Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 378  —  128. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir 44 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 954,8 m.kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 46 m.kr.
101    Embætti forseta Íslands.
         1.01 Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 6,5 m.kr. viðbótarfjárveitingu til reksturs embættisins vegna aukins umfangs og kostnaðar.
        6.11
Bifreiðar. Lagt er til að stofnkostnaðarframlag lækki um 6,5 m.kr. Í fjárlögum ársins 2000 var gert ráð fyrir 6,5 m.kr. fjárveitingu til endurnýjunar á aðalbifreið embættis forseta Íslands. Ekki hefur orðið af bifreiðakaupunum og hefur fjárheimildin færst á milli ára en gert er ráð fyrir að hún falli nú niður.
201    Alþingi.
        1.04
Alþjóðasamstarf. Lagt er til að veitt verði 3 m.kr. aukaframlag til að mæta útgjöldum vegna samstarfsverkefnis vestnorrænu landanna.
        1.07
Sérverkefni. Lagt er til að veitt verði 5 m.kr. aukaframlag vegna þátttöku Alþingis í hátíðarútgáfu á verkum Snorra Sturlusonar sem ákveðin var í tilefni 150 ára afmælis þjóðfundarins.
        6.21
Fasteignir. Gerð er tillaga um að 38 m.kr. söluandvirði Skólabrúar renni til framkvæmda við fasteignir Alþingis.

01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 21 m.kr.
190    Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis verkefni. Lögð er til 10 m.kr. aukafjárveiting til að standa straum af kostnaði við rannsóknir á afmörkuðum þáttum efnahagsmála sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur unnið fyrir forsætisráðuneytið. Hæst ber þar verkefni sem snýr að tekjuskiptingu á Íslandi og rannsókn á ýmsum þáttum gjaldeyrismála.
201    Fasteignir forsætisráðuneytis.
        1.01
Fasteignir forsætisráðuneytis. Gerð er tillaga um 11 m.kr. aukafjárveitingu til að jafna út uppsafnaðan halla sem verið hefur á rekstri fasteigna forsætisráðuneytis undanfarin tvö ár. Útgjöld hafa aukist vegna reksturs og umsjónar með fleiri fasteignum. Fastur rekstrarkostnaður og kostnaður vegna öryggismála hefur aukist umtalsvert. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 er gerð tillaga um hækkun fjárhagsramma fasteigna forsætisráðuneytisins til að mæta umfangi og koma rekstri í jafnvægi.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 12,2 m.kr.
969    Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
        6.21
Endurbótasjóður menningarstofnana. Gerð er tillaga um 11 m.kr. hækkun á framlagi til sjóðsins og skal framlagið notað til að mæta áföllnum kostnaði við endurbætur að Skriðuklaustri í Fljótsdal. Ráðist var í miklar endurbætur á húsakosti árið 2000, bæði Gunnarshúsi og forstöðumannsbústað, og lagði Endurbótasjóður menningarbygginga til fé í verkið. Lokið var við framkvæmdir sumarið 2000 en þær reyndust kostnaðarsamari en áætlað var og nam heildarkostnaður 31 m.kr. Fjármagn Endurbótasjóðs til verksins þraut þar sem hann hafði lítið af óskiptu fé til ráðstöfunar og 11 m.kr. vantar til að ljúka megi uppgjöri framkvæmda.
989    Ýmis íþróttamál.
        1.17
Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri. Gerð er tillaga um 0,6 m.kr. aukafjárveitingu til Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri vegna hækkunar vísitölu og breytinga á mannahaldi.
999    Ýmislegt.
        1.90
Ýmis framlög. Lagt er til að safnliðurinn hækki um 0,6 m.kr. og fjárveitingin renni sem rekstrarstyrkur til Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 133,5 m.kr.
201    Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli.
