Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 437  —  338. mál.




Frumvarp til laga



um búfjárhald o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



I. KAFLI
Markmið, yfirstjórn og skilgreiningar.
1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að tryggja góðan aðbúnað búfjár, að það hafi ætíð nægilega beit/fóður og vatn, að við framleiðslu búfjárafurða sé eingöngu notað hraust og heilbrigt búfé, enn fremur að setja reglur um vörslu búfjár og afla hagtalna.

2. gr.

    Landbúnaðarráðherra hefur á hendi yfirstjórn þeirra mála er lúta að meðferð búfjár og eftirliti með búfjárhaldi sem kveðið er á um í lögum þessum.
    Með búfé er í lögum þessum átt við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín. Rísi ágreiningur um hvað skuli falla undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi.

3. gr.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Aðbúnaður búfjár er umhirða, húsakostur og/eða skjól.
     2.      Friðað svæði er land afmarkað vörslulínu sem hindrar aðgang búfjár.
     3.      Gripheld girðing er mannvirki úr ýmsu efni sem reist er til að hindra frjálsa för búfjár. Hún er breytileg að gerð og gæðum eftir tegund. Girðing getur miðast við aldur og kyneiginleika búfjár, verið fjárheld, hrossheld, nautgripaheld, graðpeningsheld o.s.frv.
     4.      Hagaganga er það þegar eigandi búfjár kemur því í haga til annars aðila án þess að taka landið á leigu og gerir um það samning. Sá aðili verður þar með umráðamaður búfjárins.
     5.      Landspilda er ákveðinn hluti lands sem afmarkaður hefur verið.
     6.      Lausaganga er þegar búfé getur gengið í annars manns land í óleyfi.
     7.      Lausagöngubann er bann sem sveitarstjórn samþykkir fyrir sveitarfélagið í heild eða hluta þess og auglýsir í Stjórnartíðindum til að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár, einnar tegundar eða fleiri.
     8.      Umráðamaður búfjár er eigandi búfjár eða aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði, og vörslu þess í samræmi við gildandi reglur í viðkomandi sveitarfélagi og samkvæmt samningi milli aðila.
     9.      Umráðamaður lands er sá aðili sem hefur rétt til að ráðstafa nýtingu landsins.
     10.      Tilsjónarmaður er sá aðili sem tekið hefur að sér fóðrun og eftirlit með aðbúnaði en ber ekki ábyrgð á því nema gerður hafi verið um það samningur og er hann þá þar með orðinn umráðamaður búfjár.
     11.      Varsla búfjár er þegar umráðamaður búfjár heldur því innan afmarkaðs svæðis.
     12.      Vörslukrafa er krafa eða viðmiðun um gerð og gæði tiltekinnar vörslu, mismikil eftir tegund, aldri og kyneiginleikum búfjár.
     13.      Vörslulína er gripheld girðing, hlið og önnur mannvirki svo og náttúrlegur farartálmi sem kemur algerlega í veg fyrir frjálsa för búfjár allt árið eða á þeim tímum árs þegar búfjár er von á svæðinu.
     14.      Vörsluskylda er skilyrðislaus krafa um að umráðamaður búfjár ábyrgist að búfé í umsjá hans sé haldið innan afmarkaðs svæðis allt árið eða tiltekna hluta þess.

II. KAFLI
Takmörkun búfjárhalds.
4. gr.

    Sveitarstjórn heldur skrá yfir alla þá sem halda búfé. Skrá skal bæði hjón, alla aðila félagsbús og bústjóra og stjórnarformenn annarra félaga. Skrána skal uppfæra árlega og senda fyrir 15. janúar ár hvert búnaðarsamböndum, héraðsdýralæknum og Bændasamtökum Íslands og skulu samtökin halda heildarskrá fyrir allt landið.

5. gr.

    Sveitarstjórn er heimilt að setja samþykkt um búfjárhald. Landbúnaðarráðherra staðfestir slíka samþykkt og birtir í Stjórnartíðindum að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands.
    Í samþykktum sveitarstjórna um búfjárhald má ákveða að tiltekið búfjárhald sé með öllu bannað í viðkomandi sveitarfélagi eða takmarkað á tilteknum svæðum innan sveitarfélagsins. Verði búfjáreigandi fyrir atvinnutjóni vegna banns eða takmarkana á búfjárhaldi, þannig að bótum varði, skal greiða bætur úr sveitarsjóði.
    Um mat bóta skv. 2. mgr. skal fara að hætti mats á eignarnámsbótum og sér matsnefnd eignarnámsbóta um framkvæmd matsins.

III. KAFLI
Varsla búfjár.
6. gr.

    Sveitarstjórnum, einni eða fleiri samliggjandi sveitarfélaga, er heimilt, til að koma í veg fyrir ágang búfjár, að ákveða að umráðamönnum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Heimild þessi getur jafnt tekið til alls umdæmis viðkomandi sveitarfélags eða afmarkaðra hluta þess, svo sem umhverfis þéttbýli eða fjölfarna vegi.
    Þar sem sveitarstjórn hefur gert umráðamönnum búfjár skylt að hafa búfé í vörslu skal vera gripheld girðing og ber umráðamaður búfjár ábyrgð á að svo sé. Um kostnað við uppsetningu girðinga og viðhald fer eftir ákvæðum girðingar- og vegalaga.

7. gr.

    Graðpeningi skal haldið í vörslu sem hér segir:
     1.      Naut, 6 mánaða og eldri, allt árið.
     2.      Hrútar og hafrar, á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. maí ár hvert.
     3.      Graðhestar eða laungraðir hestar, 10 mánaða og eldri, allt árið.
     4.      Aðrar búfjártegundir en framan greinir, allt árið.
    Lögreglustjóri skal hlutast til um að graðpeningur, sem ekki er í öruggri vörslu, sé handsamaður og honum komið í örugga vörslu. Eigandi getur leyst til sín viðkomandi graðpening gegn greiðslu áfallins kostnaðar. Við ítrekuð brot skal graðhestur seldur nauðungarsölu samkvæmt nauðungarsölulögum en felldur verði hann ekki seldur. Öðrum graðpeningi skal slátrað og sölu- eða frálagsverð látið mæta áföllnum kostnaði.

