Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:17:17 (3373)

2001-12-14 15:17:17# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur eðlilega áhyggjur af þeim einstaklingum sem búa í þessum sveitarfélögum. Hann hefur ekki eingöngu áhyggjur af sveitarsjóðunum sjálfum. Það mætti þá kannski spyrja á sama hátt: Hvað með þá einstaklinga sem búa í Reykhólasveitinni eða Vesturbyggð, hvers eiga þeir að gjalda? Eiga þeir ekki rétt á sömu afskriftum? Er hv. þm. að leggja það til?

Hv. þm. rataðist hér satt orð á munn. Hann rifjaði upp sveitarstjórnarmál á tímabili sem hann ætti að þekkja vel, ég held hann hafi verið sveitarstjóri, annaðhvort í Ólafsvík eða á Suðureyri, á uppbyggingarárum 1988--1991, þegar fólk bjó úti á landi. Þá vildi fólk búa úti á landi og vildi jafnvel flytja út á land. (Gripið fram í: Svo er enn þá.) En þar hefur heldur betur orðið breyting á. Ég heyri að þetta kemur illa við suma. Staðreyndin er sú að tölurnar ljúga ekki, hv. þm. Það er því miður þannig að fólk kemur í auknum mæli á suðvesturhornið. Það er ein meginástæða þess vanda sem við okkur blasir varðandi félagslega íbúðakerfið. Það vantar fólk til að búa í þessum húsum. Það verður að horfast í augu við þann veruleika.

Eftir tíu ára samfellda stjórn Sjálfstfl. í byggðamálum er þetta niðurstaðan. Framsóknarmenn hafa nú hjálpað til heldur betur, eða hitt þó heldur, síðustu fimm árin. Það er því alveg hárrétt lýsing sem hér kom fram hjá stjórnarliðanum, hv. þm. Kristjáni Pálssyni. Menn voru í sóknarhug á þessum árum og ætluðust til að Ísland allt yrði í byggð, ekki eingöngu suðvesturhornið. Þess vegna var farið í þessa uppbyggingu. Þau sveitarfélög sem voru þá í framsókn, þ.e. raunverulegri framsókn, trúðu því og treystu að þar væri framtíð að finna og reistu því hús yfir fólk sitt. Nú er þetta fólk ekki til staðar lengur. Af því stafar þessi vandi.

Það er auðvitað allt of stór spurning, að kalla eftir því hjá mér að ég leggi fram heildarlausnir og reki í stuttum andsvörum. En ég hefði svo sannarlega kosið að málið sem hér um ræðir hefði fengið lengri tíma og næði á þinginu svo að menn hefðu getað farið í gegnum það en ekki keyrt þetta stóra mál í gegn á hálfum mánuði.