        1.10
Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli. Lagt er til að veitt verði 33 m.kr. fjárheimild sem fjármögnuð verði með sértekjum frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli. Í kjölfar voðaatburðanna í Bandaríkjunum 11. september sl. var gripið til ýmissa ráðstafana og aukins viðbúnaðar gegn hryðjuverkum og aukins öryggiseftirlits. Bandaríska flugmálastjórnin (FAA) setti með bréfi 12. september sl. fram kröfur sem uppfylla þurfti til þess að flugfélögum væri heimilt farþega- og fraktflug til Bandaríkjanna. Yfirvöld á Keflavíkurflugvelli þurftu með nokkurra klukkutíma fyrirvara að bregðast við þessum kröfum og senda staðfestingu um að komið yrði til móts við þær. Aukinn kostnaður tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli felst aðallega í aukinni vopnaleit, farangursleit, handleit og gegnumlýsingu, en auknum verkefnum sýslumannsembættisins hefur eingöngu verið sinnt í yfirvinnu frá 11. september þar sem um neyðarviðbrögð er að ræða. Gert er ráð fyrir samsvarandi fyrirkomulagi a.m.k. til áramóta þar til skýrist hve mikill viðbúnaður er til framtíðar.
        1.20
Ríkislögregla á Keflavíkurflugvelli. Gerð er tillaga um 23 m.kr. fjárveitingu til embættisins. Aukinn kostnaður lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli vegna atburðanna í Bandaríkjunum 11. september sl. felst aðallega í hertu öryggiseftirliti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og sameiginlegu eftirliti á varnarsvæðum. Auknum verkefnum sýslumannsembættisins hefur eingöngu verið sinnt í yfirvinnu frá 11. september sl. þar sem um neyðarviðbrögð er að ræða. Gert er ráð fyrir samsvarandi fyrirkomulagi a.m.k. til áramóta þar til skýrist hve mikill viðbúnaður er til framtíðar.
211    Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli.
        1.01
Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli. Lagt er til að fjárheimild stofnunarinnar hækki um 33 m.kr. Um er að ræða kostnað sem greiddur er sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli vegna aukinnar vopnaleitar í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september sl. Hækkun útgjalda færist sem breyting á viðskiptahreyfingu stofnunarinnar og minnkar því svigrúm til lækkunar skulda samsvarandi.
             Þá er einnig lögð til 12,5 m.kr. hækkun á fjárheimild til stofnunarinnar. Í kjölfar voðaatburðanna í Bandaríkjunum var gripið til ýmissa ráðstafana og aukins viðbúnaðar gegn hryðjuverkum og aukins öryggiseftirlits. Aukinn kostnaður felst aðallega í hertu öryggiseftirliti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., aukinni gæslu á flughlöðum og þjónustusvæði, vopnaleit, farangursleit, handleit og gegnumlýsingu, sem og sprengjuleit í flugvélum. Aukinn kostnaður færist sem breyting á viðskiptahreyfingu stofnunarinnar.
320    Sendiráð, almennt.
        6.90
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 15 m.kr. fjárveitingu vegna öryggisráðstafana í sendiráðum Íslands erlendis. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september sl. hefur verið nauðsynlegt að endurbæta ýmsa öryggisþætti í nokkrum sendiráðum Íslands erlendis.
390    Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
        1.01
Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Gerð er tillaga um 50 m.kr. fjárveitingu til stofnunarinnar til viðbótar við þær 50 m.kr. sem þegar er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Við endurskoðun á skuldbindingum vegna ársins 2001 kom í ljós að þær eru hærri en áður var talið vegna hækkunar á gengi Bandaríkjadals, en yfir 90% af útgjöldum stofnunarinnar eru samningsbundin í bandarískum dölum.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 21 m.kr.
311    Lögreglustjórinn í Reykjavík.
        1.01
Lögreglustjórinn í Reykjavík. Lagt er til að veitt verði 12 m.kr. aukaframlag til að standa undir hertri öryggisgæslu við sendiráð í kjölfar hryðjuverkanna 11. september sl. og aukinnar spennu á alþjóðavettvangi í kjölfar þeirra. Talið er að kostnaður muni nema alls um 12 m.kr. á þessu ári en óljóst er með kostnað á næsta ári.
