Ferill 279. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 486 —  279. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um samninginn um líffræðilega fjölbreytni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður gerð framkvæmdaáætlunar fyrir samninginn um líffræðilega fjölbreytni sem tók gildi hér á landi 11. desember 1994?


    Í samræmi við ákvæði 6. greinar samnings um líffræðilega fjölbreytni, þar sem fjallað er um aðgerðir vegna verndar og sjálfbærrar nýtingar líffræðilegrar fjölbreytni, og ákvarðanir aðildarríkjafunda samningsins um framkvæmd þessarar greinar og 8. greinar um vernd upprunalegs umhverfis hefur verið unnið að undirbúningi framkvæmdaáætlunar um líffræðilega fjölbreytni hér á landi. Fyrsta skrefið í gerð hennar er að fá sem best yfirlit og mat á stöðu líffræðilegrar fjölbreytni hér á landi. Því hefur verið unnið að söfnun upplýsinga um stöðuna til þess að unnt verði að setja upp raunhæfa áætlun um varðveislu og sjálfbæra nýtingu efnisþátta náttúrunnar. Ísland hefur skilað fyrstu skýrslu um líffræðilega fjölbreytni til skrifstofu samningsins og nú liggur fyrir tillaga að uppbyggingu og helstu efnisþáttum framkvæmdaáætlunar sem byggist að nokkru leyti á þeirri skýrslu. Ætlunin er að vinna framkvæmdaáætlunina áfram í vetur og fram á haustið þannig að hún verði tilbúin á svipuðum tíma og fyrsta náttúruverndaráætlunin sem ráðgert er að kynna fyrir Alþingi næsta haust í samræmi við ákvæði laga um náttúruvernd, enda er nauðsynlegt að framkvæmdaáætlunin endurspegli þær áherslur sem lagðar verða í náttúruverndaráætluninni. Nú er jafnframt unnið að gerð áætlunar um sjálfbæra þróun þar sem ætlunin er að fjalla um líffræðilega fjölbreytni, eins og fram kom á síðasta umhverfisþingi, og í öðrum köflum þeirrar áætlunar verður m.a. fjallað um sjálfbæra nýtingu lífrænna auðlinda sem er einn af þremur meginþáttum samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Það er því augljóst að mikilvægt er að samræmi sé í áherslum þessara þriggja áætlana og því gott að vinnsla þeirra fylgist nokkurn veginn að.
    Framkvæmdaáætlunin mun taka til þeirra þátta sem tengjast eða hafa áhrif á líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu líffræðilegra auðlinda og varðar því málefni annarra ráðuneyta. Því verður nauðsynlegt að hafa samvinnu við þau og stofnanir þeirra, sem og frjáls félagasamtök, um endanlega gerð hennar.