Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 205  —  194. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

Flm.: Hjálmar Árnason, Pétur H. Blöndal,


Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jónína Bjartmarz.


1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 2. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      Við bætist nýr málsliður, sem verður 1. málsl., svohljóðandi: Sá sem skyldaður er til aðildar að lífeyrissjóði til öflunar lífeyrisréttinda í sameign samkvæmt lögum þessum skal eiga þess kost að velja sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa .
     b.      Orðin „aðild að lífeyrissjóði“ falla brott úr 1. málsl. sem verður 2. málsl.
     c.      2. málsl. fellur brott.
     d.      Við bætist nýr málsliður, sem verður 4. málsl., svohljóðandi: Þeim sem hættir eru skylduaðild að lífeyrissjóði er heimilt að flytja uppsöfnuð sameignarlífeyrisréttindi sín úr þeim sjóði til lífeyrissjóðs sem þeir kjósa sér. Flytja skal réttindin innan fimm ára frá því að beiðni berst þar um.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerð verði sú breyting á lögum um lífeyrissjóði að hverjum þeim sem skylt er að eiga aðild að lífeyrissjóði sé frjálst að velja sér sjóð til að greiða í enda standist sjóðurinn allar almennar kröfur og skilyrði um rekstur lífeyrissjóða. Jafnframt er gert ráð fyrir því að einstaklingar geti flutt lífeyriseign sína á milli sjóða en þó skuli líða að hámarki fimm ár frá því að tilkynnt er um flutninginn þar til hann getur átt sér stað.
    Lögð er áhersla á að ekki er gert ráð fyrir því að hróflað verði við skylduaðild að lífeyrissjóði. Hins vegar er gert ráð fyrir möguleikum greiðenda til að velja sér lífeyrissjóð til að greiða í.
    Í dag má segja að skylduaðild að lífeyrissjóðum sé starfsgreina- og svæðisbundin. Einstaklingur er þannig knúinn til að greiða í lífeyrissjóð sem tengdur er búsetu og starfsgrein hans. Skiptir þar litlu hvernig viðkomandi sjóður er rekinn eða ávaxtar eigur sínar. Mikill munur er á hvernig einstökum sjóðum hefur lánast að ávaxta eigið fé sitt. Samkvæmt yfirliti frá Fjármálaeftirlitinu spannar ávöxtun einstakra lífeyrissjóða á árinu 1999 frá því að vera neikvæð upp í 22% ávöxtun. Þá er rekstrarkostnaður einstakra sjóða afar mismunandi. Í þessu má segja að felist nokkurt óréttlæti gagnvart sjóðfélögum sem í raun eru dæmdir til að bindast einum tilteknum sjóði – óháð því hvernig sá sjóður er í stakk búinn til að tryggja hagsmuni lífeyrisgreiðandans. Með frumvarpinu er hugsunin sú að einstakir greiðendur geti valið sjálfir hvaða lífeyrissjóði þeir treysti best fyrir lífeyrisréttindum sínum og framtíðarhagsmunum. Með því móti má ætla að einstakir sjóðir leggi sig enn frekar fram um að gæta aðhalds í rekstri og freisti þess að ná sem bestri ávöxtun á sjóði sína. Hvort tveggja ætti að vera greiðandanum í hag.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að kjósi einstaklingur að flytja lífeyrisgreiðslur sínar milli sjóða skuli honum heimilt að flytja með sér eigur sínar úr einum sjóði í annan. Þó er gert ráð fyrir því að líða skuli allt að fimm ár frá því að einstaklingur tilkynnir um flutning sinn þar til hann getur látið flytja inneign sína á milli sjóða. Er gert ráð fyrir slíkri aðlögun til að einstakir sjóðir geti gert ráðstafanir varðandi ávöxtunarleiðir sínar.
    Þrátt fyrir ákvæði um að óheimilt sé að neita manni um aðild að lífeyrissjóði á grundvelli heilsufars, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns er við því að búast að sjóðir sem standa vel verði „vinsælli“ í þeim skilningi að fólk mun ekki fara frá þeim. Þetta eru aðallega lífeyrissjóðir sem í er mikið af ungu fólki. Sá galli er á núverandi uppbyggingu flestra lífeyrissjóða að ungt fólk fær sama rétt fyrir hverja krónu og þeir sem eldri eru, en ætti með réttu að fá tvöfalt eða þrefalt meiri rétt. Þannig standa lífeyrissjóðir með hlutfallslega margt ungt fólk fjárhagslega vel án tillits til ávöxtunar og lífeyrissjóðir sem í er eldra fólk standa að sama skapi fjárhagslega illa. Þeir sem geta munu flytja sig frá sjóðum sem eru „gamlir“ í þessum skilningi. Valfrelsið, sem hér er lagt til, mun flýta þeirri þróun, sem þegar er hafin, að lífeyrissjóðir veiti réttindi háð kyni, aldri og jafnvel fjölskyldustöðu.