390    Ýmis löggæslumál.
        1.10
Ýmis löggæslukostnaður. Lagt er til að framlag til löggæsluembætta verði hækkað um 5 m.kr. vegna tímabundinna aðgerða og lögreglusamvinnu á árinu 2001 í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og aukinnar spennu á alþjóðavettvangi. Gert er ráð fyrir að framlaginu verði ráðstafað til ríkislögreglustjóra og annarra embætta sem vinna að málinu eftir því sem við á.
             Þá er gerð tillaga um 4 m.kr. viðbótarframlag til vopnaleitar vegna millilandaflugs frá innanlandsflugvöllum en eftirlit þetta er afleiðing hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og aukinnar spennu á alþjóðavettvangi í kjölfar þeirra. Ekki liggur endanlega fyrir hvernig fjárheimildin mun skiptast á milli embætta en ljóst er að stærsti hlutinn mun renna til lögreglunnar í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að fjárheimildin verði færð til viðkomandi embætta þegar nánari upplýsingar liggja fyrir.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 98,1 m.kr.
302    Ríkissáttasemjari.
        1.01
Ríkissáttasemjari. Lögð er til 15 m.kr. viðbótarfjárheimild til embættisins í kjölfar mikilla anna í kjaradeilum. Samkvæmt nýrri rekstraráætlun fyrir árið 2001 er gert ráð fyrir að útgjöld embættisins verði um 56,7 m.kr. Að teknu tilliti til yfirfærðs halla síðasta árs nema fjárheimildir embættisins á árinu samtals 35,5 m.kr. Gera má ráð fyrir talsvert minna umfangi á næsta ári og að embættið geti því borið hluta af halla ársins 2001.
705    Málefni fatlaðra, Norðurlandi vestra.
        1.86
Samningur við Byggðasamlag um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra. Óskað var eftir 7,5 m.kr. framlagi vegna úrskurðar Félagsdóms nr. 9/2001 um viðurkenningu þess að Byggðasamlagi um málefni fatlaðra í Norðurlandi vestra beri að greiða starfsmönnum sem þess óskuðu laun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana. Í fjáraukalagafrumvarpi var fyrir mistök gert ráð fyrir 15 m.kr. framlagi á þessum lið, en helming fjárhæðarinnar átti að færa á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi vegna sama tilefnis. Lagt er því til að framlag á lið 07-705 lækki um 7,5 m.kr. en hækki um sömu fjárhæð á lið 07-707 Málefni fatlaðra, Austurlandi.
707    Málefni fatlaðra, Austurlandi.
        1.01 Almennur rekstur
. Lagt er til að liðurinn hækki um 7,5 m.kr., sjá skýringar á lið 07-705.
711    Styrktarfélag vangefinna.
        1.01
Styrktarfélag vangefinna. Gerð er tillaga um 20 m.kr. viðbótarfjárveitingu til Styrktarfélags vangefinna vegna aðkallandi viðhalds á húseignum félagsins. Í tengslum við samning sem gerður var við félagið fyrr á árinu var gerð úttekt á viðhaldsþörf á húseignum þess. Niðurstaða þeirrar úttektar var að um 70 m.kr. þurfi til endurbóta og viðhalds á húseignum Styrktarfélags vangefinna.
750    Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
        1.01
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Gerð er tillaga um 18,3 m.kr. viðbótarfjárveitingu til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins en stöðin hefur verið með viðvarandi rekstrarhalla undanfarin ár þrátt fyrir auknar fjárveitingar. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2002 er vanda stofnunarinnar mætt með 9,5 m.kr. hækkun á rekstrargrunni hennar. Framlagið er háð því skilyrði að ekki komi til nýrra fjárveitinga til stofnunarinnar frá því sem lagt er til í frumvarpi þessu og fjárlagafrumvarpi ársins 2002. Enn fremur er það skilyrði sett að stjórnendur stofnunarinnar geri nauðsynlegar ráðstafanir til að halda rekstri stofnunarinnar innan fjárheimilda.