8. gr.

    Umráðamanni lands er heimilt að ákveða að tiltekið og afmarkað landsvæði sé friðað svæði og er þá umgangur og beit búfjár þar bönnuð. Slík ákvörðun skal tilkynnt viðkomandi sveitarfélagi og skal liggja fyrir umsögn búnaðarsambands um að vörslulínur séu fullnægjandi og uppfylli ákvæði laganna, sbr. 3. gr. Sveitarstjórn skal auglýsa slíka ákvörðun í Stjórnartíðindum. Umráðamaður lands skal fyrir 15. maí á hverju vori framvísa til sveitarstjórnar umsögn búnaðarsambands um að vörslulína sé fullnægjandi. Um skiptingu kostnaðar við vörslulínu á landamerkjum fer eftir ákvæðum girðingar- og vegalaga.

9. gr.

    Komist búfé inn á friðað svæði, sbr. 8. gr., skal umráðamaður lands ábyrgjast handsömun þess og koma því í örugga vörslu. Skal hann þá þegar kanna hver er réttur eigandi að hinu handsamaða búfé og tilkynna honum þegar í stað hvar búféð er. Hafi umráðamaður búfjár ekki fundist eða sinnt fyrirmælum um að sækja búféð innan tveggja sólarhringa frá tilkynningu er umráðamanni lands heimilt að afhenda viðkomandi lögreglustjóra búféð sem ráðstafar því í samráði við sveitarstjórn. Umráðamaður lands ber ábyrgð á því að búfé hafi nægilegt fóður og vatn á meðan það er í vörslu hans.
    Lögreglustjóri, sveitarstjórn og umráðamaður lands eiga lögveð í búfénu fyrir sannanlegum kostnaði.

IV. KAFLI
Um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár.
10. gr.

    Búfjáreftirlit er á ábyrgð sveitarfélaga og skal rekið sameiginlega, að minnsta kosti af minni sveitarfélögum, á starfssvæðum sem kveðið er á um í reglugerð, sbr. 4. tölul. 17. gr.
    Sveitarfélög skulu ráða búfjáreftirlitsmann, einn eða fleiri eftir umfangi hvers svæðis, og sjá honum fyrir starfsaðstöðu og búnaði til starfsins. Búfjáreftirlitsmenn hafa eftirlit með ásetningi búfjár, aðbúnaði, fóðrun og þar með beit. Til starfsins skal velja menn sem hafa a.m.k. búfræðimenntun. Áður en búfjáreftirlitsmenn taka til starfa skulu þeir sækja sérstakt námskeið á vegum Bændasamtaka Íslands sem samræmir jafnframt framkvæmd búfjáreftirlits. Bændasamtök Íslands skulu útbúa sérstaka handbók fyrir búfjáreftirlitsmenn með helstu upplýsingum. Um sérstakt hæfi búfjáreftirlitsmanna fer eftir stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.
    Sveitarfélög á hverju starfssvæði geta með samkomulagi sín í milli falið sérstökum aðila umsjón með fjárreiðum og aðstöðu fyrir búfjáreftirlitið, t.d. búnaðarsamböndum, eða falið stærsta sveitarfélaginu að hafa umsjón með þessum þáttum.
    Kostnaður við búfjáreftirlit greiðist af sveitarfélögunum. Þeim er þó heimilt að innheimta eftirlitsgjald af búfjáreigendum fyrir sannanlegum kostnaði við búfjáreftirlitið samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Eftirlitsgjaldið skal standa undir kostnaði við akstur og vinnustundir búfjáreftirlitsmanns í samræmi við umfang eftirlits hjá hverjum og einum. Einnig skal í gjaldskrá fjalla um kostnað sem hlýst af handsömun, fóðrun og hýsingu gripa, sbr. 9., 15. og 16. gr., eftir því sem við getur átt í hverju tilviki.
    Á hverju búfjáreftirlitssvæði sem nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag starfar búfjáreftirlitsnefnd skipuð þremur fulltrúum og jafnmörgum til vara og eru þeir valdir af sveitarfélögunum eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar til fjögurra ára. Búfjáreftirlitsnefnd kemur saman a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. að vori og hausti. Búfjáreftirlitsnefnd annast yfirstjórn búfjáreftirlitsins fyrir hönd sveitarfélaganna, gerir fjárhagsáætlanir um rekstur eftirlitsins og leggur þær fyrir sveitarstjórnir til samþykktar. Búfjáreftirlitsmenn gefa búfjáreftirlitsnefnd skýrslu um störf sín á fundum nefndarinnar.

11. gr.

    Á hverju hausti og eigi síðar en 1. nóvember sendir búfjáreftirlitsmaður öllum umráðamönnum búfjár á sínu starfssvæði haustskýrslu frá Bændasamtökum Íslands til útfyllingar ásamt reglum um útfyllingu. Á skýrslunni skal koma fram fjöldi ásetts búfjár af hverri tegund og allt búfé í hagagöngu og á hvaða jörð eða landspildu það er. Einnig skal koma fram aðbúnaður alls búfjár, gróffóðurforði af hefðbundnum nytjatúnum og leigutúnum og fyrningar auk upplýsinga um aðra fóðuröflun. Ef til er gagnagrunnur þar sem upplýsingar þessar liggja fyrir getur landbúnaðarráðuneytið heimilað að fella niður þessa upplýsingaöflun. Umráðamaður búfjár skal senda haustskýrslu útfyllta til viðkomandi búfjáreftirlitsmanns í síðasta lagi 20. nóvember. Hafi búfjáreftirlitsmaður ekki fengið haustskýrslu útfyllta frá einhverjum umráðamanni búfjár fyrir tilskilinn frest skal hann fara og skoða hjá viðkomandi og ber umráðamaður búfjár kostnaðinn af því í samræmi við gildandi gjaldskrá. Slíkri skoðun skal lokið eigi síðar en 20. desember ár hvert.

