanna hérna? Gera menn sér grein fyrir því að menningartengd ferðaþjónusta fer fram í þeim húsum sem hér er verið að skera niður fjármagn til viðhalds á? Herra forseti. Oft óttast maður að glámskyggni ráðamanna sé svo mikil að í raun og veru viti hægri höndin ekki hvað sú vinstri gjörir og öfugt.

Ég ætla að vitna hér í örfáum orðum, herra forseti, til fréttatilkynningar sem send var út frá menntmrn. í dag en sú fréttatilkynning lýtur að menningarverðmætum og verndun þeirra á heimsvísu. Sveinn Einarsson veitir sérstakar upplýsingar um þetta mál sem tengist UNESCO en eins og vitað er hefur hann nýverið tekið sæti í framkvæmdastjórn UNESCO. Fréttatilkynning þessi frá UNESCO segir frá því að árið 2002, sem er næsta ár, verði helgað varðveislu menningarminja. Þetta er árið sem ríkisstjórnin sker niður framlag til endurbyggingar Þjóðminjasafnsins, árið sem ríkisstjórnin sker niður framlag til endurbóta á okkar dýrmætustu húsum sem húsasafn Þjóðminjasafnsins hefur að geyma, árið sem Þjóðminjasafnið verður að þola það að ný stofnun, Fornleifavernd ríkisins, er stofnuð með því að skera hana innan úr Þjóðminjasafninu --- ég ætla að vitna beint í þessa fréttatilkynningu en í henni segir, með leyfi forseta:

,,Eins og kunnugt er hafa Sameinuðu þjóðirnar falið UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, að sinna menningar-, mennta-, vísinda- og fjölmiðlamálum og er verndun og viðgangur menningararfleifðar heimsins eitt af flaggskipum UNESCO og hugsanlega það starf sem stöðugt hlýtur hvað mesta eftirtekt, eins og til dæmis heimsminjalistinn. Að undanförnu hefur verið lögð æ ríkari áhersla á þann þátt menningararfleifðar sem erfiðara hefur reynst að festa hendur á, erfðir sem felast í munnlegri frásagnarhefð, þjóðsiðum, dansi o.s.frv. og er í undirbúningi sáttmáli til verndar menningarerfð af því tagi.``

Með þeirri tilkynningu sem hér er vitnað í er ljóst að áherslur Sameinuðu þjóðanna og UNESCO í þessum málum eru alveg skýrar. Og þær stangast í öllum aðalatriðum á við og eru hreinlega í hróplegu ósamræmi við stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Það er ekki seinna vænna fyrir ráðamenn þessarar ríkisstjórnar og þá hæstv. menntmrh. að skýra fyrir þjóðinni hvar þessi niðurskurður eigi að koma niður. Hvort á að skera niður viðhald á Grenjaðarstað eða Laufási? Eða á kannski að taka Glaumbæ? Það eru engin rök sem fylgja, herra forseti.

Varðandi Þjóðleikhúsið er alveg ljóst að menn eru í lífshættu með því að ganga fram hjá því enda er ytra byrði þess, sem er orðið hálfrar aldar gamalt, að hrynja. Stór múrbrot hafa fallið úr klæðningu Þjóðleikhússins, sérstaklega eftir miklar snjókomur eins og nú hafa gengið yfir, þannig að þessa dagana er lífshættulegt að ganga undir veggjum musteris íslenskrar tungu. Það liggur fyrir að byggingarnefnd hefur forgangsraðað verkefnum varðandi endurbyggingu Þjóðleikhússins og við vitum svo sem í hvaða hremmingum Þjóðleikhúsið hefur lent varðandi endurbyggingarmál og endurbótamál sín. En það breytir ekki því að fást verður fjármagn til viðhalds ytra byrðis leikhússins. Með því að skera niður Endurbótasjóð menningarstofnana minnkar framlagið til Þjóðleikhússins, sem þó var gert ráð fyrir að það hefði á næsta ári, úr 30 millj. í 10 millj., og það gerir enginn við ytra byrði Þjóðleikhússins fyrir 10 millj.

Herra forseti. Hér hafa mörg orð fallið um ábyrgð ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Það hefur verið málflutningur stjórnarandstöðuþingmanna að ríkisstjórnin hafi ekki komið fram með viðhlítandi rök til að menn geti sætt sig við þennan niðurskurð eða sætt sig við að hér skuli borið niður en ekki annars staðar. Ekki eru þeir til dæmis látnir bera byrðarnar sem hafa haft efni á að borga einhvern hátekjuskatt sem hefur þó ekki verið meiri en svo að menn virðast ekki hafa blásið úr nös við að greiða hann. Nei, það er menningararfurinn okkar, sjúklingarnir okkar, lífeyrisþegar, eldra fólk og námsmenn sem bera skulu byrðarnar. Að sjálfsögðu er þessi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar henni ekki til sóma.

Þau orð sem hér hafa fallið um hækkun á skólagjöldum og skráningargjöldum í háskólana og efnisgjöldum í framhaldsskólana eru öll afar þung, og þungur áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Ekki heldur varðandi þau höfum við fengið nein rök. Og ekki hafa ráðamenn svarað því hvers vegna þeir leyfa sér að rökstyðja hækkun skráningargjaldanna í háskólann núna til samræmis við verðlagshækkanir þegar það liggur fyrir að það er rökleysa. Verðlagshækkanir á skráningargjöldum Háskóla Íslands voru leiðréttar árið 1999. Og ætli menn að leiðrétta eitthvað nú með því að rökstyðja það með verðlagshækkunum almennt á að reikna þær verðlagshækkanir frá árinu 1999 en ekki frá árinu 1991 eins og gert er í þessu frv.

Stúdentar hafa að sjálfsögðu mótmælt þessu hástöfum og það hefur minni hluti menntmn. líka gert. Við höfum ekki fengið þá rökræðu við ráðamenn sem við höfum þurft varðandi þetta. Við höfum heldur ekki fengið þá rökræðu við ráðamenn sem halda því fram að borga þurfi aukinn pappírskostnað vegna innritunar og skráningar. Hverju svara ráðmenn þá Nemendasambandi Kennaraháskóla Íslands þar sem 52% nema eru í fjarnámi og það fer aldrei snefill af pappír á milli þessara nema og skólans þar sem öll samskipti nemanna og skólans fara fram í gegnum tölvur og allt sem prentað er út er á kostnað nemanna sjálfra sem nota sinn eigin pappír í sínum eigin prentara heima hjá sér?

Við fáum ekki rökræðuna við ráðamenn um þessi mál. En það er alveg ljóst að hér er verið að seilast í þá vasa sem síst skyldi. Dýpstu vasarnir eru ekki hjá námsmönnunum, sjúklingunum eða eldri borgurunum. Þeir eru annars staðar, herra forseti, og ríkisstjórnin er að seilast í ranga vasa og leggjast á röng bök í þeim ákvörðunum sem hér er verið að taka. Og það er ekki ásættanlegt, herra forseti, að við skulum ekki fá ráðamenn til þess að taka meiri þátt í þessum umræðum og standa hér betur fyrir máli sínu en raun ber vitni, og að við skulum þurfa að standa hér vitandi það að þessu verður öllu skóflað niður í kokið á okkur á morgun er ekki fyllilega boðlegt. Mér finnst, herra forseti, að Alþingi Íslendinga eigi að starfa af meiri reisn en hér er gert.