981    Vinnumál.
        1.81
Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO. Gerð er tillaga um 2,8 m.kr. viðbótarfjárveitingu vegna hækkunar árgjalds félagsmálaráðuneytisins til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO. Hækkunin skýrist annars vegar af hækkun framlagsins í erlendri mynt og hins vegar af gengisbreytingu.
        1.90
Ýmislegt. Gerð er tillaga um 6 m.kr. framlag til liðarins en á árunum 2000 og 2001 féllu niður framlög til Alþýðusambands Íslands, tæpar 3 m.kr. hvort ár.
984    Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.41
Framlög og styrkir. Lögð er til 20 m.kr. aukafjárveiting til liðarins á móti þeirri 40 m.kr. lækkun sem áður hefur verið lögð til í ljósi endurskoðunar á spá um útgjöld.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.44
Byrgið, líknarfélag. Lögð er til 12 m.kr. aukafjárveiting til Byrgisins vegna meðferðarstarfs í endurhæfingarsambýlinu í Rockville.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 4 m.kr. fjárveitingu annars vegar til styrktar samtökunum Vímulaus æska vegna reksturs Foreldrahúss og hins vegar til hjóna sem annast tvö veik börn sín.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 313,5 m.kr.
203    Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
        
    Í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld Tryggingastofnunar á árinu 2001 er lögð til 90 m.kr. lækkun á framlagi fjögurra viðfangsefna sem hér segir:
         1.11 Mæðra - og feðralaun          25 m.kr.
        1.31
Endurhæfingarlífeyrir          25 m.kr.
        1.41 Heimilisuppbót          20 m.kr.
        1.51
Uppbætur          20 m.kr.
        1.55 Bifreiðakaupastyrkir. Lögð er til 30 m.kr. hækkun á framlagi til bifreiðakaupa í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld árið 2001. Gera má ráð fyrir að gengisbreytingar hafi áhrif á þennan lið, en ein af úthlutunarreglum stofnunarinnar kveður á um heimild hennar til þess að styrkja sem samsvarar 50 og 60% af kaupverði bifreiðar og enginn hámarksfjöldi styrkja tilgreindur. Að öðru leyti er úthlutun Tryggingastofnunar miðuð við ákveðnar fjárhæðir.
204    Lífeyristryggingar.
             Í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld Tryggingastofnunar á árinu 2001 er lögð til 270 m.kr. lækkun á framlagi til liðarins sem hér segir:
         1.11 Ellilífeyrir          20 m.kr.
        1.15
Örorkulífeyrir          10 m.kr.
        1.21
Tekjutrygging ellilífeyrisþega          100 m.kr.
        1.25
Tekjutrygging örorkulífeyrisþega          65 m.kr.
        1.26
Tekjutryggingarauki          50 m.kr.
        1.31
Örorkustyrkur          15 m.kr.
        1.41
Fæðingarorlof          10 m.kr.
206    Sjúkratryggingar.
        1.11
Lækniskostnaður. Gerð er tillaga um 100 m.kr. viðbótarfjárveitingu til að standa undir kostnaði sjúkratrygginga við læknishjálp. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun um útgjöld sjúkratrygginga vegna lækniskostnaðar má gera ráð fyrir að útgjöldin stefni í 2.700 m.kr. Þá er búið að taka tillit til þess að síðustu þrjá mánuði ársins dragi úr útgjöldum sjúkratrygginga vegna lækniskostnaðar sem nemur um 50 m.kr., en hlutur sjúklings í greiðslum fyrir sérfræðilæknisþjónustu var aukinn með reglugerð sem tók gildi 1. júlí sl.