12. gr.

    Búfjáreftirlitsmaður fer á hverjum vetri, fyrir 15. apríl, í eftirlitsferð til allra umráðamanna búfjár í umdæmi sínu sem ekki starfrækja innra eftirlit eða hafa gæðastjórnun viðurkennda af Bændasamtökum Íslands og skulu þeir láta búfjáreftirlitsmanni í té vorskýrslu, sbr. 4. tölul. 17. gr. Búfjáreftirlitsmaður lítur eftir aðbúnaði búfjár og fóðrun og sannreynir fjölda búfjár. Þar sem gerðar hafa verið athugasemdir við aðbúnað og/eða fóðrun búfjár á síðustu 15 mánuðum, miðað við 15. apríl, skal búfjáreftirlitsmaður halda uppi sérstöku eftirliti, t.d. með því að fara í aukaeftirlitsferðir.
    Um gjaldtöku vegna eftirlits fer samkvæmt gildandi gjaldskrá, sbr. 4. mgr. 10. gr.

13. gr.

    Búfjáreftirlitsmaður sendir frumrit og fyrsta afrit af útfylltum búfjáreftirlitsskýrslum skv. 11. gr. til viðkomandi búnaðarsambands eigi síðar en 31. desember ár hvert. Búnaðarsamband yfirfer gögnin og sendir Bændasamtökum Íslands frumritið eigi síðar en 20. janúar. Bændasamtökin annast úrvinnslu þeirra upplýsinga sem fram koma á skýrslunum. Það sama á við um skýrslur skv. 12. gr. komi þar fram breytingar á fjölda búfjár. Upplýsingar úr skýrslunum eru heimilar til afnota fyrir Hagstofu Íslands, Hagþjónustu landbúnaðarins, Bændasamtök Íslands og aðra opinbera aðila að fengnu leyfi landbúnaðarráðuneytisins.
    Landbúnaðarráðherra er heimilt að ákveða sérstaka talningu búfjár og ber ráðuneytið kostnað sem af því hlýst.

14. gr.

    Séu gripir í hagagöngu á eyðijörðum eða landspildum þar sem ekki er föst búseta skal umráðamaður búfjár ætíð tilgreina tilsjónarmann, fyrirframsamþykktan af sveitarstjórn, sem sér um fóðrun og eftirlit með aðbúnaði búfjárins og viðkomandi beitilöndum. Umráðamaður búfjár ber alltaf ábyrgð á fóðrun, beit og aðbúnaði. Nafn tilsjónarmanns skal skráð á viðkomandi búfjáreftirlitsskýrslum. Umráðamaður lands er ábyrgur fyrir því að fullnægjandi upplýsingar séu til um fjölda búfjár í hagagöngu og umráðamann þess.

15. gr.

    Meini umráðamaður búfjár búfjáreftirlitsmanni um aðgang að gripahúsum og/eða beitilöndum þannig að ekki verði komið við eftirliti og upplýsingaöflun samkvæmt lögum þessum skal búfjáreftirlitsmaður tilkynna sveitarstjórn það samdægurs. Takist sveitarstjórn ekki að leiða málið til lykta innan tveggja sólarhringa skal sveitarstjórn óska eftir aðstoð lögreglustjóra og jafnframt tilkynna það til landbúnaðarráðherra. Lögreglustjóri skal, þegar hann fær tilkynninguna, fela lögreglu að fara innan sólarhrings með búfjáreftirlitsmanni til skoðunar og eftirlits. Óheimilt er að fara í þessum tilgangi inn í gripahús án leyfis ábúenda eða umráðamanns búfjár nema að undangengnum dómsúrskurði. Umráðamaður búfjár er hlut á að máli ber allan kostnað sem af aðgerðum þessum hlýst og fer um gjaldtöku eftir gildandi gjaldskrá, sbr. 4. mgr. 10. gr. Sveitarstjórn og lögreglustjóri eiga lögveð í búfé umráðamanns þess eða kröfurétt í aðrar eignir hans.

16. gr.

    Komi í ljós að fóðrun eða aðbúnaði búfjár er ábótavant skal búfjáreftirlitsmaður tilkynna það sveitarstjórn og héraðsdýralækni samdægurs. Hver sá sem verður var við að umráðamann búfjár skorti hús, fóður eða beit fyrir búfé sitt, hann vanfóðri það eða beiti það harðýðgi skal tilkynna það héraðsdýralækni. Berist upplýsingar um vanfóðrun, harðýðgi eða slæman aðbúnað búfjár beint til dýralæknis, búnaðarsambands eða lögreglu skal tilkynna það héraðsdýralækni samdægurs. Hann skal þá innan tveggja sólarhringa fara á staðinn og meta ástand búfjárins og aðbúnað. Héraðsdýralækni er skylt að kalla til héraðsráðunaut og/eða fulltrúa yfirdýralæknis sér til aðstoðar við aðgerðir samkvæmt þessari grein. Héraðsdýralæknir og héraðsráðunautur eða fulltrúi yfirdýralæknis skulu gefa umráðamanni búfjár skrifleg fyrirmæli um ráðstafanir telji þeir það nauðsynlegt og upplýsa sveitarstjórn um málið. Veita skal mest einnar viku frest til úrbóta ef um vanfóðrun eða harðýðgi er að ræða en mest þriggja vikna frest ef aðbúnaði er ábótavant og skal gefa umráðamanni búfjár mest fjögurra sólarhringa frest til andmæla.
    Neiti umráðamaður búfjár eftirlitsaðilum um aðgang að gripahúsum og/eða beitilöndum þannig að ekki verði komið við eftirliti skal héraðsdýralæknir tilkynna lögreglustjóra það skriflega innan sólarhrings og skal lögreglustjóri þá óska eftir dómsúrskurði.
    Virði umráðamaður búfjár ekki þær ráðstafanir sem lagðar voru fyrir eða geti ekki orðið við þeim og/eða héraðsdýralæknir telur úrbætur ekki þola bið skal lögreglustjóri taka búfé úr vörslu umráðamanns búfjár innan tveggja sólarhringa.
    Lögreglustjóri skal ráðstafa búfé í samráði við héraðsdýralækni og sveitarstjórn eftir vörslusviptingu. Heimilt er að aflífa búféð að undangengnum fjögurra sólarhringa andmælafresti umráðamanns búfjár.
    Héraðsdýralæknir getur í samráði við yfirdýralækni aflífað innan tveggja sólarhringa búfé sem orðið hefur fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Lögreglustjóri ber ábyrgð á þeim aðgerðum.
    Í öllum tilvikum ber sveitarstjórn að útvega fóður, hlutast til um fóðrun og aðbúnað eða ráðstafa búfé til fóðrunar þar til það hefur verið tekið úr vörslu búfjáreiganda. Sjái sveitarstjórn sér ekki fært að útvega fóður, hlutast til um fóðrun eða sjá um aðbúnað búfjárins skal þegar grípa til vörslusviptingar, sbr. 3. mgr.
    Umráðamaður búfjár er hlut á að máli ber allan kostnað af þessum ráðstöfunum. Um gjaldtöku vegna eftirlits fer samkvæmt gildandi gjaldskrá, sbr. ákvæði 4. mgr. 10. gr. Sveitarstjórn, lögreglustjóri, og eftirlitsaðilar eiga lögveð í búfénu vegna kostnaðar sem hlýst af framkvæmd þessarar greinar eða kröfurétt í aðrar eignir hans. Þó skal viðkomandi eftirlitsaðili bera kostnað sem hlýst af tilefnislausri tilkynningu.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
17. gr.

