Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 431  —  336. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sjálfstæði Palestínu.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Karl V. Matthíasson,


Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Guðrún Ögmundsdóttir,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson, Sigríður Jóhannesdóttir,


Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller,


Lúðvík Bergvinsson, Svanfríður Jónasdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Ísraelsmenn dragi heri sína frá hernumdu svæðunum í Palestínu, í samræmi við friðarsamkomulagið sem gert var í Ósló árið 1993, og geri þannig Palestínumönnum kleift að lifa sem frjáls þjóð í eigin landi.
    Alþingi lýsir yfir að þjóðum heims beri að stuðla að því að Palestínumenn og Ísraelsmenn leysi úr ágreiningsmálum sínum á grundvelli alþjóðaréttar, samþykkta Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamninga.
    Alþingi styður hugmyndir um að alþjóðlegt gæslu- og eftirlitslið verði sent á vettvang til að koma í veg fyrir vopnahlésbrot.

Greinargerð.


    Ástandið sem Palestínumenn búa við er með öllu óviðunandi. Sífellt magnast ófriðarbálið og með því hörmungar hins almenna borgara, ekki síst barna og ungmenna. Ekki er ofmælt að staðan versnar ár frá ári. Heilar kynslóðir Palestínumanna alast upp í flóttamannabúðum og sjá ekki annan tilgang með lífinu en að ganga ofbeldi og hryðjuverkum á hönd. Eina leiðin út úr ógöngunum og til að stöðva mannréttindabrotin, ofbeldið og hryðjuverkin er að gera palestínsku þjóðinni kleift að lifa sem frjáls þjóð í eigin landi. Þar getur frumkvæði og stuðningur Íslendinga skipt miklu. Ísland, sem eitt elsta lýðræðisríki veraldar, nýtur virðingar á alþjóðasviðinu langt umfram það sem stærð lands og þjóðar gefa tilefni til. Okkur ber skylda til þess sem frelsisunnandi lýðræðisþjóð að beita áhrifum okkar í þágu friðar fyrir botni Miðjarðarhafs, og vera frumkvöðlar og brautryðjendur á sviði friðar og mannréttindamála í heiminum. Baráttan fyrir því að gera palestínsku þjóðinni kleift að lifa frjálsri í eigin landi fellur undir hvort tveggja.
    Palestínustjórn ræður yfir innan við 18% af Vesturbakkanum og Gaza. Ísraelsher hefur hlutað Palestínusvæðið niður í rúmlega 220 smáeiningar. Þorp og bæir eru að verulegu leyti einangruð þar sem Ísraelsstjórn takmarkar samgöngur milli þeirra. Stjórn Palestínumanna ræður ekki yfir samgöngum á landi og í lofti né fjarskiptum og hún fær ekki að láta lögreglumenn sína ferðast hindrunarlaust milli svæða. Þessi staða gerir í senn búsetu og alla stjórn á svæði Palestínumanna mjög erfiða og stuðlar að ótryggu ástandi. Það er lágmarkskrafa að Palestínumenn fái fulla stjórn yfir svæðum sem þeir eiga í orði kveðnu að ráða fyrir. Leiðin til þess og til aukins öryggis er einfaldlega sú að gera þeim kleift að stofna eigið ríki. Líkt og palestínski læknirinn og húmanistinn Mustafa Barghouthi, heiðursgestur á landsfundi Samfylkingarinnar 16.–18. nóvember sl., sagði svo eftirminnilega í ávarpi sínu til landsfundar flokksins: „Ofbeldið og öryggisleysið eru einkennin en hernámið er orsökin. Hernámið er að verða að krabbameini sem getur orðið báðum þjóðunum að bana og breiðst út til annarra landa.“
    Sammæli okkar allra um siðmenningu, mannréttindi og frelsi verður að verja eftir öllum þeim leiðum sem færar eru og samrýmast stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum. Á alþjóðavettvangi þarf að kippa fótunum undan hryðjuverkamönnum, hvar sem er í heiminum, og treysta þannig stoðir lýð- og mannréttinda. Ísland á að styðja skilvirka samvinnu alþjóðastofnana um þetta meginmarkmið, þar sem hver stofnun leggur sitt af mörkum í samræmi við hlutverk sitt og getu. Við getum lagt okkar af mörkum við að koma á réttlæti og friði í millum Ísraelsmanna og Palestínumanna.
    Palestínumenn eiga sér langa og merka sögu. Þeir bjuggu í þorpum og þéttbýli og eru raunar taldir fyrsti þjóðflokkur jarðarinnar til að búa í skipulögðu þéttbýli. Þjóðin á sér því langa og merkilega sögu. Frá því að arabar lögðu Bretum lið í því að frelsa landið frá Tyrkjum árin 1917–1918 hefur ófriðarbálið logað. Bretar lofuðu á móti að styðja araba við að stofna sitt eigið ríki í Palestínu. Það efndu þeir ekki. Með þessu háttalagi var lagður grunnurinn að því ömurlega ástandi sem palestínska þjóðin hefur búið við allar götur síðan.