         1.15 Lyf. Gerð er tillaga um samtals 200 m.kr. viðbótarframlag til að standa undir auknum útgjöldum vegna greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjum, þar af falla 167 m.kr. á sjúkratryggingar og 33 m.kr. á Landspítala – háskólasjúkrahús. Samkvæmt endurskoðaðri spá um útgjöld ársins er gert ráð fyrir að þau verði um 5.750 m.kr., um 4.900 m.kr. hjá Tryggingastofnun en um 850 m.kr. hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Útgjöldin fara tæpan milljarð kr. umfram fjárlög og er meginskýringin óhagstæð áhrif gengis á lyfjaverð. Í frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir rúmlega 790 m.kr. viðbótarfjárveitingu til að koma til móts við gengisbreytingarnar en útgjaldaþróunin bendir til þess er að sú leiðrétting dugi ekki til.
324    Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
        1.01
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Lagt er til að framlag til heyrnartækjakaupa verði aukið um 10 m.kr. til að stytta biðlista en stöðin hefur ekki annað eftirspurn eftir heyrnartækjum í nokkur ár og biðlistar hafa lengst. Fjárveiting til heyrnartækjakaupa á árinu 2001 nam 53,8 m.kr. sem samsvarar úthlutun á 1.700 tækjum, en áætluð ársþörf er um 2.500 tæki. Þessi fjárveiting nægir fyrir úthlutun rúmlega 300 tækja til viðbótar.
358    Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri.
        1.01
Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Lögð er til 13 m.kr. aukafjárveiting sem nemur áætlaðri kostnaðaraukningu við ferliverk á ársgrundvelli.
        6.50
Nýbygging. Lögð er til 18 m.kr. aukafjárveiting til sundlaugar á Kristnesspítala. Byggingu hennar lauk síðasta ár en hún var fjármögnuð með söfnunarfé auk 15 m.kr. framlags frá Akureyrarbæ og 2 m.kr. framlags frá heilbrigðisráðuneytinu, alls 42 m.kr. Kostnaður nam hins vegar um 60 m.kr.
370    Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi.
        1.01
Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Liðurinn hækkar um 19,9 m.kr. og skýrist það af tvennu. Annars vegar er lagt til að veittar verði 33 m.kr. til að standa undir greiðslum vegna eldra fæðingarorlofskerfis. Í fjárlögum ársins 2001 eru veittar tímabundið 68 m.kr. til að fjármagna eftirstöðvar fæðingarorlofsgreiðslna samkvæmt þágildandi lögum um fæðingarorlof, en í ársbyrjun tóku gildi ný lög um greiðslur í fæðingarorlofi. Áfallinn kostnaður við eldra kerfi er um 101 m.kr. Farið er fram á 33 m.kr. fjárveitingu eða sem nemur mismun á raunverulegum kostnaði við eldra fæðingarorlofskerfi og framlagi ársins.
             Hins vegar er gerð tillaga um að 13,1 m.kr. verði færð af liðnum í samræmi við tillögur um fjárheimild til þriggja hjúkrunarheimila en í frumvarpinu er gert ráð fyrir alls 220 m.kr. fjárheimild vegna viðvarandi halla á rekstri þriggja hjúkrunarheimila: 08-421-1.01 Víðines, 08-495-1.41 Hrafnista, Reykjavík og 08-495-1.81 Holtsbúð, Garðabæ. Gerðar eru tillögur um breytingar á frumvarpinu sem miðast við að veitt verði 46,5 m.kr. viðbótarfjárheimild en að afgangurinn, 173,5 m.kr., verði millifærður af fimm liðum. Í fyrsta lagi er lagt til að 13,1 m.kr. verði færð af liðnum 370-1.01 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi og 13,9 m.kr. af liðnum 379-1.01 Sjúkrahús, óskipt. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að 49 m.kr. verði millifærðar af liðnum 495-1.12 Sóltún, Reykjavík þar sem hjúkrunarheimilið mun ekki taka til starfa fyrr en í ársbyrjun 2002. Í þriðja lagi er gerð tillaga um 35 m.kr. millifærslu af óskiptum lið 499-1.01 Hjúkrunarheimili, almennur rekstur. Loks er lagt til að ráðstafað verði 62,5 m.kr. af liðnum 495-1.95 Framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna tekna frá sjóðnum sem láðist að gera ráð fyrir í fjárlögum ársins 2001.