    Landbúnaðarráðherra getur m.a. sett eftirfarandi reglugerðir um nánari framkvæmd laganna:
     1.      Reglugerð um merkingar búfjár þar sem kveðið er á um að umráðamönnum búfjár sé skylt að merkja allt búfé sitt samkvæmt viðurkenndu merkingar- og skráningarkerfi.
     2.      Reglugerð um vörslu búfjár. Í reglugerðinni skal fjallað um almenn ákvæði um vörslu búfjár af hverri tegund og einnig kveðið á um almennar reglur um framkvæmd þeirrar vörslu.
     3.      Reglugerð um aðbúnað og meðferð búfjár. Ráðherra gefur út reglugerð um einstakar búfjártegundir í samvinnu við viðkomandi búgreinasamband, Bændasamtök Íslands og yfirdýralækni. Í reglugerðinni skal kveðið á um mismunandi reglur sem gilda um búfé eftir aldri og tegund þess. Eftirlit með framkvæmd aðbúnaðarreglugerða skal falið búfjáreftirlitsmönnum og héraðsdýralæknum.
     4.      Reglugerð um starfssvæði búfjáreftirlits og framkvæmd þess, svo sem forðagæslu, eftirlitið sjálft og talningu búfjár. Í reglugerðinni skal m.a. fjalla um haust- og vorskýrslur.

18. gr.

    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum og samþykktum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi, ef miklar sakir eru. Hafi búfjáreigandi gerst sekur um illa meðferð á búfé skal hann sviptur leyfi til að eiga eða halda búfé. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

19. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 46/1991, um búfjárhald, forðagæslu o.fl., ásamt síðari breytingum. Reglugerðir sem settar hafa verið með heimild í eldri lögum halda gildi sínu þar til þær hafa verið endurskoðaðar að svo miklu leyti sem þær samrýmast lögum þessum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í október árið 1999 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til að endurskoða lög um búfjárhald, forðagæslu o.fl. Meginmarkmið endurskoðunarinnar var að gera úrræðaferil laganna skýrari og skilvirkari.
    Í nefndinni sátu Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, sveitarstjóri Rangárvallahrepps, Gunnar Sæmundsson, bóndi í Hrútatungu, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Kristján Bjarndal Jónsson, héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, og Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá embætti yfirdýralæknis.
    Miklar umræður urðu um búfjáreftirlitið, hvar ætti að vista það, umfang hvers svæðis og einnig hvernig uppbygging búfjáreftirlitsins ætti að vera, þannig að ná mætti því markmiði að minnka nálægð eftirlitsaðila og gera eftirlitið skilvirkara. Einnig var mikið rætt um leyfi til að halda búfé og úrræðaferilinn í lögunum. Nefndin hélt 18 fundi og náðist að lokum samstaða um það frumvarp sem hér er lagt fram að undanteknu séráliti Gunnars Sæmundssonar sem birt er sem fylgiskjal. Auk þess var gerð breyting á 4. gr. og 4. mgr. 10. gr. frumvarpsins í meðförum ráðuneytisins. Frumvarpið var sent fjölda aðila sem gáfu góðar ábendingar og ítarlega var farið yfir umsagnirnar og mörg atriði tekin til greina sem bent var á að betur mættu fara.
    Fyrsta meginbreytingin sem lögð er til með frumvarpinu er sú að búfjáreftirlitssvæðin eru stækkuð og þeim fækkað. Hugsunin er að kveða nánar á um búfjáreftirlitssvæðin í reglugerð, þannig verði auðveldara að breyta svæðaskipan, t.d. við sameiningu sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að samræma búfjáreftirlit um land allt og er Bændasamtökum Íslands falið það hlutverk. Einnig er bent á mikilvægi þess að gæta sérstaklega að hæfi búfjáreftirlitsmanna samkvæmt stjórnsýslulögum. Markmið nefndarinnar er m.a. að minnka þá nálægð sem verið hefur í búfjáreftirliti.
    Önnur meginbreyting er að dregið er úr forðagæslueftirliti hjá þeim sem allt er í lagi hjá eða hefur verið síðustu ár. Þeir skila sjálfir inn skýrslu með upplýsingum um fjölda búfjár og heildarmagn forða. Hætt er eftirlitsferð hjá þeim sem starfrækja innra eftirlit eða hafa gæðastýringu sem viðurkennd er af Bændasamtökum Íslands, hins vegar senda þessir aðilar inn haustskýrslu eins og aðrir. Þar sem gerðar hafa verið athugasemdir við aðbúnað og/eða fóðrun búfjár á síðustu 15 mánuðum, miðað við 15. apríl, skal búfjáreftirlitsmaður halda uppi sérstöku eftirliti. Þessi breyting er tilkomin vegna þess að eðlilegt þykir að þeim aðilum, þar sem ekkert er aðfinnsluvert, sé treyst til að fylla út forðagæsluskýrslu og skila henni fyrir tilskilinn tíma. Nefndarmenn telja bændur fyllilega færa um að meta nauðsynlegt heildarmagn af forða í samræmi við fjölda búfjár og gera ráðstafanir til úrbóta ef fóður vantar.
    Þriðja meginbreytingin sem lögð er til er að sveitarstjórn haldi skrá yfir þá sem halda búfé innan umdæmis sveitarfélagsins. Með þessari breytingu verður til heildarskrá yfir þá sem halda búfé og er Bændasamtökum Íslands falið að halda slíka skrá.
    Fjórða meginbreytingin með frumvarpinu er gerð á úrræðaferlinum. Þegar upp koma mál er varða slæman aðbúnað og/eða fóðrun skal tilkynna þau beint til héraðsdýralæknis. Héraðsdýralæknir þarf að kalla með sér héraðsráðunaut og/eða fulltrúa yfirdýralæknis við eftirlitsstörf á síðari stigum. Ef hins vegar þarf að grípa til harðari aðgerða stjórnar lögreglustjóri þeim, t.d. ef vörslusvipta á og eða aflífa, en aflífun fer þó ávallt fram í samráði við yfirdýralækni.
    Fimmta meginbreytingin sem lögð er til með frumvarpinu er að upplýsingaöflun um uppskeru hjá kartöflu- og gulrófnabændum verði lögð niður. Talið er eðlilegra að viðkomandi samtök afli þessara upplýsinga sjálf.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Helstu breytingar á greininni frá núgildandi lögum eru þær að kveðið er á um tilgang laganna og bætt er við að fjallað sé um vörslu búfjár. Einnig er kveðið á um að með lögunum sé verið að afla gagna um hagtölur.

