Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 448  —  241. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um útbreiðslu ADSL-þjónustu.

     1.      Í hvaða sveitarfélögum á Íslandi er boðið upp á ADSL-þjónustu og hvaða fjarskiptafyrirtæki veita hana á hverjum stað fyrir sig?
    ADSL-þjónusta er tvíþætt, annars vegar er um að ræða heimtaugina með sérstökum endabúnaði sem sendir gögn á öðru tíðnisviði en nýtt er fyrir almenna talsímaþjónustu, hins vegar er um það að ræða að boðin sé ADSL-netþjónusta en hún felst í tengingu notandans við efni á internetinu. Fyrir utan þá aðila sem selja aðgang að hinum eiginlegu ADSL-línum og endabúnaði selja netþjónustur internetaðgang. Slík þjónusta er boðin á landsvísu.
    Íslandssími selur ADSL-fjarskiptaþjónustu í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og á Akureyri. Áformað er að veita slíka þjónustu víðar en þau áform eru ekki opinber. Íslandssími endurselur jafnframt aðgang að xDSL-kerfi Landssímans á öðrum svæðum. Landssíminn býður upp á ADSL-fjarskiptaþjónustu í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ, Bessastaðahreppi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Borgarnesi, á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Húsavík, Sauðárkróki, Egilsstöðum, Höfn, Selfossi og í Vestmanneyjum.
    Einungis þeir notendur sem eru innan við 4 km frá símstöð þar sem ADSL-búnaður hefur verið settur upp eiga möguleika á að fá þjónustuna. Í stóru sveitarfélögunum Ísafjarðarbæ, Skagafirði, Egilsstöðum og Árborg er þjónustan einungis veitt í byggðakjörnunum sem taldir eru upp hér að ofan.
    Gildandi fjarskiptalög tryggja fjarskiptafyrirtækjum rétt til þess að bjóða ADSL-endabúnað og þjónustu án þess að þau þurfi að byggja upp nýtt kerfi frá grunni. Slík sala getur verið allt frá hreinni endursölu til þess að fyrirtækið noti einungis eigin búnað og allt þar á milli. Fjarskiptafyrirtækið gæti því leigt heimtaug af Landssímanum á kostnaðarverði að viðbættum hæfilegum hagnaði en notað eigin búnað að öllu öðru leyti. Fjarskiptafyrirtækin Halló – frjáls fjarskipti, Lína.net og Snerpa eru í hópi þeirra sem eru að þróa sölu gagnaflutningsþjónustu sinnar með blöndu eigin búnaðar og annarra. Einnig er rétt að nefna að dæmi eru um að einstaklingar og fyrirtæki hafi sett eigin xDSL búnað á leigulínur og einkanet til þess að auka bandvídd þeirra.

     2.      Eru einhver skilyrði sett af fjarskiptafyrirtækjunum, t.d. hvað varðar fjölda notenda í upphafi?
    Ákvarðanir um uppbyggingu ADSL-þjónustu byggjast almennt á viðskiptaforsendum enda marka fjarskiptalög fyrst og fremst leikreglur markaðarins á meðan fyrirtækin ákvarða forsendur eigin rekstrar. Þó hefur Landssími Íslands með samkomulagi við samgönguráðherra skuldbundið sig til að byggja upp ADSL-þjónustu í öllum stærri þéttbýliskjörnum, þannig að á næstu tveimur árum nái framangreind þjónusta, eða önnur jafngild þjónusta, til 75–80% þjóðarinnar. Samkomulagið var undirritað 16. mars 2001. Frekari ákvarðanir hafa ekki verið teknar hjá Landssímanum um áframhaldandi uppbyggingu á ADSL-fjarskiptaþjónustu á minni stöðum.
    ADSL-þjónusta er aðeins ein tegund aðferða við að flytja gögn á fjarskiptanetum. Tæknin að baki er hluti af tegundarflokki endabúnaðar koparpars sem gengur almennt undir viðurnefninu xDSL. Með slíkum búnaði er mögulegt að auka verulega flutningsgetu hefðbundinnar heimtaugar á almenna talsímanetinu með því að senda gögn á hárri tíðni. Kostir xDSL-lausna eru því fólgnir í möguleikum á verulegri aukningu bandvíddar milli fjarskiptafyrirtækis og endanotanda án þess að grafa þurfi fyrir nýrri heimtaug. Fjölmargir tæknilegir annmarkar fylgja hins vegar tækninni sem gera það að verkum að einungis er skynsamlegt að nota hana í þéttbýli. Þar vegur þyngst að eðlisfræðilegir eiginleikar hátíðnisendinga yfir koparþræði valda því að flutningsgeta minnkar verulega með aukinni fjarlægð frá símstöð. Þá má einnig nefna að rafsegulsvið sem leiðir af xDSL-gagnaflutningi veldur truflunum á fjarskiptum þegar u.þ.b. 30% samhliða koparþráða eru með slíkan búnað.
    Sennilega er útbreiðsla ADSL-þjónustu nú þegar komin til smærri og dreifbýlli staða en venjulegt er í öðrum löndum þar sem þessi þjónusta einskorðast við stærri bæi með íbúafjölda sem skiptir tugum þúsunda. Þegar Landssími Íslands hf. setti upp ADSL-þjónustu var reynt að miða við að 30 að minnsta kosti hefðu pantað þjónustu. Ekki hefur verið ákveðið hvort slík regla verði notuð framvegis enda eru 30 notendur á hverjum stað væntanlega of lítið til að standa undir útlögðum kostnaði. Íbúar annarra svæða mega því eiga von á því að fjarskiptatengingar þeirra byggist á annarri og hagkvæmari tækni. Þá er rétt að hafa það í huga að notendur geta látið sér í léttu rúmi liggja hvort þeir eru tengdir með ISDN, ADSL, VDSL, SDSL-endabúnaði, ljósleiðara eða þráðlausri tækni, þar sem það er fremur bandvídd tengingarinnar en tegundarheiti endabúnaðarins sem hefur áhrif á notkunarmöguleika á internetinu.