373    Landspítali, háskólasjúkrahús.
        1.01
Landspítali, háskólasjúkrahús. Lagt er til 200 m.kr. aukaframlag til að standa undir kostnaði við endurskipulagningu sjúkrahússins í kjölfar sameiningar, þar með talinn kostnaður við sameiningu sérgreina og til greiðslu starfsloka- og biðlauna. Einnig er fjárveitingunni ætlað að standa undir öðrum óvæntum útgjöldum innan ársins.
             Einnig er gerð tillaga um að 16 m.kr. af fyrirhugaðri fjárveitingu til reksturs nýs hjúkrunarheimilis í Reykjavík verði nýttar til tímabundins reksturs 22 rúma hjúkrunardeildar í húsnæði Landspítala – háskólasjúkrahúss. Áætlanir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis gerðu ráð fyrir að Sóltún, nýtt hjúkrunarheimili í Reykjavík, yrði tekið í notkun síðla árs 2001. Heimild fékkst til að nota hluta þess fjár sem annars hefði farið í rekstur heimilisins til tímabundinna úrræða fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga og fól heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið Landspítala – háskólasjúkrahúsi tímabundinn rekstur hjúkrunardeildar, auk annarra úrræða fyrir aldraða. Landspítali – háskólasjúkrahús gerði verktakasamning um rekstur 22 rúma hjúkrunardeildar í húsnæði Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þeim samningi lýkur 15. nóvember 2001. Þar sem hið nýja hjúkrunarheimili í Reykjavík tekur ekki til starfa fyrr en í janúar 2002 er lagt til að hluti þess fjár sem annars hefði farið í rekstur þess fari til áframhaldandi reksturs hjúkrunardeildar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi eða þar til Sóltún verður tekið í notkun í ársbyrjun 2002.
379    Sjúkrahús, óskipt.
        1.01
Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa. Gerð er tillaga um að 13,9 m.kr. verði færðar af liðnum í samræmi við tillögur um fjárheimild til þriggja hjúkrunarheimila vegna viðvarandi halla á rekstri þeirra, sjá skýringu á lið 08-370-1.01.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.58
Krýsuvíkurskóli, vist- og meðferðarheimili. Gerð er tillaga um 10 m.kr. aukafjárveitingu til að gera heimilinu kleift að starfa áfram.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 5 m.kr. aukafjárveitingu vegna kaupa á blóðsöfnunarbíl fyrir Blóðbankann. Rauði kross Íslands gaf Blóðbankanum 26 m.kr. til kaupa á fullkomnum blóðsöfnunarbíl. Vegna óhagstæðrar gengisþróunar er verð bílsins komið í 31 m.kr. Farið er fram á 5 m.kr. aukafjárveitingu svo að unnt verði að taka við gjöf Rauða kross Íslands. Um er að ræða fullkominn blóðsöfnunarbíl, en með tilkomu hans verður unnt að safna blóði hvar sem er á landinu.
             Þá er lögð til 2 m.kr. fjárveiting sem er lokaframlag til rannsókna á rauðum hundum. Framlag féll niður við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2001 og virðast hafa orðið mistök við afgreiðslu á fjárlagaliðnum 08-399-1.90.
411    Garðvangur, Garði.
        1.01
Garðvangur, Garði. Lögð er til 6 m.kr. aukafjárveiting til endurbóta á húsnæði hjúkrunarheimilisins Garðvangi, Garði.