Um 2. gr.

    Greinin er óbreytt frá núgildandi lögum utan þess að 3. mgr. er felld niður. Í 3. gr. frumvarpsins eru ítarlegar skilgreiningar og þykir eðlilegt að núgildandi 3. mgr. færist yfir í 3. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Hér þykir nauðsynlegt að skilgreina þau hugtök sem koma fyrir í lögunum. Um nokkur ný hugtök er að ræða sem afar brýnt er að hafa vel skilgreind þannig að ekki fari á milli mála við hvað sé átt.

Um 4. gr.

     4. gr. er nýmæli, en nauðsynlegt er að halda skrá yfir alla þá sem halda búfé, sbr. skilgreiningu búfjár í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Með breytingunni verður til skrá yfir alla búfjáreigendur þar sem Bændasamtök Íslands munu halda heildarskrá. Gert er ráð fyrir því að sveitarstjórnir sendi uppfærða skrá árlega fyrir 15. janúar til búnaðarsambanda, héraðsdýralækna og Bændasamtaka Íslands. Þeir sem eiga búfé og hafa það í hagagöngu skulu vera skráðir í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili. Sveitarstjórn heldur skrá yfir þá sem eiga búfé og uppfærir hana árlega. Skrá skal bæði hjón, alla aðila félagsbús. Þar sem skráðir eru bústjórar skulu þeir teljast umráðamenn búfjár. Sé um að ræða annars konar félagsform við búrekstur skal stjórnarformaður teljast umráðamaður búfjár nema gerður sé samningur við annan aðila.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er 3. og 4. gr. núgildandi laga steypt saman. Í 1. mgr. er bætt við að birta skuli slíka samþykkt í Stjórnartíðindum þannig að ekki fari á milli mála að allir geti kynnt sér samþykktina.
    2. mgr. er nokkuð breytt frá því sem er í 2. mgr. 4. gr. núgildandi laga. Gæta verður sérstaklega að skilyrðum sem takmarka atvinnufrelsi og eignarrétt manna, sbr. stjórnskipunarlög, nr. 33/1944, og lög um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994.
    Í 3. mgr. er fjallað um mat á bótum en í núgildandi lögum er ekki fjallað um mat á bótum eða hverjir skuli meta bætur til viðkomandi aðila. Nauðsynlegt er að gera hér breytingar til að skýrt sé kveðið á um það hvaða fagaðilar meti það tjón sem búfjáreigandi verður fyrir vegna slíkra takmarkana sem um getur í 2. mgr. Í frumvarpinu er lagt til að matsnefnd eignarnámsbóta meti bætur samkvæmt lögunum.

Um 6. gr.

    1. mgr. er nær samhljóða 1. og 2. mgr. 5. gr. núgildandi laga.
    2. mgr. er nýmæli. Þar er kveðið á um það að þar sem sveitarstjórn hefur gert búfjáreigendum skylt að hafa búfé í vörslu skuli vera gripheld girðing og að umráðamaður búfjár beri ábyrgð á að svo sé. Hvað varðar kostnaðarskiptingu við uppsetningu girðinga og viðhald þeirra er vísað til ákvæða girðingar- og vegalaga.

Um 7. gr.

    Þessi grein er samhljóða 6. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að aldri graðhesta er ber að hafa í vörslu allt árið er breytt frá því að hægt sé að skylda menn til að hafa 12 mánaða hross í vörslu allt árið, óskaði hrossaræktarsamband og/eða sveitarstjórn eftir því við ráðherra, í skyldu til að hafa 10 mánaða og eldri graðhesta eða laungraða hesta í vörslu allt árið. Algengt er að folar verði kynþroska veturgamlir og því þarf að tryggja örugga vörslu þeirra strax að vori. Seinfæddir folar hafa ekki náð árs aldri á þeim tíma og því er lagt til að aldurinn verði færður niður í 10 mánuði.
    Sú breyting er lögð til í 2. mgr. að lögreglustjóri í stað hreppstjóra áður skal hlutast til um að graðpeningur, sem ekki er í öruggri vörslu, sé handsamaður og honum komið í örugga vörslu. Hreppstjórar eru orðnir mjög fáir í landinu og því þykir eðlilegt að hér taki lögreglustjóri við þeirra skyldum. Við ítrekuð brot (hugsað strax við þriðja brot) skal vera heimilt að selja graðhest nauðungarsölu samkvæmt lögum um nauðungarsölu en síðan sé heimilt að fella hann verði hann ekki seldur. Nauðsynlegt er að hér komi inn heimildarákvæði er kveði á um aflífun sé graðhestur ekki seldur.

