Náttúruvernd

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 11:03:29 (3316)

2001-12-14 11:03:29# 127. lþ. 55.8 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv. 140/2001, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð styður öflugan samráðsvettvang á sviði umhverfis- og náttúruverndar. Þótt við séum ósammála því að nauðsynlegt hafi verið að leggja Náttúruverndarráð niður föllumst við á þau rök að öflugt umhverfisþing sem undirbúið verði í formlega skilgreindu samráði umhvrn., frjálsra félagasamtaka og fagfólks á sviði umhverfis- og náttúruverndar og náttúruvísinda geti komið í stað þess náttúruverndarþings sem lög þau sem hér eru til afgreiðslu gerðu áður ráð fyrir.

Í trausti þess að umhverfisþing verði slíkur vettvangur greiðum við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, málinu atkvæði okkar.