421    Víðines.
        1.01
Víðines. Lögð er til 27 m.kr. hækkun til heimilisins í samræmi við tillögur um fjárheimild til þriggja hjúkrunarheimila vegna viðvarandi halla á rekstri þeirra, sjá skýringu á lið 08-370-1.01.
495    Daggjaldastofnanir.
        1.12
Sóltún, Reykjavík. Lagt er til að 16 m.kr. af fyrirhugaðri fjárveitingu til reksturs nýs hjúkrunarheimilis í Reykjavík verði nýttar til tímabundins reksturs 22 rúma hjúkrunardeildar í húsnæði Landspítala – háskólasjúkrahúss sem fyrr greinir, sjá skýringar á lið 08-373-1.01, og færist því fjárveitingin af þessum lið á lið Landspítala – háskólasjúkrahúss.
             Jafnframt er lagt til að 49 m.kr. verði færðar af liðnum þar sem heimilið tekur ekki til starfa fyrr en í ársbyrjun 2002 og að sú fjárhæð renni til þriggja hjúkrunarheimila vegna viðvarandi halla þeirra, í samræmi við framangreindar tillögur, sjá skýringar á lið 08-373-1.01.
        1.41 Hrafnista, Reykjavík. Lögð er til 172 m.kr. hækkun til heimilisins í samræmi við framangreindar tillögur um fjárheimild til þriggja hjúkrunarheimila vegna viðvarandi halla á rekstri þeirra, sjá skýringar á lið 08-370-1.01.
        1.81
Holtsbúð, Garðabæ. Lögð er til 21 m.kr. hækkun til heimilisins í samræmi við framangreindar tillögur um fjárheimild til þriggja hjúkrunarheimila vegna viðvarandi halla á rekstri þeirra, sjá skýringar á lið 08-370-1.01.
        1.95
Framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Lagt er til að ráðstafað verði 62,5 m.kr. af liðnum vegna tekna frá sjóðnum sem láðist að gera ráð fyrir í fjárlögum ársins 2001 þannig að þær fari til þriggja hjúkrunarheimila vegna viðvarandi halla á rekstri þeirra í samræmi við áðurnefndar tillögur, sjá skýringar á lið 08-373-1.01.
499    Hjúkrunarheimili.
        1.01
Almennur rekstur. Gerð er tillaga um að 35 m.kr. verði færðar af liðnum í samræmi við fyrrgreindar tillögur um fjárheimild til þriggja hjúkrunarheimila vegna viðvarandi halla á rekstri þeirra, sjá skýringar á lið 08-373-1.01.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 355 m.kr.
989    Launa- og verðlagsmál.
        1.90
Launa- og verðlagsmál. Gerð er tillaga um 305 m.kr. hækkun á fjárheimild þessa liðar. Í frumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir aukinni fjárheimild sem fyrirhugað er að verði deilt niður á stofnanir og verkefni í kjölfar útreiknings á endurmetnum launa- og gengisforsendum gildandi fjárlaga. Í ljós hefur komið að í þær fjárheimildir vantaði kostnaðarauka vegna ákvæða í samningi SFR-félaga um útdeilingu á 150 m.kr. framlagi 1. maí sl. og 150 m.kr. framlagi 1. október sl. til að gera stofnunum kleift að bæta kjör þeirra sem hafa lægstu launin. Þau útgjöld eru áætluð um 190 m.kr. á árinu 2001 að teknu tilliti til gildistöku launahækkana þessara starfsmanna. Þá hefur farið fram nánari athugun á áhrifum breytinga í kjarasamningum á vaktaálagi hjá starfsmönnum stofnana fatlaðra og er áætlað að launakostnaður þeirra hækki um 55 m.kr. Við frekari skoðun á launa- og verðlagsforsendunum hafa einnig komið fram nokkur tilvik þar sem endurbæta þarf fyrra mat að fengnum athugasemdum og frekari upplýsingum frá viðkomandi aðilum og er gert ráð fyrir 60 m.kr. fjárheimild vegna þessa.