Um 8. gr.

    Þessi grein er nýmæli og kveður á um það að umráðamönnum lands, sbr. skilgreiningu á umráðamanni lands í 3. gr. laganna, sé heimilt að ákveða að tiltekið og afmarkað landsvæði sé friðað fyrir ágangi búfjár. Umráðamaður lands verður að uppfylla skilyrði um fullnægjandi vörslulínur, sbr. ákvæði 3. gr. laganna, sem teknar hafa verið út af búnaðarsambandi. Slíka ákvörðun skal tilkynna sveitarstjórn, sem auglýsir hana í Stjórnartíðindum. Einnig er fjallað um það að umráðamaður lands skuli framvísa til sveitarstjórnar fyrir 15. maí á hverju vori umsögn búnaðarsambands um að vörslulínur séu fullnægjandi. Um kostnað við uppsetningu og viðhald girðinga á landamerkjum fer eftir ákvæðum girðingar- og vegalaga. En sé um að ræða girðingu sem er inni á landi umráðamanns landsins ber hann alfarið þann kostnað sem hlýst af uppsetningu og viðhaldi.

Um 9. gr.

    Þessi grein er einnig nýmæli og tekur til þeirra svæða þar sem lausaganga er bönnuð samkvæmt heimild í 8. gr. Greinin fjallar um hvað gera skuli ef búfé kemst inn á þau svæði þar sem lausaganga er bönnuð og hvernig málsmeðferðin er. Mikilvægt er að búféð sé ekki haft í svelti og því er það á ábyrgð umráðamanns lands að handsama, fóðra og geyma búféð þar til umráðamaður búfjár sækir það. Umráðamaður búfjár ber þó allan kostnað af geymslu, fóðrun og/eða gæslu þess eða heimkeyrslu, verði ekki orðið við tilmælum um að sækja það innan tveggja sólarhringa frá tilkynningu. Hafi umráðamaður búfjár ekki fundist eða sinnt fyrirmælum um að sækja búféð innan tveggja sólarhringa frá tilkynningu getur umráðamaður lands afhent það lögreglustjóra sem ráðstafar því í samráði við sveitarstjórn.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það að lögreglustjóri, sveitarstjórn og umráðamaður lands eigi lögveð í búfénu fyrir sannanlegum kostnaði. Komi í ljós að girðingu í kringum hið friðaða svæði var ábótavant ber umráðamaður lands ábyrgð á greiðslu þess kostnaðar sem hlýst af geymslu og fóðrun búfjárins. Valdi búféð tjóni fer um greiðslu bóta eftir almennu sakarreglunni.

Um 10. gr.

    Mikil umræða varð í nefndinni um vistun búfjáreftirlitsins. Nauðsyn þótti að breyta þeirri framkvæmd sem í gildi er, í þá átt að stækka eftirlitssvæðin þannig að minni hætta væri á hagsmunaárekstrum. Niðurstaðan varð sú að kveða á um starfssvæði búfjáreftirlits í reglugerð en með því móti væri mun auðveldara að gera breytingar á starfssvæðum, t.d. við sameiningu sveitarfélaga.
    Í 1. mgr. er kveðið á um það að minni sveitarfélögin skuli reka búfjáreftirlit sameiginlega á skilgreindum starfssvæðum sem kveðið verður á um í reglugerð. Stærstu sveitarfélögin geta verið sjálfstæð.
    Í 2. mgr. er fjallað um búfjáreftirlitsmann, menntun hans og starfsskyldur. Auk þess er fjallað um námskeið sem Bændasamtök Íslands munu halda til að samræma störf búfjáreftirlitsmanna og handbók sem þau útbúa fyrir búfjáreftirlitsmenn með helstu upplýsingum. Einnig er sérstaklega fjallað um hæfi búfjáreftirlitsmanna samkvæmt stjórnsýslulögum. En í 3. og 4. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er fjallað um vanhæfi og áhrif þess.
    Í 3. mgr. er fjallað um það að sveitarfélög á hverju starfssvæði geti með samkomulagi sín í milli falið sérstökum aðila umsjón með fjárreiðum og aðstöðu fyrir búfjáreftirlitið, svo sem búnaðarsamböndum, eða t.d. falið stærsta sveitarfélaginu að hafa umsjón með þessum þáttum.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að kostnaður af starfi búfjáreftirlits greiðist af sveitarfélögunum, en þeim sé þó heimilt að leggja á eftirlitsgjald á móti sannanlegum kostnaði við búfjáreftirlitið samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Eftirlitsgjaldið skal standa straum af kostnaði við akstur og vinnustundir búfjáreftirlitsmanna í samræmi við umfang eftirlits hjá hverjum aðila. Einnig er heimilað að leggja á eftirlitsgjald fyrir handsömun, fóðrun og hýsingu gripa, sbr. 9., 15. og 16. gr., eftir því sem við getur átt í hverju tilviki. Nauðsynlegt er að hafa slíkt heimildarákvæði í lögunum til þess að gera sveitarfélögum sem það vilja mögulegt að leggja á eftirlitsgjald. Sjálfsforræði sveitarfélaga í þessum efnum þarf að vera tryggt. Ef vilji er til þess innan sveitarfélags að búfjáreigendur standi undir hluta eða öllum kostnaði við búfjáreftirlit á það að vera valkostur sem unnt er að nýta.
    Í 5. mgr. er fjallað um búfjáreftirlitsnefnd. Hún kemur fram fyrir hönd sveitarfélaganna, sem reka sameiginlega búfjáreftirlit, sem yfirstjórn gagnvart starfsfólki, eftirlitsskyldum aðilum og öðrum sem höfð eru samskipti við.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um haustskýrslu frá Bændasamtökum Íslands sem búfjáreftirlitsmaður sendir öllum umráðamönnum búfjár á sínu starfssvæði. Í haustskýrslunni eiga að koma fram upplýsingar um fjölda búfjár af hverri tegund, aldur þess, aðbúnað, fóðrun og þar með beit. Einnig skulu koma fram upplýsingar um gróffóðurforða, tegund, uppruna og fyrningar. Þá skulu auk þess koma fram upplýsingar um kaup á heyi. Geta skal um allt búfé sem tekið er í hagagöngu. Senda skal skýrsluna útfyllta til baka í síðasta lagi 20. nóvember. Gert er ráð fyrir því að hægt verði að senda og skila á rafrænu formi. Skili umráðamaður búfjár haustskýrslu ekki fyrir tilskilinn frest skal búfjáreftirlitsmaður fara og skoða hjá viðkomandi og ber umráðamaður búfjár allan kostnað eftirlitsins í samræmi við gildandi gjaldskrá. Sá aukakostnaður sem umráðamaður búfjár verður fyrir ef hann skilar ekki haustskýrslu fyrir 20. nóvember hlýtur að leiða til þess að umráðamenn búfjár skili frekar en ella útfylltum skýrslum fyrir frestlok. Í ákvæðinu segir að landbúnaðarráðuneytið geti heimilað að fella niður þessa upplýsingaöflun ef til er gagnagrunnur þar sem upplýsingar þessar liggja fyrir. Hér er t.d. átt við gagnagrunn sem myndast við einstaklingsmerkingu gripa. Þá nær heimildin til þess að fella niður upplýsingaöflun að hluta.

