Ferill 282. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 340  —  282. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Orðið „fólks-“ í 1. tölul. 2. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir 1. tölul. 2. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Fyrir almennt rekstrarleyfi til að stunda fólksflutninga skal greiða 10.000 kr. árlegt gjald. Enn fremur skal árlega greiða 1.000 kr. vegna hverrar bifreiðar og skal það gjald greitt þegar bifreið er færð til árlegrar skoðunar.
     c.      4. tölul. 2. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á síðastliðnu vorþingi voru samþykkt lög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, nr. 73/2001. 13. gr. laganna fjallar um gjaldtökuheimild Vegagerðarinnar sem ætlað er að standa straum af kostnaði sem hlýst af námskeiðahaldi, útgáfu leyfa og eftirliti samkvæmt lögunum. Upphæð gjaldsins tekur mið af þeim kostnaði sem hlýst af veittri þjónustu Vegagerðarinnar. Um er að ræða hækkun á gjöldum til samræmis við raunkostnað.
    Vegna misritunar í 1. tölul. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 73/2001 fellur gjaldtaka vegna almennra rekstrarleyfa fyrir fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga undir sama töluliðinn. Upphaflega ætlunin var sú að 1. tölul. tæki til vöru- og efnisflutninga en sértöluliður tæki á almennum rekstrarleyfum fyrir fólksflutninga.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að ákvæði um almennt rekstrarleyfi til fólksflutninga verði í 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. og að 3. tölul. fjalli þá um sérútbúnar bifreiðar og 4. tölul. um sérleyfi og einkaleyfi. Lagt er til að gjaldið fyrir almennt rekstrarleyfi fyrir fólksflutninga verði 10.000 kr. Gjaldið var samkvæmt eldri lögum og reglum 7.000 kr. en með vísan til útreikninga þeirrar stofnunar sem hefur séð um umsýslu og útgáfu þessara leyfa var lagt til að gjaldið yrði hækkað í 10.000 kr.
    Þá er lagt til að 4. tölul. 2. mgr. 13. gr. falli brott þar sem engin önnur rekstrarleyfi falla þarna undir. Vegna misritunar í 1. tölul. voru almenn rekstrarleyfi fyrir fólksflutninga tilgreind þar en með réttu hefðu þau átt að falla undir 4. tölul. Því er lagt til með frumvarpi þessu að 2. tölul. fjalli um almennt rekstrarleyfi fyrir fólksflutninga og að 4. tölul. falli brott þar sem í fyrri töluliðum er talningin tæmandi.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2001,
um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

    Tilgangur frumvarpsins er að hækka gjald fyrir almennt rekstrarleyfi fyrir fólksflutninga úr 3.000 kr. fyrir hvert leyfi í 10.000 kr. fyrir hvert leyfi. Á síðasta þingi voru samþykkt lög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, og fjallar 13. gr. um gjaldtökuheimild Vegagerðarinnar sem ætlað er að standa straum af kostnaði sem hlýst af leyfisveitingunni. Við þá lagasetningu var gjald fyrir rekstrarleyfi fyrir fólksflutninga ákveðið 3.000 kr. eins og gjald fyrir sendibifreiðar og vöru- og efnisflutningabifreiðar. Nú er hins vegar lagt til að gjaldið verði hækkað til samræmis við raunkostnað. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar sem annast eftirlit og útgáfu rekstrarleyfanna er áætlað að hækkunin skili 2 m.kr. í meiri tekjur. Samtals er því gert ráð fyrir að tekjur af leyfisveitingum verði u.þ.b. 11 m.kr. á ári, og vega þær upp á móti kostnaði við veitingu leyfanna. Í frumvarpi til fjárlaga 2002 hefur verið gert ráð fyrir 9 m.kr. tekjum vegna veitingar leyfanna. Ekki verður séð að frumvarpið hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð verði það að lögum.