    Á mælikvarða stjórþjóðanna eru Palestínumenn lítil þjóð sem býr á agnarsmáu landsvæði. Þjóðin er nú tæplega sjö milljónir manna. Samt sem áður hafa örlög og ástand þjóðarinnar verið eitt af helstu bitbeinum alþjóðasamfélagsins síðustu 60 árin. Angar þeirrar deilu teygja sig um heimssöguna nær alla síðustu öld. Frá árinu 1948 hafa átökin á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna þannig brotist út í styrjöld nánast á hverjum áratug. Þá er ótalinn gríðarlegur fjöldi innrása, hryðjuverka og átaka sem leitt hafa til mikillar spennu á sviði alþjóðamála og jafnvel ógnað heimsfriðnum á dögum kalda stríðsins. Til marks um vána sem spenna og átök fyrir botni Miðjarðarhafs leiða af sér má nefna að eina viðvörunin um kjarnorkustríð, sem vitað er um, var gefin út innan herafla Bandaríkjamanna í októberstríðinu árið 1973. Fjölda annarra dæma má tína til um hve alvarlegt ástandið er, svo ekki sé minnst á þá hörmung ófriðar, fátæktar og misréttis sem þjóðin býr við.
    Fátækt, menntunarskortur og stöðugur ótti um eigið öryggi er hlutskipti palestínsku þjóðarinnar. Eftir að átakahrinan hófst í fyrra með uppreisn Palestínumanna, intifada, hafa tæplega 840 Palestínumenn fallið á rúmu ári og um 24.000 slasast. Þetta er til marks um hve alvarlegt ástandið er. Sárlega skortir fé, mannafla og tæki. Vaxandi atvinnuleysi á svæðunum í Palestínu og minnkandi þjóðarframleiðsla veldur því að æ erfiðar gengur að fjármagna rekstur heilbrigðisþjónustunnar. Um 70% þjóðarinnar búa í dreifbýli, þar sem ekki eru viðunandi heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús. Fátækt og vanþróun eiga sök á hárri dánartíðni ungbarna og tíðni smitsjúkdóma. Rúmlega 60% Palestínumanna lifa nú undir skilgreindum fátæktarmörkum. Mannréttindi þeirra eru fótum troðin og einskis virt. Þetta getur alþjóðasamfélagið ekki liðið og má ekki líða. Ástandið sem skapast hefur í kjölfar atburðanna 11. september má ekki verða skálkaskjól þeirra sem vilja nýta sér spennu á milli kynþátta og trúarbragða til áframhaldandi kúgunar og ofbeldisverka.
    Samið var um það í Óslóarviðræðunum að Ísraelsmenn létu stjórn Arafats fá skattfé sem innheimt er af íbúum hernumdu svæðanna. Þannig átti stjórninni að verða kleift að reisa og viðhalda innviðum samfélags í Palestínu, ekki síst bráðnauðsynlegu heilbrigðiskerfi. Við það hafa Ísraelar ekki staðið heldur haldið peningunum ranglega, að sögn til að refsa Palestínumönnum. Palestínska skattféð í sjóðum Ísraelsmanna nemur nú um 750 milljónum bandaríkjadala.
    Palestínska þjóðin er markvisst kúguð af Ísraelsmönnum með hörmulegum afleiðingum. Því verður að linna. Það er fullkomlega eðlileg og sanngjörn krafa að Ísraelsmenn dragi heri sína frá hernumdu svæðunum hið fyrsta. Alþjóðasamfélagið verður því að beita kröftum sínum til að ýta undir markvissa uppbyggingu sjálfstæðs palestínsks ríkis. Með því að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Ísraelsmenn dragi heri sína frá hernumdu svæðunum í Palestínu, þannig að palestínsku þjóðinni verði kleift að lifa við frelsi í eigin landi, stuðla Íslendingar að því að mannréttindi Palestínumanna og réttur þeirra til sjálfstæðs ríkis verði virtur. Þannig geta Íslendingar lagt sitt lóð á vogarskálina til að friður komist á. Friður með sæmd fyrir botni Miðjarðarhafs væri táknrænt dæmi þess að alþjóðasamfélagið hefði snúið blaðinu við og ætlaði í upphafi nýrrar aldar að standa þannig að málum að hvergi líðist mannréttindabrot eða yfirgangur í krafti valds gagnvart þjóðum og þjóðarbrotum heimsins.
    Ísland hefur alltaf sýnt frumkvæði að því að viðurkenna ný sjálfstæð ríki, svo sem Eystrasaltsríkin og fyrrum lýðveldi Júgóslavíu. Það væri því í takt við fyrri framgöngu á alþjóðavettvangi tækju Íslendingar upp málstað Palestínumanna. Vissulega mun það ekki leysa deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs þótt Palestínumönnum verði gert kleift að stofna sjálfstætt ríki. Forsenda þess að raunverulegur friður komist á fyrir botni Miðjarðarhafs er að Palestínumenn fái aðstoð til að byggja upp innviði samfélags síns og leggja góðan grunn að farsælu efnahagslífi. Þess vegna er þessi tillaga lóð á vogarskál friðar.