Um 12. gr.

    Í greininni er fjallað um grunneftirlit. Kveðið er á um eftirlitsferð sem búfjáreftirlitsmaður skal fara einu sinni á ári, fyrir 15. apríl, til þeirra sem ekki starfrækja innra eftirlit eða eru með viðurkennda gæðastjórnun á búum sínum. Gæðastjórnunin verður að vera viðurkennd af Bændasamtökum Íslands. Óeðlilegt er að margar eftirlitsferðir séu farnar til þeirra sem starfrækja innra eftirlit eða hafa gæðastjórnun viðurkennda af Bændasamtökum Íslands. Hins vegar er eðlilegt að búfjáreftirlitsmaður geti tekið að sér eftirlit samkvæmt gæðastýringarkerfi en í þessum lögum er ekki tekið á því heldur verða sett sérstök lög sem fjalla um það, enda ekki sami aðili sem greiðir fyrir eftirlit samkvæmt gæðastýringu og almennt búfjáreftirlit, nema búfjáreigandi beri kostnaðinn í báðum tilvikum. Í eftirlitsferðinni skal búfjáreftirlitsmaður líta eftir aðbúnaði búfjár, fóðrun og sannreyna fjölda þess. Hafi verið gerðar athugasemdir við aðbúnað búfjár og/eða fóðrun þess síðustu 15 mánuði miðað við 15. apríl skal búfjáreftirlitsmaður halda uppi sérstöku eftirliti, t.d. með því að fara í aukaeftirlitsferðir. Ekki er ætlast til að búfjáreftirlitsmaður fari margar ferðir á bæi því ef hlutirnir eru ekki í lagi skal grípa til aðgerða skv. 16. gr.
    Í 2. mgr. er kveðið á um greiðslu þess kostnaðar sem hlýst af eftirlitinu og vísað til 4. mgr. 10. gr. laganna.

Um 13. gr.

    Í greininni er kveðið á um að búfjáreftirlitsmaður skuli senda haustskýrslur, sbr. 11. gr., til viðkomandi búnaðarsambands eigi síðar en 31. desember ár hvert. Búnaðarsamböndin yfirfara gögnin og senda Bændasamtökum Íslands frumritin eigi síðar en 20. janúar. Bændasamtökin annast úrvinnslu upplýsinganna og skulu þær heimilar til afnota fyrir Hagstofu Íslands, Hagþjónustu landbúnaðarins, Bændasamtök Íslands og fleiri opinbera aðila að fengnu leyfi landbúnaðarráðuneytisins.

Um 14. gr.

    Greinin fjallar um búfé í hagagöngu og hver ber ábyrgð á því. Séu gripir í hagagöngu á eyðijörðum eða landspildum þar sem ekki er föst búseta skal umráðamaður búfjár ætíð tilgreina tilsjónarmann, fyrirframsamþykktan af sveitarstjórn. Tilsjónarmaður sér um fóðrun og eftirlit með aðbúnaði búfjár og beitilöndum þess. Tilsjónarmaður skal skráður á viðkomandi skýrslu. Umráðamaður lands ber ábyrgð á fullnægjandi upplýsingum um búfé í hagagöngu og umráðamann þess.

Um 15. gr.

    Greinin fjallar um það þegar umráðamaður búfjár synjar búfjáreftirlitsmanni um aðgang að gripahúsum eða beitilöndum og ekki verður komið við upplýsingaöflun samkvæmt lögunum. Greinin er efnislega samhljóða 2. mgr. 10. gr. núgildandi laga.

Um 16. gr.