999    Ýmislegt.
        1.70
Aðstoð vegna snjóflóðs í Súðavík. Lagt er til að veitt verði 20 m.kr. aukaframlag til Súðavíkurhrepps til að ljúka byggingu stjórnsýsluhúss. Með þeirri framkvæmd er endanlega lokið flutningi byggðar í kjölfar snjóðflóðsins árið 1995. Heildarkostnaður byggingarinnar nemur 137 m.kr. og nemur fjárstuðningur ríkissjóðs til byggingarinnar þá samtals 90 m.kr. en áður var veitt fé til byggingarinnar með fjáraukalögum ársins 1999.
        1.75
Aðstoð vegna jarðskjálfta á Suðurlandi. Lagt er til að veitt verði 30 m.kr. fjárheimild til að greiða einstökum sveitarfélögum allt að 90% af viðurkenndum útgjöldum þeirra vegna jarðskjálfta á Suðurlandi árið 2000, en gert er ráð fyrir að sveitarfélögin beri sjálf 10% kostnaðar, auk kostnaðar við funda- og skrifstofuhald.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 15 m.kr.
211    Vegagerðin.
        1.13
Styrkir til innanlandsflugs. Gerð er tillaga um að veita 12 m.kr. til að styrkja innanlandsflug til Hafnar í Hornafirði. Um er að ræða bráðabirgðasamning sem áætlað er að gera í samvinnu samgönguráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Tryggingastofnunar ríkisins um áætlunarflug og sjúkraflug, en ríkisstjórnin samþykkti að stefna að því að bjóða flugleiðina út og er gert ráð fyrir að útboðsferlið taki u.þ.b. þrjá mánuði.
651    Ferðamálaráð.
        1.11
Ferðamálasamtök landshluta. Lögð er til 3 m.kr. aukafjárveiting á þessum lið og er fjárhæðinni ætlað að fara til upplýsingamiðstöðvarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 39,5 m.kr.
101    Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Lögð er til 6,5 m.kr. aukafjárveiting vegna aukins kostnaðar við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum.
190    Ýmis verkefni.
        1.61
Úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál. Gerð er tillaga um 2 m.kr. viðbótarfjárheimild til að mæta rekstrarvanda vegna fjölgunar mála hjá nefndinni.
283    Hreinsun umhverfis.
        1.11
Hreinsun olíu úr flaki skipsins El Grillo á botni Seyðisfjarðar. Lögð er til 20 m.kr. viðbótarfjárheimild vegna aukins kostnaðar við að dæla og hreinsa olíu úr flaki El Grillo.
403    Náttúrustofur.
        1.11
Náttúrustofa Vestmannaeyjum. Lögð er til 5 m.kr. aukafjárveiting til Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum til rannsókna og kortagerðar af jarðskjálftasvæðunum Heklu, Vestmannaeyjum og Kötlu.
410    Veðurstofa Íslands.
        6.01
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 6 m.kr. aukafjárveitingu til Veðurstofu Íslands til endurnýjunar á varaaflstöð stofnunarinnar sem orðin er ónýt og til að fjarlægja gamlan niðurgrafinn olíutank sem farinn var að leka fyrir utan hús Veðurstofunnar.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

        Lagt er til að vaxtagjöld ríkissjóðs lækki um 100 m.kr.
801    Vaxtagjöld ríkissjóðs.
        1.10
Vaxtagjöld ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að gjaldfærð vaxtagjöld ríkissjóðs árið 2001 lækki um 100 m.kr. frá þeirri áætlun sem miðað var við í frumvarpinu en forsendur hennar hafa nú verið endurmetnar. Jafnframt er reiknað með að greidd vaxtagjöld ársins lækki um 270 m.kr.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 19. nóv. 2001.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Kristján Pálsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Drífa Hjartardóttir.



Tómas Ingi Olrich.