    Héraðsdýralæknir ber ábyrgð eftir að ábending er komin til hans um vanfóðrun og/eða slæman aðbúnað, fari málið hins vegar enn lengra og komi til aflífunar eða vörslusviptingar færist ábyrgðin yfir á lögreglustjóra. Hér er leitast við að gera aðgerðir eftirlitsaðila skilvirkar. Þegar mál eru komin í farveg samkvæmt þessari grein er oft þörf skjótra aðgerða og því eru allir frestir styttir til muna. Auk þess er nákvæmlega skilgreint hver fer með ábyrgð á hverju stigi. Hér er einnig bætt við heimild til aflífunar, bæði þegar umráðamaður búfjár er vörslusviptur búfé, sbr. 4. mgr., og þegar búfé hefur orðið fyrir varanlegum skaða, sbr. 5. mgr.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að búfjáreftirlitsmaður skuli tilkynna héraðsdýralækni komi í ljós að aðbúnaður eða fóðrun sé ábótavant eða búféð beitt harðýðgi. Skal þá héraðsdýralæknir fara á staðinn og meta ástand búfjár og aðstæður á staðnum, héraðsdýralæknir getur farið einn á staðinn en komi til frekara eftirlits skal hann kalla til héraðsráðunaut og/eða fulltrúa yfirdýralæknis. Héraðsdýralæknir og héraðsráðunautur eða fulltrúi yfirdýralæknis skulu skrifa fyrirmæli um úrbætur. Nauðsynlegt er að tveir sérfræðingar gefi fyrirmælin. Mikilvægt er að gefa umráðamanni búfjár frest til úrbóta. Frestur til úrbóta ef um vanfóðrun eða harðýðgi er að ræða skal mest vera ein vika, en þrjár vikur ef aðbúnaði er ábótavant. Andmælafrestur aðila skal mest vera fjórir sólarhringar.
    Í 2. mgr. er fjallað um þá stöðu þegar umráðamaður búfjár meinar eftirlitsaðilum samkvæmt þessari grein um aðgang að gripahúsum og/eða beitilöndum. Þá er nauðsynlegt að úrræðaferillinn sé skýr, héraðsdýralæknir tilkynni lögreglustjóra um það skriflega innan sólarhrings og lögreglustjóri óski eftir dómsúrskurði. Hér verður að hafa í huga að um lifandi dýr er að ræða og því brýnt að fá dómsúrskurð til aðgerða.
    Í 3. mgr. er kveðið á um frekari aðgerðir virði umráðamaður búfjár ekki þær ráðstafanir sem lagðar voru fyrir eða geti ekki orðið við þeim og er þá hægt að vörslusvipta umráðamann búfjárins búfénu. Lögreglustjóri tekur aðgerðir þá í sínar hendur og stýrir þeim.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að lögreglustjóri ráðstafi búfénu í samráði við héraðsdýralækni og sveitarstjórn. Kveðið er á um heimild til að aflífa búfé að undangengnum fjögurra sólarhringa andmælafresti umráðamanns búfjár.
    Í 5. mgr. er fjallað um heimild héraðsdýralæknis, í samráði við yfirdýralækni, til að aflífa búfé innan tveggja sólarhringa hafi það orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Lögreglustjóri ber ábyrgð á aðgerðum. Hér er nauðsynlegt að héraðsdýralæknir eða annar sérfræðingur meti ástand búfjárins.
    Í 6. mgr. er kveðið á um skyldur sveitarstjórnar til að útvega fóður, hlutast til um fóðrun og umhirðu eða ráðstafa búfé til fóðrunar þar til það hefur verið tekið úr vörslu búfjáreiganda. Þessar skyldur eru byggðar á dýraverndarástæðum og þá einkum vegna þess að nauðsynlegt er að staðkunnur aðili beri ábyrgð á fóðrun og vörslu búfjárins þar til vitað er um nánari afdrif þess.
    Í 7. mgr. er síðan kveðið á um að umráðamaður búfjár beri allan kostnað af þessum ráðstöfunum og sveitarstjórn, lögreglustjóri og aðrir eftirlitsaðilar eigi lögveð í búfénu vegna kostnaðar sem hlýst af þessari grein. Þó er kveðið á um það að viðkomandi eftirlitsaðili beri allan kostnað sem hlýst af tilefnislausri tilkynningu.

Um 17. gr.

    Hér er kveðið á um reglugerðir sem landbúnaðarráðherra setur. Í gildandi lögum er fjallað um allar þessar reglugerðir nema reglugerð um starfssvæði búfjáreftirlits og framkvæmd þess. Nauðsynlegt þykir að nánar sé fjallað um merkingar búfjár, vörslu búfjár, aðbúnað og meðferð búfjár í sérstökum reglugerðum.

Um 18.–19. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.




Fylgiskjal I.


Sérálit.

    Undirritaður skilar hér eftirfarandi séráliti um frumvarp til laga um búfjárhald o.fl.
    Í 4. mgr. 10. gr. er fjallað um kostnað við búfjáreftirlit. Eins og greinin er orðuð er sveitarstjórnum heimilt að leggja á alla búfjáreigendur eftirlitsgjald til að standa undir kostnaði við eftirlitið.
    Það er skoðun undirritaðs að forðagæsla og búfjáreftirlit sé að verulegum hluta opinbert eftirlit fremur en þjónusta við bændur. Því getur undirritaður ekki samþykkt gjaldtöku vegna hins almenna hluta eftirlitsins, þ.e. reglulegt eftirlit og umsýslu hvað varðar þá sem rækja skyldur sínar varðandi þá þætti sem lögin kveða á um. Þann þátt í framkvæmd laganna verður að meta að eðlilegt sé að greiddur verði af opinberu fé.
    Þetta sérálit er í fullu samræmi við samþykkt Búnaðarþings 2001 um þetta mál.
    Upphaf 12. gr. orðist svo:
    Búfjáreftirlitsmaður skal á hverjum vetri, fyrir 15. apríl, heimsækja alla umráðamenn búfjár í sínu umdæmi. Bændasamtök Íslands hafa heimild til að undanþiggja einstök bú sem starfrækja innra eftirlit eða gæðastjórnun. Þau skulu láta búfjáreftirlitsmanni ... (greinin síðan óbreytt).

Gunnar Sæmundsson.





Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um búfjárhald o.fl.

    Tilgangur frumvarpsins er að samræma eftirlit með búfjárhaldi og gera það skilvirkara. Í frumvarpinu er lagt til sveitarfélög á hverju starfssvæði greiði allan kostnað við þá starfsemi. Sveitarfélögum verður heimilt að leggja á eftirlitsgjald á móti þessum kostnaði samkvæmt gjaldskrá sem tekur mið af kostnaði við eftirlitið.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.